Image Alt

UMSK

Yfirlýsing frá Ungmennafélagi Íslands

Meðfylgjandi er yfirlýsing frá UMFÍ í framhaldi af því að margar íþróttakonur hafa stigið fram og greint frá hræðilegum brotum gegn sér.

Yfirlýsing frá UMFÍ:

Hátterni í algjörri andstöðu við gildi ungmennafélagshreyfingarinnar

Margar íþróttakonur hafa nú stigið fram og greint frá hræðilegum brotum gegn sér innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar undir myllumerkinu #metoo. Þetta eru hræðilegar sögur, frásagnir af hátterni sem á ekki að líðast og eru í algjörri andstöðu við þau gildi sem ungmennafélagshreyfingin stendur fyrir.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) harmar að hegðun sem þessi hafi átt sér stað. Á sama tíma er fagnaðarefni að þær aðstæður hafi skapast í samfélaginu sem veldur því að einstaklingar treysta sér nú til að stíga fram og greina frá kynferðisbrotum, kynbundnu áreiti og öðru ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir.

„Það er ljóst að fjöldi einstaklinga hefur ekki þorað að segja frá og við því verður að bregðast, meðal annars með því að stuðla að því að auðveldara verði að segja frá slíkum atvikum ásamt því að einstaklingurinn sem tekur málið upp geti verið viss um að málið fari í ákveðinn farveg,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Stjórn UMFÍ mun ræða málið á fundi sínum í kvöld. Á morgun hittast svo formenn allra 29 sambandsaðila UMFÍ og taka þar málið fyrir.

Allir í hreyfingunni bera ábyrgð

UMFÍ fordæmir óæskilega og neikvæða hegðun einnar manneskju gagnvart annarri og minnir á að aðgerðar- og viðbragðsáætlanir sem til eru.  Samkvæmt Æskulýðslögum er óheimilt að ráða einstaklinga til starfa sem hafa hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefna- eða kynferðisbrota. Við áréttum að æskilegt er að allir þeir sem starfa með börnum og ungmennum skili inn samþykkt fyrir því að aðildarfélag þeirra fái heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá. UMFÍ getur aðstoðað aðildarfélög sín við það.

„Það eru til bæklingar og upplýsingar og hafa verið til í þónokkur ár. Það breytir því hins vegar ekki að staðan er svona og hreyfingin öll ber ábyrgð á því að koma þessu í betri farveg. Þeir sem hafa orðið vitni að áreitni eða stjórnendur og ábyrgðarmenn sem hafa fengið tilkynningar og upplýsingar inn á sitt borð. Sameiginlega þurfum við að bregðast við. Þá er sérstakt áhyggjuefni að samkvæmt þeim frásögnum sem þarna birtast virðast einstaklingar flakka á milli félaga og halda uppi fyrra hátterni og það er mikið áhyggjuefni,“ bætir Auður við og heldur áfram:

„Foreldrar koma sjálfviljugir með börn í ungmenna- og íþróttahreyfinguna í trausti þess að þar sé öruggt að vera. Því er algjört forgangsmál að skapa öruggar aðstæður. Við þekkjum vissulega til margra félaga þar sem faglega hefur verið tekið við ábendingum og í mörgum tilfellum hafa gerendur verið látnir fara frá félaginu. Það fellur hins vegar í skuggann vegna þeirra mála þar sem ekki hefur verið tekið á. Margir einstaklingar eiga sínar bestu minningar úr íþróttasölum landsins en miðað við upplýsingarnar sem nú liggja fyrir þá er ljóst að það eru líka fjölmargir sem eiga sínar verstu minningar og upplifanir á vettvangi ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar,“ segir Auður ennfremur.

Við leggjum okkar af mörkum

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, segir:

„Það hryggir mig hversu lengi einstaklingar hafa borið þessar sáru sögur innra með sér. Á sama tíma er tilfinningin blendin því það er léttir að sá grundvöllur hefur skapast að hægt er að segja frá þessari hræðilegu misbeitingu. Við getum aldrei bætt fyrir brotin að fullu. En við getum unnið að því að koma í veg fyrir þessa hegðun í framtíðinni. Í ungmennafélagshreyfingunni eru helstu íþrótta- og æskulýðsfélög landsins og innan þeirra fjöldi barna og ungmenna sem stunda íþróttir á Íslandi. Við viljum vera til fyrirmyndar og líðum ekki óæskilega hegðun innan hreyfingarinnar sem felur í sér brot gegn fólki og eyðileggur út frá sér. Við hjá UMFÍ munum leggja lóð okkar á vogarskálarnar til að útrýma þeirri neikvæðu og eyðileggjandi hegðun sem þeir hugrökku einstaklingar greina frá sem nú hafa stigið fram.“

 

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: