Image Alt

UMSK

Íþróttakarl og kona Kópavogs fyrir 2016

Jón Margeir Sverrisson sundmaður úr Ösp/Fjölni og Svana Katla Þorsteinsdóttir karatekona úr Breiðabliki voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2016. Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Íþróttamiðstöðinni Versölum 7. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 150 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Jón Margeir og Svana Katla voru valin úr hópi 43 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Flokkur ársins 2016 var kjörinn meistaraflokkur HK í blaki karla en liðið varð bæði Íslands- og deildarmeistari í blaki á árinu. Einnig voru afhentir fyrir hönd íþróttaráðs Kópavogs viðurkenningar fyrir árangur á alþjóðlegum vettvangi og fyrir góðan árangur 13-16 ára.

Nánar:

Jón Margeir Sverrisson

Jón Margeir náði frábærum árangri á liðnu ári. Hann setti alls fjögur heimsmet og tólf Íslandsmet á liðnu ári og varð margfaldur Íslandsmeistari.  Hann varð í öðru sæti í 200 metra skriðsundi á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi á Madeira. Jón Margeir komst í úrslit í tveimur greinum af þremur sem hann keppti í á Ólympíumóti fatlaðra (Paralympics) í Ríó de Janeiro. Þar varð hann í fjórða sæti 200 metra skriðsundi og sjötti í 200 metra fjórsundi.  Jafnframt var hann fánaberi Íslands við opnunarhátíð leikanna sem er mikill heiður fyrir alla íþróttamenn.

Svana Katla Þorsteinsdóttir

Svana Katla hefur sannað sig sem ein fremsta karatekona landsins. Hún varð á liðnu ári Íslandsmeistari í kata kvenna og í hópkata kvenna og hlaut annað sæti á bikarmeistara-mótaröð karatesambandsins.  Svana hefur átt fast sæti í landsliði Íslands í kata undanfarin ár og verið virkur keppandi á alþjóðlegum mótum. Á  Norðurlandameistaramótinu í Danmörku á liðnu ári vann hún ásamt liðfélögum sínum til silfurverðlauna í hópkata.  Hún hlaut silfur í kata kvenna og gull í hópkata kvenna á Swedish Kata Throphy. Þá tók hún einnig þátt í heimsmeistaramótinu í karate, í Linz í Austurríki á liðnu ári. Svana Katla er nú í 254. sæti á heimslista alþjóða karatesambandsins í kata kvenna af 654 skráðum keppendum.

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: