Image Alt

Reglugerð um heiðursviðurkenningar

Reglugerð um heiðursviðurkenningar Ungmennasambands Kjalarnesþin

Inngangur

UMSK getur veitt við sérstök tækifæri einstaklingum heiðursviðurkenningar fyrir mikil og góð störf fyrir sambandið eða aðildarfélög þess. Með sérstökum tækifærum er átt við aðalfundi aðildarfélaga, ársþing UMSK eða stórafmæli félaga eða félagsmanna.

Jafnframt eru árlega, á ársþingi UMSK, veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur í íþróttum.

Viðurkenningar

1. Silfurmerki UMSK má veita þeim einstaklingum sem starfað hafa fyrir sambandið eða aðildarfélög þess og hafa unnið vel og dyggilega fyrir íþróttahreyfinguna

2. Gullmerki UMSK er æðsta heiðursviðurkenning UMSK.  Gullmerki má veita veita þeim einstaklingum sem starfað hafa innan UMSK í langan tíma og sinnt félagsstörfum svo eftir hefur verið tekið. 

Gullmerkishafi skal alla jafna hafa áður hlotið silfurmerki UMSK.

3. Heiðursviðurkenning UMSK, skjöldur, má  veita þeim, sem ekki eru félagar í UMSK en styrkt hafa eða aðstoðað UMSK og /eða aðildarfélög þess verulega.

4. Félagsmálaskjöldur UMSK, gefinn af Axeli Jónssyni og konu hans Guðrúnu Gísladóttur (árið ??), skal veittur árlega á ársþingi UMSK til einstaklings sem skarað hefur fram úr í félagsstörfum á liðnum árum.

5. Afreksbikar UMSK skal veita árlega á ársþingi UMSK íþróttakonu og íþróttakarli sem skarað hafa fram úr í íþróttum á liðnu ári

Einungis koma til greina íþróttamenn eða konur sem iðka  íþrótt sína með aðildarfélagi innan félagssvæðis UMSK þegar kjörið fer fram.

Alla jafna skal valið úr þeim hópi sem kjörnir eru íþróttamenn og íþróttakonur sveitarfélaganna á félagssvæðinu.  Stjórn UMSK er þó heimilt að leita út fyrir þann hóp við valið.

  • Íþróttamaður og íþróttakona UMSK fá farandbikar sem skal vera í vörslu þeirra í eitt ár ásamt eignabikar.
  • Einnig hljóta íþróttamaður og íþróttakona UMSK fjárupphæð, sem stjórn UMSK ákveður hverju sinni – sem er ætlaður sem hvatning til enn betri afreka í framtíðinni.
  • Val á Íþróttamanni og íþróttakonu UMSK skal taka mið af árangri en jafnframt hvort viðkomandi sé jákvæð og virðingarverð fyrirmynd í hátterni, líferni og líklegur/líkleg til þess að hefja íþróttina og íþróttaiðkun til vegs og virðingar.

6. UMFÍ-bikarinn skal veita árlega á ársþingi UMSK til hóps sem skarað hefur fram úr í íþróttum á liðnu ári.

7. Hvatningarverðlaun UMSK má veita árlega á ársþingi UMSK. 

7.1. Hvatningarverðlaun UMSK getur hlotið  aðildarfélag, deild innan aðildarfélags eða einstaklingur innan aðildarfélags UMSK fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara framúr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Árlega óskar skrifstofa UMSK eftir tilnefningum frá aðildarfélögum, á þar til gerðu eyðublaði.   Hvert aðildarfélag má senda inn allt að þrjár tilnefningar.   Einnig getur stjórn UMSK að eigin frumkvæði valið verðlaunahafa.

7.2. Verðlaunin eru viðurkenningarskjal/listmun og 100.000 kr. peningaverðlaun.  Ef verðlaunahafi er einstaklingur þá fær félag viðkomandi einnig viðurkenningarskjal.

7.3. Stjórn UMSK tekur endanlega ákvörðun um hver hlýtur hvatningarverðlaun hverju sinni. Ef þurfa þykir getur stjórn leitað umsagnar utanaðkomandi aðila með sérþekkkingu s.s. sérsambands.

Endurskoðað og aðlagað 9. nóvember 2020

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: