Íþróttakarl og íþróttakona UMSK 2017
UMSK útnefnir íþróttakarl og íþróttakonu UMSK á ársþingum sínum. Í ár voru þau Aron Dagur Pálsson, Stjörnunni og Fanndís Friðriksdóttir, Breiðablik útnefnd sem íþróttakarl og íþróttakona UMSK 2017.
Íþróttakarl: Aron Dagur Pálsson Stjörnunni
Aron Dagur Pálsson er fæddur 1996. Hann hefur æft með Gróttu alla tíð þar til síðasta haust þegar hann færði sig yfir í Stjörnuna í Garðbæ. Aron Dagur er að leika sitt 4 tímabil sem lykilmaður í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur og hefur leikið samtals 63 leiki fyrir yngri landslið Íslands og einn A landsleik. Hann var valinn í afrekshóp HSÍ á síðasta ári. Á afrekaskrá Arons eru m.a. bronsverðlaun á HM U19 ára og 7. sæti á EM í Danmörku U20 ára sem er besti árangur Íslands á EM í yngri landsliðum.
Íþróttakona: Fanndís Friðriksdóttir Breiðablik
Fanndís var lykilleikmaður í meistaraflokksliði Breiðabliks sem hafnaði í öðru sæti á Íslandsmótinu í knattspyrnu á liðnu ári. Hún var einn besti leikmaður Íslands á Evrópumeistaramótinu í Hollandi síðast liðið sumar. Þar lék hún alla 3 leiki liðsins í byrjunarliði og skoraði eina mark Íslands á EM. Fanndís átti einnig framúrskarandi leik með landsliði Íslands sem vann Ólympíumeistara Þjóðverja í undankeppni HM í sumar, þetta var fyrsti ósigur Þjóðverja í undankeppni HM í 20 ár. Í ágúst gekk Fanndís svo til liðs við Marseille, eitt af toppliðum frönsku úrvalsdeildarinnar.