
101. HÉRAÐSÞING UMSK
101. héraðsþing UMSK var haldið í veislusal HK þann 22.mars síðastliðinn og var það vel sótt.
Guðmundur G. Sigurbergsson var endurkjörinn formaður sambandsin til næstu tveggja ára.
Þeir Geirarður Long og Þorsteinn Þorbergsson voru endurkjörnir í stjórn sambandsins en þau Sigurjón Sigurðsson, Matthildur Bára Stefánsdóttir og Rakel Másdóttir voru endurkjörin í varastjórn til eins árs.
Fulltrúar ÍSÍ og UMFÍ ávörpuðu þingið að venju og nýttu tækifærið til að heiðra einstaklinga sem reynst hafa íþróttahreyfingunni ómetanlegir á undanförnum árum.
Starfsmerki UMFÍ hlutu; Ásgeir Baldurs frá Breiðabliki, Níels Einarsson frá HK, Blikinn Pétur Hrafn Sigurðsson og Ragnheiður M. Ólafsdóttir frá Gerplu.
Silfurmerki ÍSÍ hlutu Flosi Eiríksson og Viktoría Gísladóttir frá Breiðabliki, þau Gunnþór Hermannsson og Valdís Árnadóttir frá HK.
Gullmerki ÍSÍ hlutu Pétur Ómar Ágústsson frá Breiðabliki og Ragnar Gíslason frá HK.
Þá hlaut Þórður Guðmundsson frá Breiðabliki Heiðurskross ÍSÍ.
Á þinginu veitti UMSK eftirfarandi verðlaun.
Hvatningarverðlaun UMSK 2025 – Körfuknattleiksdeild Aftureldingar
Fyrir öfluga og eftirtektarverða uppbyggingu deildarinnar á undanförnum árum.

Hvatningarverðlaun UMSK 2025 – Knattspyrnufélag Garðabæjar
Fyrir metnaðarfullt framtak á samfélagmiðlum en félagið fékk til liðs við sig öflugan dreng sem hefur unnið myndbönd fyrir félagið þar sem veitt er skemmtileg innsýn í starf félagsins og félagsanda.

Hvatningarverðlaun UMSK 2025 – Dansdeild HK
Fyrir endurgjaldslausa danskennslu 4-7 ára barna þar sem áhersla er lögð á skemmtun, faglegar æfingar og félagslega samveru iðkenda

Félagsmálaskjöldur UMSK 2025 – Sigurður Viðarsson, HK

Sigurður Viðarsson hlaut Félagsmálaskjöld UMSK en hann hefur árum saman unnið óeigingjarnt og ómetanlegt starf sem sjálfboðaliði hjá HK. Sigurður hefur verið ómissandi þáttur í félaginu í mörg ár og alltaf tilbúinn að leggja sitt af mörkum.
Með hans ástríðu fyrir íþróttum og samfélaginu hefur hann haft áhrif á fjölda leikmanna, þjálfara og foreldra sem hafa haft það lán að vinna með honum. Sigurður hefur alltaf haft það að markmiði að bæta og styrkja félagið sitt, bæði í aðstoð við æfingar, félagslífinu og uppbyggingu félagsins. Hann hefur með sjálfboðaliðastarfi sínu byggt upp sterka grunnstoð fyrir bjarta framtíð HK og verið fyrirmynd í vinnusemi og samfélagslegri ábyrgð.
Samhliða því að afhenda honum Félagsmálaskjöld UMSK viljum þakka honum fyrir hans óeigingirni, ástríðu og framlag til íþróttanna sem hefur haft djúpstæð áhrif á Handknattleiksfélag Kópavogs.
Íþróttakona ársins 2024 – Thelma Aðalsteinsdóttir

Thelma Aðalsteinsdóttir átti frábært fimleikaár. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut í þriðja sinn, Íslandsmeistari á stökki, slá og á gólfi. Hún varð einnig bikarmeistari með liði sínu í Gerplu auk þess að verða Norðurlandameistari í liðakeppni, enda í 2. sæti í fjölþraut ásamt því að verða Norðurlandameistari á gólfi. Þá varð Thelma Norður Evrópumeistari á öllum áhöldum og hlaut annað sæti í fjölþraut. Er þetta sögulegur árangur og besti árangur keppanda frá Íslandi.
Thelma keppti á Evrópumótinu á Ítalíu þar sem hún endaði í 41. sæti og var hársbreidd frá því að tryggja sér þáttökurétt á Ólympíuleikunum í París. Á Evrópumótinu í Rimini framkvæmdi hún æfingu á tvíslá sem þar var skírð eftir henni “Aðalsteinsdóttir”. Hún keppti einnig á tveim heimsbikarmótum þar sem hún komst í úrslit á 3 áhöldum og náði best fjórða sæti á gólfi. Í lok árs var Thelma svo valin fimleikakona ársins 2024.
Íþróttakarl ársins 2024 – Ægir Þór Steinarsson

Ægir Þór er fyrirliði mfl. Stjörnunnar í körfuknattleik sem er í toppbaráttu Bónusdeildarinnar í körfubolta karla. Ægir er að spila sitt fimmta tímabil fyrir Stjörnuna en hann lék þar á árunum 2019-2021 og aftur frá 2023-2025 en í millitíðinni fór hann í atvinnumennsku til Spánar.
Ægir hefur átt góðu gengi að fagna en hann hefur verið með hæstu mönnum deildarinnar, bæði þegar kemur að stoðsendingum og stolnum boltum ásamt því að vera með tæp 17 stig að meðaltali í leik.
Framlag Ægis er þó langt í frá að vera mælt eingöngu í tölfræði enda algjör drifkraftur í leikjum Stjörnunnar á báðum endum vallarins sem drífur bæði liðið og áhorfendur með sér. Ægi sem lýst hefur verið sem einum skeleggasta boðbera körfuknattleiks á hér á landi er einn af landsliðsfyrirliðum Íslands. Árangur landsliðsins undir forystu Ægis hefur verið frábær þar sem sigur á Ungverjum og frækinn útisigur á Ítalíu standa upp úr. Með árangrinum kom landsliðið sér í kjörstöðu til þess að tryggja sig inn á lokakeppni Evrópumótsins. – Sem hafðist nú á dögunum með glæsilegum sigri á Ungverjalandi.
Lið ársins 2024 – Stjarnan mfl. kvk hópfimleikum

Árið 2024 var frábært hjá mfl. kvenna í hópfimleikum hjá Stjörnunni. Liðið varð bikar og íslandsmeistari í hópfimleikum en þetta var áttunda árið í röð sem Stjarnan vann íslandsmeistaratitilinn. Liðið hefur því haft mikla yfirburði á undanförnum árum og ljóst að mikill metnaður meðal iðkenda og forráðamanna liðsins hefur skilað sér.
Stelpurnar kepptu með einn hæsta erfiðleikastuðul í fimleikum hjá félagsliði í Evrópu á tímabilinu 2024 á öllum áhöldum. Þá átti liðið 6 fulltrúa í íslenska landsliðinu sem vann Evrópumeistaratitilinn í fjórða sinn sem er ótrúlegur árangur og sýnir hversu öflugar þessar stúlkur eru.
Þá voru þrjár stúlkur úr liðinu tilnefndar sem fimleikakonur ársins hjá Fimleikasambandi Íslands ásamt því að Ásta Kristinsdóttir var á topp 10 lista yfir íþróttafólk ársins í vali íþróttafréttamanna.