Ráðstefna um afreksíþróttir
Ráðstefna um afreksíþróttir verður haldin í Háskólanum í Reykjavík í samstarfi ÍBR, ÍSÍ og HR, fimmtudaginn 15. janúar þar sem Colin Jackson, þrefaldur heimsmeistari í frjálsíþróttum er meðal fyrirlesara.
Nánari dagskrá er að finna hér fyrir neðan ásamt upplýsingum um hvernig skrá á á ráðstefnuna.
Afreksþjálfun – ráðstefna 15. janúar 2015
Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands standa fyrir íþróttaráðstefnu í samstarfi við Háskólann í Reykjavík fimmtudaginn 15. janúar. Ráðstefnan fer fram í Háskólanum í Reykjavík í stofu V101. Margir áhugaverðir fyrirlesarar munu flytja erindi um afreksíþróttir. Fyrirlestrarnir fara bæði fram á íslensku og ensku. Ráðstefnustjóri verður Sigurbjörn Árni Arngrímsson.
17:00
Lárus Blöndal forseti ÍSÍ setur ráðstefnuna.
17:05-17:35
Eyleifur Jóhannesson – árangur í sundi
Eyleifur hefur starfað sem sundþjálfari í Danmörku frá 2007 og hefur m.a. náð þeim áfanga að vera valinn sundþjálfari ársins tvö síðustu ár. Hann þjálfar heims- og Evrópumeistarann Mie Østergaard Nielsen. Hann mun lýsa því hvernig það er að vinna sem afreksþjálfari í Danmörku samanborið við á Íslandi og hvað þurfi til að ná árangri.
17:40-18:30
Hafrún Kristjánsdóttir, Íris Mist Magnúsdóttir, Kári Steinn Karlsson: Árangur og sálfræði
Hafrún Kristjánsdóttir er sálfræðingur og sviðstjóri íþróttafræðasviðs HR og er í fagteymi ÍSÍ. Hafrún mun ræða hvaða sálfræðilegu þættir geta leitt til afburðaárangurs. Kári Steinn og Íris Mist munu í kjölfarið deila reynslu sinni á tengslum árangurs í íþróttum og sálfræðilegra þátta. Kári Steinn er fremsti langhlaupari landsins og Íris Mist var fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum 2010 og 2012.
Matur
19:10-19:40
Dr. Antonio Urso – árangur og styrktarþjálfun
Dr. Urso er forseti Evrópska Lyftingasambandsins og prófessor við hin virta Tor Vergata háskóla í Róm. Hann er höfundur fræðsludagskrár sem ber heitið „Weightlifting for Sports“ og er ætlað öllum styrktarþjálfurum sem vilja auka við almennan styrk iðkenda sinna.
19:40-20:20
Colin Jackson – „Dare to dream“
Colin Jackson er margfaldur Evrópu- og heimsmeistari í 110 m grindahlaupi. Colin Jackson hefur unnið við íþróttastjórnun og þjálfun en vinnur nú sem lýsandi í sjónvarpi, sem þáttastjórnandi og sem alþjóðlegur fyrirlesari.
20:20-21:00
Rafn Líndal – árangur og íþróttalæknisfræði
Rafn Líndal, yfirlæknir Norsk Idrettsmedisinsk Institutt, mun ræða um hvernig rétt meðhöndlun íþróttameiðsla, fyrirbyggjandi aðgerðir og fræðsla getur bætt árangur íþróttafólks.
Skráning Ráðstefnugjald er 4.900 kr.- og er léttur kvöldverður innifalinn í gjaldinu. Skráning fer fram á netfanginu skraning@isi.is. Reikningur fyrir námskeiðsgjaldinu verður sendur í heimabanka.