Erum við á réttri leið?
Föstudaginn 17. apríl stendur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fyrir ráðstefnu um íþróttir barna og unglinga og verður ráðstefnan haldin í Laugarásbíói, hefst kl.11 og stendur til kl.14:30. Á ráðstefnunni er ætlunin að skoða íþróttaiðkun barna og unglingum frá mörgum sjónarhornum. Fyrirlesarar verða reynslumiklir þjálfarar úr ólíkum greinum íþrótta og aðrir einstaklingar með margvíslega aðkomu að íþróttum barna og unglinga.
17.-18. apríl fer fram Íþróttaþing þar sem lögð er fram endurskoðuð tillaga um barna og unglingastefnu ÍSÍ og því tilvalið að veita þessum málaflokki sérstaka athygli.
Skráning fer fram á skraning@isi.is og er aðgangur ókeypis. Mikilvægt er að skrá sig og þarf skráningin að hafa borist ekki síðar en miðvikudaginn 15. apríl. Ráðstefnan verður í beinni útsendingu á heimasíðu ÍSÍ. Ráðstefnustjóri verður Anna Guðrún Steinsen.
Dagskrá:
Sigríður Jónsdóttir ritari ÍSÍ og formaður Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ setur ráðstefnuna.
Ragnhildur Skúladóttir – Hvar erum við stödd?
Ragnhildur er íþrótta- og lýðheilsufræðingur og sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ. Í fyrirlestrinum ætlar hún að beina sjónum sínum að þeim jákvæðu breytingum sem orðið hafa á íþróttum barna og unglinga síðast liðin 20 ár.
Hákon Sverrisson – Þjálfun fyrir alla
Hákon er kennari að mennt og hefur þjálfað knattspyrnu í Breiðabliki sl. 18 ár og aðallega börn 10 ára og yngri, en knattspyrnudeild Breiðabliks er fjölmennasta knattspyrnudeild landsins. Í fyrirlestrinum mun hann koma inn á hvernig félaginu hefur tekist að halda utan um stóra hópa, vera með æfingar við hæfi og geta boðið þjálfun fyrir alla.
Jón Óðinn Waage – Baráttan um börnin
Jón Óðinn hefur starfað sem júdóþjálfari á Akureyri í 32 ár. Síðustu ár hefur hann einnig verið knattspyrnuþjálfari, aðallega í yngstu aldursflokkunum. Erindi hans fjallar um brottfall úr íþróttum, hvernig sérhæfing hefst of snemma og hvernig hjálpa megi börnum að finna þá þúfu sem að þeim líður best á.
Pálmar Ragnarsson – Jákvæð nálgun og félagsstarf í íþróttaþjálfun barna
Pálmar er með BS gráðu í sálfræði og hefur þjálfað yngri flokka í körfuknattleik undanfarin 10 ár. Í fyrirlestrinum mun hann fara yfir þær aðferðir sem hann notar til að byggja upp jákvætt og skemmtilegt andrúmsloft í íþróttum barna þar sem allir fá að njóta sín óháð getu. En hann leggur áherslu á jákvæð og góð samskipti við börn og foreldra og mikilvægi félagsstarfs utan æfinga.
Þórhallur Siggeirsson – Mat á afreksstarfi í knattspyrnu á Íslandi
Þórhallur er með meistaragráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík og starfar sem yfirþjálfari knattspyrnudeildar Stjörnunnar. Fyrirlesturinn byggir á meistaraverkefninu hans úr HR árið 2014 sem bar heitið Þróun matskerfis fyrir afreksstarf yngri flokka í knattspyrnu á Íslandi og veltir hann upp eftirfarandi spurningum; Hvernig standa félög sig í að búa til afreksmenn? Hvaða þætti þarf að huga að til að þróa afreksmenn?
Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir – Íþróttaskóli HSV
Sigríður Lára er sjúkraþjálfari en starfar einnig sem framkvæmdastjóri HSV. Auk starfa fyrir íþróttahreyfinguna hefur hún unnið við almenna sjúkraþjálfun, meðal annars sjúkraþjálfun barna með þroskafrávik og sjúkraþjálfun íþróttafólks. Í fyrirlestrinum er íþróttaskóli HSV kynntur, hver markmið hans voru í upphafi og hvernig gengið hefur að ná markmiðunum þau fjögur ár sem skólinn hefur starfað. Fjallað verður um fyrirkomulagið og hvernig starf skólans hefur þróast í samvinnu við íþróttafélögin og Ísafjarðarbæ.
Hrafnhildur Skúladóttir – Á að leggja áherslu á afreksstarf og árangur eða fjölda iðkenda og almenna ánægju?
Hrafnhildur er kennari að mennt og hefur þjálfað yngri flokka Vals í handbolta til margra ára ásamt því að vera fyrrum landsliðskona í handbolta. Yngri flokka starfið í handboltanum í Val hefur verið á mikilli uppleið undanfarin ár, bæði hvað varðar árangur í keppnum en líka í fjölgun iðkenda. En hvort á að leggja meiri áherslu á, afreksstarfið og árangur eða fjölda iðkenda og almenna ánægju? Eða getur þetta tvennt farið saman? Hvað hefur skilað þeim árangri sem náðst hefur síðastliðin ár á Hlíðarenda?
Margrét Héðinsdóttir – Allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi
Margrét er formaður frjálsíþróttadeildar ÍR. Í erindi sínu mun hún fjalla um hvernig ÍR hefur tekist að blanda saman hópi iðkenda sem vilja og keppa og þeirra sem bara vilja æfa. Hvaða aðferðafræði er beitt og hverju hefur það skilað?
Margrét Lilja Guðmundsdóttir – Íþróttaþátttaka barna og unglinga síðast liðin 20 ár
Margrét Lilja er með MA gráðu í félagsfræði og aðjúnkt við íþróttafræðasvið HR ásamt því að sinna störfum fyrir Rannsóknir og greiningu. Í fyrirlestrinum mun hún skoða þróun íþróttaþátttöku barna og unglinga undanfarin 20 ár og hvað einkennir helst einstaklinga sem stunda íþróttir með íþróttafélagi á Íslandi. Eru áhrif íþróttaiðkunar á Íslandi frábrugðin því sem við þekkjum annars staðar?