Image Alt

UMSK

Fanney og Dagfinnur Ari íþróttakona og íþróttakarl UMSK

Kraftlyftingafólkið Fanney Hauksdóttir Gróttu og Dagfinnur Ari Normann Stjörnunni voru valin íþróttakona og íþróttakarl UMSK 2016 á ársþingi UMSK.

(Á mynd: Valdimar Leo Friðriksson, Elin Smárdóttir formaður Gróttu sem tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd Fanneyjar  og Dagfinnur Ari Normann)

Íþróttakarl: Dagfinnur Ari Normann Stjörnunni

Dagfinnur hefur æft íþróttina með Lyftingadeild Stjörnunnar síðan 2011 og áður á eigin vegum. Á árinu 2016 hreppti Dagfinnur 4. sætið í bekkpressu á HM í klassískum kraftlyftingum í Texas, í Bandaríkjunum. Hann varð í 2. sæti á EM í bekkpressu og í 3. sæti á NM unglinga. Hér heima varð hann bikarmeistari í -83 kg flokki í kraftlyftingum ásamt því að verða Íslandsmeistari í -83 kg flokki í klassískum kraftlyftingum, opnum flokki, og ungmennaflokki. einnig Dagfinnur Ari var  lykilmaður í sigri Stjörnunnar í liðakeppni mótsins. Síðast en ekki síst vann hann í sínum flokki á „Reykjavík International Games” (RIG).

Eftir allt þetta á Dagfinnur Ari 42 Íslandsmet og þar af setti hann 20 á árinu 2016.

Dagfinnur Ari hefur mikinn metnað fyrir íþróttinni og er stofnfélagi í Lyftingadeild Stjörnunnar. Hann er öðrum til fyrirmyndar, hvort sem litið er til ástundunar, mataræðis eða félagsanda. Hann hefur ávallt sýnt mjög íþróttamannslega framkomu á vegum félagsins og er mjög vel liðinn af öllum sem verða á vegi hans. Dagfinnur hefur aðstoðað við þjálfun og leiðsögn nýrra meðlima og tekið virkan þátt í félagsstörfum.

Íþróttakona:  Fanney Hauksdóttir Gróttu

Fanney er 24 ára og byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir 5 árum eftir að hafa stundað fimleika í áraraðir. Árangur hennar á árinu 2016 var stórglæsilegur.

Hún byrjaði árið á því að bæta Íslands- og Norðurlandamet í -63 kg flokki á heimsmeistaramótinu í bekkpressu með búnaði í Danmörku í apríl þar sem hún lyfti 152,5 kg. Í maí varð hún heimsmeistari í klassískri bekkpressu (án búnaðar) í -63 kg flokki í Suður Afríku þar sem hún bætti sitt eigið Íslandsmet og lyfti 105 kg.

Fanney varð Evrópumeistari í bekkpressu með búnaði í ágúst þar sem hún setti tvö Íslandsmet og lyfti 155 kg. Í október bætti hún svo aftur Íslandsmet sitt í bekkpressu á Íslandsmeistaramótinu í klassískum lyftingum á heimavelli á Nesinu þegar hún lyfti 108kg og varð Íslandsmeistari í 63 kg flokki.

Fanney hefur skipað sér á bekk með fremstu kraflyftingakonum heims þrátt fyrir ungan aldur. Hún er þriðja á heimslista í sínum flokki í bekkpressu og fimmta á heimslista í klassískri bekkpressu. Hún er mikil fyrirmynd ungra stúlkna hér á Seltjarnarnesi og reyndar um víða veröld. Hún æfir vel, lifir heilsusamlegu líferni og er hógværðin uppmáluð.

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: