Metþátttaka á Unglingalandsmóti UMFÍ Á Akureyri
Skráningar á 18. Unglingalandsmót UMFÍ, sem verður haldið á Akureyri um verslunarmannahelgina, hafa gengið mjög vel og stefnir í metþátttöku. Að sögn Ómars Braga Stefánssonar framkvæmdastjóra mótsins, eru mótshaldarar í skýjunum með þátttökuna.
,,Það er tilhlökkun í okkar röðum og gaman að sjá hvað margir ætla að taka þátt. Stærsta mótið til þessa var á Selfossi 2012 og þá voru keppendur um 2000. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að það met verður slegið en skráningar eru nú þegar orðnar á þriðja þúsund. Lokasprettur í undirbúningi stendur nú sem hæst og gengur allt samkvæmt áætlun,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson.
Mótið hefst á fimmtudag með keppni í golfi og síðan rekur hver keppnisgreinin aðra yfir helgina. Keppt verður í 29 greinum á mótinu og hafa þær aldrei verið fleiri. Afþreyingardagskrá mótsins er glæsileg og þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.