Image Alt

UMSK

100. héraðsþing UMSK

100. héraðsþing UMSK var haldið þann 21. mars 2024 í hátíðarsal Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

Ein breyting var gerð á stjórn sambandsins, Halla Garðarsdóttir gaf ekki kost á sér en í hennar stað var Margrét Dögg Halldórsdóttir kjörin til tveggja ára en hún hafði áður setið í varastjórn. Þá var Matthildur B. Stefánsdóttir frá Breiðablik kjörin í varastjórn í stað Margrétar.

Valdimar Leó Friðriksson, formaður söguritunarnefdar UMSK ávarpaði þingið og kynnti formlega útgáfu Aldarsögu UMSK. Aldarsaga UMSK spannar stórkostlegt framfaraskeið í íslensku samfélagi. Mikil þéttbýlismyndun á sambandssvæðinu leiddi til þess að íþrótta- og félagslíf tók algjörum stakkaskiptum, íþróttafélög líkt og Afturelding, Breiðablik og Stjarnan breyttust í fjölgreinafélög, nútímaleg íþróttamannvirki risu og margar nýjar íþróttagreinar numu land. Á síðustu áratugum hefur fjöldi aðildarfélaga UMSK tífaldast og á aldarafmælinu voru þau um 50 talsins.

Þetta mikla framfaraskeið varð til þess að í bókinni fer mörgum sögum fram. þar er sögð saga héraðssambandsins UMSK en einnig saga einstakra aðildarfélaga og íþróttagreina, að ógleymdum landsmótum UMFÍ sem settu sterkan svip á íþróttalíf landsins um áratugaskeið. Notast var við fjölbreyttar heimildir, meðal annars ársskýrslur, dagblöð, tímarit, sagnfræðirit og viðtöl við fólk sem mundi tímana tvenna í starfsemi UMSK. Uppskeran er 736 síðna bók með fjölmörgum ljósmyndum, viðtölum og skrám, þar á meðal er nafnaskrá sem auðveldar lesendum alla notkun verksins.

Aldarsaga UMSK er öllum aðgengileg á heimasíðu UMSK.

Á þinginu var samþykkt breytt fyrirkomulag á aðildargjöldum félaga UMSK sem nú mun byggja á tilteknu grunngjaldi allra félaga ásamt vissri krónutölu á hverja iðkun innan hvers félags. Þá voru einnig samþykktar minniháttar breytingar á lögum UMSK sem bíða nú staðfestingar ÍSÍ.

Fjöldi viðurkenninga voru veittar á þinginu,

Íþróttakona UMSK 2023 er Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikakona hjá Gerplu.
Íþróttakarl UMSK 2023 er Friðbjörn Bragi Hlynsson, kraflyftingamaður hjá Stjörnunni
Lið ársins UMSK 2023 er meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Breiðablik.

Félagsmálaskjöld UMSK 2024 hlaut Birna Kristín Jónsdóttir hjá Aftureldingu.

Hvatningarverðlaun UMSK 2024 hlutu Álftanes fyrir metnaðarfullt starf körfuknattleiksdeildar og Karatefélag Garðabæjar fyrir metnaðarfullt starf í þágu ungmenna.

Þá voru þau Halla Garðarsdóttir og Jón Júlíusson, sem var íþróttafulltrúi Kópavogsbæjar í um 30 ár en lét nýverið af störfum sæmd Gullmerki UMSK. Silfurmerki UMSK hlutu Margrét Dögg Halldórsdóttir og Rakel Másdóttir.

Hafsteinn Pálsson ávarpaði þingið fyrir hönd ÍSÍ. Hann afhenti þeim Alexander Arnarsyni, Björgu Erlingsdóttur, Halldóri Arnarsyni og Hilmari S. Sigurðssyni, silfurmerki ÍSÍ. Geirlaug B. Geirlaugsdóttir og Ólafur Björnsson voru heiðraðir með Gullmerki.

Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ og afhenti hún starfsmerkin ásamt Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ. Ragnheiður flutti jafnframt ávarp. Samhliða ávarpinu afhenti hún Áslaugu Pálsdóttur, Birnu Kristínu Jónsdóttur, Braga Björnssyni og Kristínu Finnbogadóttur starfsmerki UMFÍ.

Myndir frá héraðsþinginu má sjá hér

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: