Starfsskýrsluskil í nýju kerfi
Starfsskýrsluskil sambandsaðila UMFÍ, ÍSÍ og aðildarfélaga þeirra fer fram í nýju skilakerfi að þessu sinni. Lokið er við prófanir á nýju kerfi og verður formlega opnað fyrir starfsskýrsluskil í því 4. apríl næstkomandi. Vegna innleiðingar kerfisins verður skilafrestur hins vegar framlengdur til frá 15. apríl til 1. maí næstkomandi.
Fram kemur í upplýsingum frá ÍSÍ vegna kerfisins að starfsskýrsluskil á árinu 2022 fela sér upplýsingar um félagsmenn og iðkendur á síðasta starfsskýrslutímabili, þ.e. tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2021 ásamt upplýsingum úr ársreikningum fyrir síðasta starfsár (2021) og upplýsingar um stjórn og starfsfólk frá síðasta aðalfundi/ársþingi sem haldið var fyrr á þessu ári (2022).
Stjórn og iðkendur
Við fyrstu skil í kerfinu verður að skrá ýmsar upplýsingar um starfsfólk og stjórn en strax við næstu skil þá þarf eingöngu að uppfæra þær upplýsingar sem fyrir eru. Hjá þeim félögum sem nota Sportabler í sínu daglegu starfi munu upplýsingar um iðkendur lesast sjálfkrafa yfir í starfsskýrslu en það er á ábyrgð félagsins að skoða samtölur iðkenda í starfsskýrslunni og staðfesta þær með skilum á skýrslunni. Þeir aðilar sem eru ekki nota Sportabler í sínu starfi þurfa að lesa inn í skilakerfið upplýsingar um iðkendur, úr Felix eða Nóra.
Félagsmenn
Allir iðkendur eru sjálfkrafa félagsmenn og skapa þannig grunn að félagatali í nýja kerfinu.
Ef félög halda að auki sérstakt félagatal fyrir aðra félagsmenn en þá sem eru iðkendur, þarf að lesa það inn í nýja skilakerfið við fyrstu skil í kerfinu.
Við innleiðingu á nýja skilakerfinu gefst einstakt tækifæri til að uppfæra félagatal íþrótta- og ungmennafélaga þannig að þau endurspegli raunfjölda félagsmanna í hreyfingunni.
Íþróttahreyfingin er hvött til að endurskoða félagaskrár sínar og yfirfara vel svo upplýsingar í nýja kerfinu séu sem réttastar miðað við raunstöðu. Með því verður einfaldara fyrir alla aðila að halda vel utan um félagatalið sitt og uppfæra á milli ára.
Félagatal og yfirferð á því er alltaf á ábyrgð hvers félags áður en það er lesið inn. Staðfesta þarf réttan fjölda við skil.
Við gerð nýja kerfisins var lagt upp með að notendaviðmótið sé sem einfaldast og flestar upplýsingar eru forskráðar til hagræðingar fyrir notendur. Tenging verður við upplýsingar úr Sportabler og einnig verða upplýsingar um viðkomandi félag sóttar sjálfvirkt frá Skattinum.
Í byrjun apríl verður boðið upp á kynningu og fræðslu á nýja kerfinu. Þegar nær dregur verða nánari upplýsingar um fyrirkomulag sendar á hvert hérað ásamt hlekk á skráningarsíðu.