Image Alt

UMSK

Aldarsaga UMSK

Árið 2011 tók stjórn UMSK þá ákvörðun að skrásetja sögu héraðssambandsins. Jón M. Ívarsson sagnfræðingur ritaði um fyrstu 40 árin en undirritaður kom að verkinu árið 2018 og fjallaði um árabilið 1963-2022. Auk þess setti ég saman Aldarspegil UMSK fremst í bókinni, sem er nokkurskonar annáll sambandsins í 100 ár, og ritstýrði verkinu allt til útgáfudags. Í ritnefnd bókarinnar sátu Valdimar Leó Friðriksson (formaður), Alda Helgadóttir, Birgir Ari Hilmarsson og Magnús Jakobsson; Eyjólfur Jónsson annaðist umbrot bókarinnar, Magnús B. Óskarsson hannaði bókarkápuna og verkið var prentað hjá Svansprenti í Kópavogi.

Aldarsaga UMSK spannar stórkostlegt framfaraskeið í íslensku samfélagi. Mikil þéttbýlismyndun á sambandssvæðinu leiddi til þess að íþrótta- og félagslíf tók algjörum stakkaskiptum, íþróttafélög líkt og Afturelding, Breiðablik og Stjarnan breyttust í fjölgreinafélög, nútímaleg íþróttamannvirki risu og margar nýjar íþróttagreinar numu land. Á síðustu áratugum hefur fjöldi aðildarfélaga UMSK tífaldast og á aldarafmælinu voru þau um 50 talsins.

Þetta mikla framfaraskeið varð til þess að í bókinni fer mörgum sögum fram. Hér er sögð saga héraðssambandsins UMSK en einnig saga einstakra aðildarfélaga og íþróttagreina, að ógleymdum landsmótum UMFÍ sem settu sterkan svip á íþróttalíf landsins um áratugaskeið. Notast var við fjölbreyttar heimildir, meðal annars ársskýrslur, dagblöð, tímarit, sagnfræðirit og viðtöl við fólk sem mundi tímana tvenna í starfsemi UMSK. Uppskeran er 736 síðna bók með fjölmörgum ljósmyndum, viðtölum og skrám, þar á meðal er nafnaskrá sem auðveldar lesendum alla notkun verksins.

Aldarsaga UMSK er öllum aðgengileg hér

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: