Image Alt

UMSK

Íþróttafólk heiðrað í Kópavogi

Agla María Albertsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki og Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu og voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2018.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Golfskála GKG 10. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Valgarð og Agla María voru valin úr hópi 40 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

 Valgarð Reinhardsson

Valgarð varð á liðnu ári Íslandsmeistari í fjölþraut á Íslandsmeistaramóti Fimleikasambandsins. Hann varð einnig Íslandsmeistari í fjórum greinum, á svifrá, í hringjum, á tvíslá og á gólfi. Valgarð var einn af burðarstólpunum í liði Gerplu sem sigraði  á Bikarmóti Fimleikasambands Íslands annað árið í röð. Á Norðurlandameistaramótinu hafnaði hann í 6. sæti í fjölþraut og í 2. sæti á tvíslá. Á Evrópumeistaramótinu í Glasgow komst Valgarð svo fyrstur Íslendinga í úrslit í stökki,  sem er frábær árangur hjá þessum unga fimleikamanni. Eftir harða keppni í úrslitum í stökki hafnaði hann að lokum í 8. sæti

Agla María Albertsdóttir

Agla María átti frábært tímabil með liði Breiðabliks 2018, sem er eitt það besta í sögu félagsins, en liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Agla María lék alla leiki liðsins bæði í deild og bikar og skoraði í þeim  9 mörk,  ásamt því að leggja upp fjölmörg mörk fyrir samherja sína. Hún lék 10 A-landsleiki á árinu, en liðið var hársbreidd frá því að komast á HM sem fram fer í Frakklandi á þessu ári. Þessi 19 ára gamla Kópavogsmær hefur alls leikið 19 landsleiki fyrir hönd Íslands og mun landsleikjunum  að öllum líkindum fjölga hratt á næstu árum.

Flokkur ársins 2018 var kjörinn meistaraflokkur Breiðabliks  í knattspyrnu kvenna en liðið varð Íslands- og bikarmeistari í knattspyrnu á árinu.

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: