Fjölmenni á fundi um skattamál
„Skattamálin eru vissulega mál sem varða öll félög og íþróttahéruðin á höfuðborgarsvæðinu töldu mikilvægt að kalla forsvarsfólk félaganna saman til að ræða þau í ljósi nýlegs erindis Skattsins,“ segir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), um fund sem bandalagið hélt síðdegis í gær í samstarfi við Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH). Málefni fundarins var tiltölulega nýframkomið erindi frá Skattinum varðandi staðgreiðslu skatta og tryggingagjalds vegna greiðslna til íþróttamanna og þjálfara íþróttafélaga.
Fulltrúum íþróttafélaga og deilda félaga á höfuðborgarsvæðinu var boðið á fundinn og var vel mætt eða í kringum 100 manns.
Frímann segir góða mætingu staðfesta augljósan áhuga á efninu. Í fundarboði sagði að erindi Skattsins boði verulegar áherslubreytingar af hálfu stjórnvalda, sem geti haft stórkostleg áhrif á rekstrargrundvöll íþróttastarfs hér á landi.
„Fundurinn tókst vel. Við sem erum í forystu ÍBH, UMSK og ÍBR höfum verið að hittast og ræða hvernig við getum unnið meira saman, til dæmis varðandi fræðslu og umræðu um sameiginleg málefni. Þessi fundur var afrakstur af þeirri vinnu og við munum halda áfram á þessari braut og fleiri verkefni eru á dagskránni á næstunni,“ segir Frímann.
Á fundinum sagði Kári Steinn Reynisson, rekstrarstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), frá viðræðum skattayfirvalda og ÍSÍ varðandi skattamálin. Eftir að Kári lauk erindi sínu var boðið upp á spurningar og vangaveltur úr sal og sköpuðust miklar umræður.