Image Alt

UMSK

Harpa og Daníel íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar

Um helgina var tilkynnt hverjir væru íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar 2014. 

Íþróttakona Garðabæjar er  Harpa Þorsteinsdóttir, knattspyrnukona Stjörnunni

Harpa er lykilleikmaður í sigursælu knattspyrnuliði Stjörnunnar.  Hún átti stóran þátt í yfirburða sigrum liðsins á árinu 2014 og vann liðið meira og minna allt sem í boði var.  Meistaraflokkur kvenna fagnaði Íslandsmeistaratitli, bikarmeistaratitli og Lengjubikarnum.

Harpa skoraði 27 mörk í 18 leikjum í Pepsideildinni og var langmarkahæsti leikmaðurinn í deildinni í sumar auk þess sem hún var valinn besti leikmaður deildarinnar annað árið í röð.

Harpa lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki Stjörnunnar árið 2002 þá 16 ára gömul. Hún hefur til dagsins í dag leikið 173 leiki með liðinu og skorað 129 mörk. Þá hefur hún leikið 46 A-landsleiki fyrir Ísland og skorað í þeim 8 mörk. Einnig hefur hún leikið 20 leiki með yngri landsliðum og skorað í þeim 5 mörk.

Harpa er frábær í hóp, laus við hroka eða yfirlæti, mjög reglusöm og ástundun óaðfinnanleg. Framkoma innan og utan vallar til algerrar fyrirmyndar.

Harpa er fremst meðal jafningja í frábæru liði. Mikill sigurvegari sem var í margföldu Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar í 2. fl. kvenna á sínum tíma og hefur verið í öllum titilliðum mfl. kvenna (Íslandsmeistari 2011, bikarmeistari 2012, 2014, Íslandsmeistari 2013 og 2014 auk tveggja deildarbikarssigra og sigurs í Meistarakeppni KSÍ).

Íþróttakarl Garðabæjar er Daníel Laxdal, knattspyrnumaður Stjörnunni

Daníel Laxdal er Stjörnunni ómetanlegur. Í sumar lék Daníel líkt og oft áður lykilhlutverk í hjarta varnarinnar í einhverju mesta ævintýri sem íslenskt knattspyrnulið hefur upplifað í seinni tíð. Liðið varð Íslandsmeistari eftir að hafa ekki tapað einum einasta leik í Pepsídeildinni auk þess sem það komst í 4. umferð í Evrópukeppni UEFA þar sem liðið var slegið út af stórliðinu Inter Milan.

Daníel var valinn besti leikmaðurinn af þjálfurum liðsins auk þess að hann hlaut hæstu einkunn allra leikmanna Stjörnunnar fyrir tímabilið í einkunnagjöf Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.

Daníel hefur alla tíð æft og keppt með Stjörnunni, hann hefur farið fyrir liðinu í gegnum súrt og sætt og ávallt gert allt sem í hans valdi stendur til þess að hjálpa félaginu að taka skref fram á við. Til marks um framlag hans í Stjörnunni var hann eini leikmaður liðsins sem spilaði alla leiki Stjörnunnar í sumar. Þá hefur Daníel spilað 63 leiki í röð í Pepsideildinni, sem er met, en hann missti síðast úr leik í maí 2012. Með dugnað, trú og eljusemi að vopni er Daníel sönn fyrirmynd allra þeirra sem stunda íþróttir og eru til í að fórna miklu til þess að láta drauma sína á vellinum rætast.

 

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: