Vel heppnaður Haustfundur á Kópavogsvelli
Fimmtudaginn 20. nóvember sl. boðaði UMSK til fundar með formönnum og framkvæmdastjórum aðildarfélaga sambandsins. Fundurinn fór fram í Glersalnum á efstu hæð Kópavogsvallar og var vel sóttur.
Markmið fundarins var annars vegar að miðla upplýsingum til aðildarfélaga og hins vegar að skapa vettvang fyrir forsvarsmenn félaganna til að efla tengsl sín á milli og ræða sameiginleg málefni félaganna og sambandsins. Það markmið náðist vel, en líflegar og málefnalegar umræður sköpuðust í kjölfar erinda kvöldsins.
Á dagskrá voru þrjú áhugaverð erindi. Stefán Gunnarsson fjallaði um samninga við styrktaraðila og sagði frá þeirri vegferð sem KSÍ fór í þegar það skapaði nýtt vörumerki fyrir landsliðin sín.
Bolli Hugason hjá Aton ræddi um almannatengsl íþróttafélaga. Hann fór yfir sumar að þeim áskorunum sem félög geta þurft að takast á við í kjölfar þess að einhverjar uppákomur hafa átt sér stað í starfsemi þeirra ásamt ásamt nokkrum heilræðum sem hafa ber í huga þegar félög eiga í samskiptum við samfélagið eða fjölmiðla.
Að lokum lokaði grínistinn Dóri DNA kvöldinu með uppistandi eins og honum einum er lagið.
Á fundinum sköpuðust líflegar umræður milli þátttakenda sem vonandi hafa ýtt undir frekari samskipti milli hagaðila innan sambandsins.
