Fanney og Dagfinnur Ari íþróttakona og íþróttakarl UMSK

0
1440

Kraftlyftingafólkið Fanney Hauksdóttir Gróttu og Dagfinnur Ari Normann Stjörnunni voru valin íþróttakona og íþróttakarl UMSK 2016 á ársþingi UMSK.

(Á mynd: Valdimar Leo Friðriksson, Elin Smárdóttir formaður Gróttu sem tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd Fanneyjar  og Dagfinnur Ari Normann)

Íþróttakarl: Dagfinnur Ari Normann Stjörnunni

Dagfinnur hefur æft íþróttina með Lyftingadeild Stjörnunnar síðan 2011 og áður á eigin vegum. Á árinu 2016 hreppti Dagfinnur 4. sætið í bekkpressu á HM í klassískum kraftlyftingum í Texas, í Bandaríkjunum. Hann varð í 2. sæti á EM í bekkpressu og í 3. sæti á NM unglinga. Hér heima varð hann bikarmeistari í -83 kg flokki í kraftlyftingum ásamt því að verða Íslandsmeistari í -83 kg flokki í klassískum kraftlyftingum, opnum flokki, og ungmennaflokki. einnig Dagfinnur Ari var  lykilmaður í sigri Stjörnunnar í liðakeppni mótsins. Síðast en ekki síst vann hann í sínum flokki á „Reykjavík International Games” (RIG).

Eftir allt þetta á Dagfinnur Ari 42 Íslandsmet og þar af setti hann 20 á árinu 2016.

Dagfinnur Ari hefur mikinn metnað fyrir íþróttinni og er stofnfélagi í Lyftingadeild Stjörnunnar. Hann er öðrum til fyrirmyndar, hvort sem litið er til ástundunar, mataræðis eða félagsanda. Hann hefur ávallt sýnt mjög íþróttamannslega framkomu á vegum félagsins og er mjög vel liðinn af öllum sem verða á vegi hans. Dagfinnur hefur aðstoðað við þjálfun og leiðsögn nýrra meðlima og tekið virkan þátt í félagsstörfum.

Íþróttakona:  Fanney Hauksdóttir Gróttu

Fanney er 24 ára og byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir 5 árum eftir að hafa stundað fimleika í áraraðir. Árangur hennar á árinu 2016 var stórglæsilegur.

Hún byrjaði árið á því að bæta Íslands- og Norðurlandamet í -63 kg flokki á heimsmeistaramótinu í bekkpressu með búnaði í Danmörku í apríl þar sem hún lyfti 152,5 kg. Í maí varð hún heimsmeistari í klassískri bekkpressu (án búnaðar) í -63 kg flokki í Suður Afríku þar sem hún bætti sitt eigið Íslandsmet og lyfti 105 kg.

Fanney varð Evrópumeistari í bekkpressu með búnaði í ágúst þar sem hún setti tvö Íslandsmet og lyfti 155 kg. Í október bætti hún svo aftur Íslandsmet sitt í bekkpressu á Íslandsmeistaramótinu í klassískum lyftingum á heimavelli á Nesinu þegar hún lyfti 108kg og varð Íslandsmeistari í 63 kg flokki.

Fanney hefur skipað sér á bekk með fremstu kraflyftingakonum heims þrátt fyrir ungan aldur. Hún er þriðja á heimslista í sínum flokki í bekkpressu og fimmta á heimslista í klassískri bekkpressu. Hún er mikil fyrirmynd ungra stúlkna hér á Seltjarnarnesi og reyndar um víða veröld. Hún æfir vel, lifir heilsusamlegu líferni og er hógværðin uppmáluð.

Senda skilaboð

Please enter your comment!
Please enter your name here

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.