Image Alt

Lög UMSK

Lög Ungmennasambands Kjalarnesþings

 

1. gr. Heiti og sambandssvæði

Sambandið heitir Ungmennasamband Kjalarnesþings, skammstafað UMSK. Sambandssvæðið er Garðabær, Kjósin, Kópavogsbær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær. UMSK starfar  samkvæmt lögum ÍSÍ og UMFÍ.

2. gr. Markmið og hlutverk

  1. Að vera leiðandi héraðssamband og öflugur bakhjarl aðildarfélaga á félagssvæðinu sem eflir enn frekar starf félaganna með virkum samskiptum og fylgist með nýjungum, straumum og stefnum í samfélaginu hérlendis sem og erlendis.
  2. Að stuðla að auknu samstarfi íþróttafélaganna og veita þeim ráðgjöf, fræðslu ásamt því að miðla faglegri sérþekkingu.
  3. Vera ráðgefandi og stuðla að þverfaglegu samstarfi og samvinnu.
  4. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs og vera málsvari íþróttahreyfingarinnar á félagssvæðinu auk þess að annast samstarf um íþróttamál við sveitarfélög, opinbera aðila og aðra hagsmunaaðila innan sambandssvæðisins.
  5. Að varðveita og deila milli félaganna arði frá Íslenskri Getspá.
  6. Að vera reiðubúin að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta auk ráðgjafar við aðra viðburði á vegum aðildarfélags, sé eftir því leitað.
  7. Að hafa umsjón með sameiginlegum íþróttamálum á sambandssvæðinu  samanber lög ÍSÍ um hérðassambönd og íþróttabandalög og fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild, sbr. lög ÍSÍ.
  8. Að tilkynna ÍSÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun nýrra félaga og deilda. Aðstoða aðildarfélög við að staðfesta lög/lagabreytingar aðildarfélaga og halda utan um staðfest lög félaga.

3. gr. Réttur til aðildar

Rétt til aðildar  sambandinu hafa þau ungmenna- og íþróttafélög sem starfrækt eru á sambandssvæðinu og hafa lög sín í samræmi við lög Ungmennafélags Íslands, Íþrótta- og Ólympiusambands Íslands og starfa jafnframt í anda þeirra.

4. gr. Umsókn um aðild

Félag sem óskar inngöngu í sambandið, skal senda skriflega umsókn til skrifstofu UMSK ásamt lögum félagsins, skrá yfir stofnfélaga, félagsmenn og stjórn. Félagið öðlast ekki fulla aðild að sambandinu fyrr en sex mánuðum eftir að stjórn UMSK hefur samþykkt inngönguna er staðfestast skal á næsta héraðsþingi.

5. gr. Starfs- og ársskýrslur

Aðildarfélög skulu senda starfsskýrslur rafrænt í gagnagrunn UMFÍ og ÍSÍ með félaga- og iðkendatölum.og tölum úr ársreikningum fyrir 15. apríl ár hvert. Fyrir 1. júní ár hvert skulu félögin skila árskýrslum sínum til sambandsins ásamt staðfestum ársreikningi.  Berist árskýrslur ekki fyrir tilsettan tíma er stjórn sambandsins heimilt að fresta greiðslum á hlutdeild viðkomandi aðila í tekjum Íslenskrar getspár þar til skýrslur berast.

Hvert það aðildarfélag, sem ekki hefur haldið aðalfund og sent starfsskýrslur og ársreikninga, missir atkvæðisrétt sinn á næsta ársþingi UMSK.

Líði annað ár án þess að félag haldi aðalfund eða geri skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum, getur ársþing UMSK tekið ákvörðun um, að félaginu skuli vikið úr sambandinu. Ákveði þing að víkja félagi úr sambandinu skal tilkynna það til félagsins, ÍSÍ, UMFÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda.

6. gr. Héraðsþing

Sambandið skal árlega halda héraðsþing og skal það haldið fyrir lok mars ár hvert og til skiptis hjá sambandsfélögunum. Viðkomandi félag leggur til aðstöðu.  Þó getur sambandsstjórn ákveðið aðra tilhögun með héraðsþing, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þing skal boðað með minnst mánaðar fyrirvara. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir héraðsþing skal senda aðildarfélögum með eigi minna en 15 daga fyrirvara. Tillögur að lagabreytingum og tilkynningar framboðs til formanns og stjórnar, sem og aðrar tillögur sem leggja skal fyrir þingið, skulu berast skrifstofu UMSK eigi síðar en 20 dögum fyrir þing.

7. gr. Hlutverk héraðsþings

Héraðsþing úrskurðar reikninga sambandsins, sem skulu miðast við almanaksárið. Það ræðir og gerir tillögur um starfsemi sambandsins. Ef deilur rísa milli félaga sambandsins, ber héraðsþingi að úrskurða þær nema deilumál og kærur sem fara ber með samkvæmt fjórða kafla um Dómstóla ÍSÍ í lögum ÍSÍ. Héraðsþing ákveður aðildargjald félaganna til sambandsins. Ársskýrslu og aðildargjaldið skulu sambandsfélögin senda fyrir 1. júní ár hvert.

8. gr. Fulltrúar á héraðsþingi

Sambandsfélögin kjósa aðalfulltrúa og varafulltrúa á félagsfundum sínum, til að mæta á héraðsþingi, einn fyrir hverja 100 eða færri og einn fyrir 50 umfram síðasta hundrað gjaldskyldra félagsmanna 16 ára og eldri. Þó skulu fulltrúar aldrei vera fleiri en 9 frá sama félagi. Stjórnarmeðlimir sambandsins hafa atkvæðisrétt þótt þeir séu ekki kjörnir fulltrúar. Héraðsþing skoðast lögmætt, ef löglega er til þess boðað.

9. gr. Réttur til þingsetu

Á héraðsþingi hafa aðeins kjörnir fulltrúar og sambandsstjórn atkvæðisrétt. Atkvæðisrétt á héraðsþingi hafa aðeins kjörnir fulltrúar þeirra félaga sem skilað hafa inn skýrslum skv. 5. grein. Auk þeirra eiga rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt: a. Fulltrúar ÍSÍ og UMFÍ
b. Íþróttafulltrúi ríkisins.
c. Skoðunarmenn reikninga
d. Meðlimir fastanefnda.
e. Starfsmenn sambandsins.
Auk þess getur sambandsstjórn boðið öðrum aðilum þingsetu. Aðeins sá sem er í félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi þess á héraðsþingi. Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf.

10. gr. Dagskrá héraðsþings

Störf héraðsþings, sem er æðsti aðili UMSK, eru þessi:

  1. Þingsetning.
  2. Kosning þingforseta.
  3. Kosning þingritara.
  4. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
  5. Skýrsla stjórnar lögð fram.
  6. Ársreikningur áritaður af stjórn og skoðunarmönnum lagður fram.
  7. Ávörp gesta.
  8. Álit kjörbréfanefndar.
  9. Staðfesting á aðild nýrra félaga.
  10. Umræður um skýrslu stjórnar.
  11. Umræður og atkvæðagreiðsla um reikninga.
  12. Skipað í nefndir til starfa á þinginu, ef þörf þykir, þar á meðal uppstillingarnefnd sem starfar á milli þinga.
  13. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár lögð fram.
  14. Laga- og reglugerðarbreytingar lagðar fram.
  15. Aðrar tillögur lagðar fram.
  16. Nefndarstörf um framlagðar tillögur og önnur mál sem nefndir ákveða að taka fyrir.
  17. Afgreiðsla á áliti nefnda.
  18. Önnur mál.
  19. Kosningar, kjörnefnd skilar áliti.
  20. Kosning formanns.
  21. Kosning tveggja stjórnarmanna.
  22. Kosning þriggja manna í varastjórn.
  23. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
  24. Kosning til Íþróttaþings skv. lögum ÍSÍ á því ári sem Íþróttaþing er haldið.
  25. Þingslit.

Ef lægsta atkvæðatala til að ná kosningu fellur á tvo eða fleiri, skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabeytingar sé að ræða.

11. gr. Aukaþing

Aukaþing skal halda ef nauðsyn krefur og ef helmingur sambandsaðila óskar þess. Allur boðunar- og tilkynningafrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða reglugerðarbreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt héraðsþing.

12. gr. Stjórn

Stjórn sambandsins skipa 5 menn. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, þó þannig að aðeins skal kosið um tvo árlega. Árlega skal kjósa þrjá menn í varastjórn og ennfremur tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara. Stjórninni er heimilt að skipa starfsnefndir sér til aðstoðar við sérstök verkefni eða ákveðna þætti starfsins, telji hún þess þörf.

Stjórninni er heimilt að boða til fundar með formönnum aðildarfélaga UMSK í september eða október ár hvert.

13. gr. Hlutverk stjórnar

Stjórn stýrir málefnum sambandsins milli þinga og fylgist með starfsemi félaganna. Stjórn skiptir með sér verkum. Stjórnin varðveitir skjöl og sjóði sambandsins sem og aðrar eignir og leggur fram endurskoðaða reikninga á hverju héraðsþingi. Stjórn sambandsins svo og nefndir þess skulu halda gerðabók. Stjórnin skal setja reglur um allar ferðir á vegum sambandsins.

14. gr. Lagabreytingar

Tillögur til lagabreytingar skal leggja fram í upphafi þings og sé þeim síðan vísað til laganefndar sem skal vera ein af fastanefndum þingsins. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist skrifstofu UMSK eigi síðar en 20 dögum fyrir sambandsþing sem sendir þær sambandsaðilum til kynningar.

15. gr. Atkvæðamagn við lagabreytingar


Héraðsþing getur breytt lögum þessum með 2/3 greiddra atkvæða á héraðsþingi.

16. gr. Gildistaka

Með gildistöku laga þessara falla úr gildi eldri lög sambandsins. Lög þessi taka gildi við staðfestingu ÍSÍ og UMFÍ, enda reynist þau vera í samræmi við lög ÍSÍ og UMFÍ.

Samþykkt á héraðsþingi UMSK 25. febrúar 2021

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: