Guðmundur býður sig fram til formanns
Framboð til formanns UMSK
Ágætu félagar,
Ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða fram krafta mína til formennsku stjórnar UMSK. Valdimar Leó Friðriksson núverandi og farsæll formaður til 20 ára hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Frá árinu 2012 hef ég setið í stjórn UMSK og gengt embætti gjaldkera frá árinu 2014. Það má því með sanni segja að ég er flestum hnútum kunnugur og bý að góðri reynslu um umhverfi sambandsins og aðildarfélaga þess.
Rekstur UMSK hefur undanfarin ár einkennst af stöðugleika og nýsköpun. Fjárhagsstaða UMSK er traust sem sést best á 10 milljón króna aukagreiðslu til aðildarfélaga í desember síðastliðnum sem reyndist vel í ólgusjó Covid-19 faraldursins. Sambandið hefur verið traustur bakhjarl aðildarfélaganna og hefur Valdimar Smári Gunnarsson framkvæmdastjóri okkar staðið þar vaktina með miklum sóma.
Afar mikilvægt er að UMSK verði áfram þróttmikið og leiðandi héraðssamband sem byggir á sterkum grunni. Samtökin verði áframhaldandi öflugur bakhjarl aðildarfélaga sem eflir enn frekar starf þeirra með virkum samskiptum og fylgist náið með nýjungum í heimi íþróttanna. Að UMSK stuðli áfram að auknu þverfaglegu samstarfi aðildarfélaganna þar sem það við á, veiti þeim ráðgjöf og fræðslu ásamt því að miðla faglegri sérþekkingu. Það er ekki síður mikilvægt að UMSK verði áfram sterkur málsvari aðildarfélaganna við opinbera aðila innan félagssvæðis UMSK.
Framundan eru krefjandi tímar fyrir íþróttahreyfinguna. Kröfur um aukna þjónustu og meiri gæði fara vaxandi. Mikil vakning er í almenningsíþróttum og hreyfingu fyrir eldri borgara, Þar munu íþróttafélögin gegna lykilhlutverki. Ég tel mikilvægt að UMSK sé traustur bakhjarl félaganna í þeirri vinnu sem framundan er á þessum vettvangi.
Ég hef setið í aðalstjórn Breiðabliks síðan 1999, áður starfaði ég innan körfuknattleiksdeildar félagsins, fyrst í unglingaráði og síðar sem gjaldkeri og loks sem formaður deildarinnar. Þá hef ég setið í stjórn Ungmennafélags Íslands frá árinu 2015 og verið gjaldkeri frá árinu 2017.
Starf íþóttafélaga er í stöðugri þóun og tekur mið af breytingum í samfélaginu á hverjum tíma. Lífstílsbreytingar kalla á breytta þjónustu íþróttafélaganna og nýjar íþróttagreinar koma til sögunnar. Ég tel það ákaflega mikilvægt að félögin geti treyst á sterkan bakhjarl sem styður við bak þeirra með ráð og dáð í amstri hversdagsins.
Mín sýn er að UMSK verði sá bakhjarl.
Guðmundur G. Sigurbergsson