Kjör á íþróttamanni og konu Seltjarnarness 2018
Kjör íþróttamanns- og konu Seltjarnarness fór fram fimmtudaginn 31. janúar að viðstöddu fjölmenni í Félagsheimili Seltjarnarness. Kjörið fór nú fram í 26. skiptið en það var fyrst haldið 1993. Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa.
Íþróttakona Seltjarnarness 2018 er Lóvísa Thopson
Lovísa Thompson er uppalin Gróttukona en spilar í dag handknattleik með Val. Lovísa verður tvítug á þessu ári, uppalinn í Gróttu og byrjaði að spila handknattleik 9 ára. Hún hefur lagt mikla rækt við æfingar og hefur í gegnum tíðina æft meira en venjubundnar æfingar. Lovísa varð Íslandsmeistari með mfl Gróttu 2015 og 2016 og einnig bikarmeistari 2015. Lovísa var valin efnilegasti leikmaður Olís deildarinnar tímabilin 2015 og 2016 og í sumar var hún á lista yfir 20 framtíðarstjörnur IHF eftir frábært HM með 20 ára landsliði Íslands. Á því móti var Lovísa yfirburðamanneskja í landsliði Íslands. Lovísa stefnir hátt og dreymir um atvinnumennsku en hún spilar með Val í Olís deildinni og stúderar sálfræði í Háskóla Íslands. Lovísa æfir 8-10 sinnum í viku og er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, hress og kát með frábært viðmót og alltaf til að koma og aðstoða yngri flokka ef til hennar er leitað.
Íþróttamaður Seltjarnarness 2018 er Sigvaldi Eggertsson
Sigvaldi Eggertsson er 18 ára og hefur æft körfubolta frá því hann var 5 ára gamall. Hann hefur lengst af æft með KR. Þegar Sigvaldi var 15 ára bauðst honum að æfa og spila með spænska liðinu Mieres BMV2012. Þar spilaði hann ½ vetur en kom svo til Íslands og spilaði með ÍR. Hann hefur svo spilað með KR síðan þá. Sigvaldi og liðsfélagar hans hafa unnið fjölmarga Íslands- og bikarmeistaratitla og eitt árið varð Sigvaldi bikarmeistari með drengjaflokki, unglingaflokki og meistaraflokki. Sigvaldi hefur verið í öllum yngri landsliðum og spilað þar stórt hlutverk. Á mótum með landsliðum hefur hann nokkrum sinnum verið valinn í lið mótsins. Hann var nýlega valinn í U20 ára landslið Íslands. Á síðasta tímabili var Sigvaldi á venslasamningi frá KR og spilaði með Fjölni í 1. deild. Að deildarkeppninni lokinni var hann valinn í lið ársins og valinn besti ungi leikmaðurinn. Nú æfir Sigvaldi og spilar með spænska úrvalsdeildarliðinu Obradoiro CAB (Monbus Obradoiro) sem spilar í efstu deild (ACB deildinni) á Spáni, sem af mörgum er talin besta deild Evrópu. Sigvaldi er mjög metnaðarfullur íþróttamaður sem lengi hefur stefnt að því að verða í fremstu röð í sinni íþróttagrein. Hann hugsar mjög vel um líkama og sál og er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur.