Guðlaug Edda hlýtur styrk frá UMSK
Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona í Ólympíuhópi ÍSÍ, hlaut í dag styrkt að upphæð 750.000 kr frá Ungmennasambandi Kjalarnessþings (UMSK) en styrkurinn er hugsaður til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í París í næsta mánuði. Guðlaug Edda fékk nýverið boðsæti frá Alþjóða Ólympíunefndinni á Ólympíuleikana en hún er annar Íslendingurinn sem tryggir sér sæti á leikana í sumar. Anton Sveinn McKee, sundmaður, var sá fyrsti sem tryggði sér sæti á leikana í júlí á síðasta ári.
Guðlaug Edda verður fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt í þríþraut á Ólympíuleikunum og verður spennandi að fylgjast með henni á Ólympíuleikunum, en þetta verða hennar fyrstu Ólympíuleikar. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir dugnað og góða frammistöðu á mótum síðastliðna mánuði en ekki er langt síðan hún kom til baka eftir erfið meiðsli. Þessi góða frammistaða gerði það að verkum að hún klifraði hratt upp heimslistann og tryggði það henni sæti á Ólympíuleikana.
Hér má finna viðtal við hana sem birtist á heimasíðu Ólympíuleikanna í gær, mánudaginn 10. júní 2024.
Myndirnar sem fylgja voru teknar við afhendingu styrksins í Íþróttamiðstöðinni í Laugardalnum í dag. Með Guðlaugu á myndunum eru Guðmundur G. Sigurbergsson, formaður UMSK, Vésteinn Hafsteinsson, Afreksstjóri ÍSÍ, Geir Ómarsson, framkvæmdastjóri Þríþrautarsambandsins og foreldrar Guðlaugar, Hannes Hauksson og Sigríður Gylfadóttir.
Ljósmyndari: Jón Aðalsteins UMFÍ.