Image Alt

UMSK

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ á laugardaginn

Íþrótta- og Ólympíusambandi Ísland heldur Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ í 32. sinn nú á laugardaginn 11. September næst komandi. Alla hlaupastaði og tímasetningar er að finna á www.kvennahlaup.is. Hlaupum saman laugardaginn 11. september. Endilega dreifið boskapnum og hvetjið alla sem vettlingi geta valið að taka þátt á laugardaginn. Allar nánari upplýsingar veitir Hrönn Guðmundsdóttir, Sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Sími 692 9025 

Kvennahlaup í yfir 30 ár 

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ 2021 fer fram laugardaginn 11. september í 32. sinn. Fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990. Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis. 

Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum. Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn. 

Kvennahlaupsbolurinn 

Nokkrar áherslubreytingar voru gerðar á hlaupinu 2020, umhverfisvitund og félagsleg ábyrgð sett á oddinn og öll framkvæmd hlaupsins skoðuð í kjölinn. Eftir að 30 ára afmæli Kvennahlaupsins var fagnað með pompi og prakt árið 2019 var ákveðið að gera breytingar á framkvæmd þess. Þær eru fyrst og fremst gerðar með tilliti til umhverfissjónarmiða, samhliða því að reyna að höfða til yngri kynslóða. ÍSÍ taldi ekki lengur ásættanlegt að bjóða upp á mörg þúsund boli sem hver og einn er pakkaður í plast og ekki með umhverfisvottaða framleiðsluhætti. Bolurinn eru því nú hannaður bæði sem íþróttabolur en einnig sem hversdagsflík og nýtist þannig betur, bæði eigendum og umhverfi, og er sami háttur hafður á í ár. Bolirnir eru framleiddir á ábyrgan hátt með velferð umhverfisins að leiðarljósi. Bolurinn undirstrikar mikilvægi þess að gera hlutina SAMAN með einkennisorð hlaupsins í öndvegi. 

Í takt við þessa nýju umhverfisstefnu hlaupsins má jafnframt með einföldum hætti greiða aðeins fyrir þátttöku í hlaupinu á www.tix.is eða á hlaupastað á hlaupadag. Fyrir þá sem ekki kaupa bol er um að gera að koma í eldri Kvennahlaupsbolum.  

Allar á sínum forsendum 

Í yfir 30 ár hafa þúsundir kvenna um allt land notið þess að hreyfa sig saman í Kvennahlaupinu og í því hafa konur getað sameinað tvo mikilvæga þætti í lífinu; hreyfingu og samveru. Konur á öllum aldri taka þátt í Kvennahlaupinu, allt frá litlum stelpum í kerrum til langamma þeirra. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og allir eiga að geta fundið vegalengd við sitt hæfi. Það er því engin tímataka í hlaupinu heldur lögð áhersla á að hver komi í mark á sínum hraða, með bros á vör. 

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer sem fyrr segir fram laugardaginn 11. september á hátt í 70 stöðum á landinu og allir geta tekið þátt óháð aldri, þjóðerni eða kyni. Fólk á öllum aldri kemur saman á hlaupadegi og á saman skemmtilega stund þar sem sumir hlaupa en aðrar ganga.

Fjölmennustu hlaupin fara fram í Garðabæ og Mosfellsbæ og í ljósi Covid–19 hafa verða gerðar ráðstafanir á þessum stöðum þar sem svæðinu verður skipt upp í hólf samkvæmt leiðbeiningum fyrir íþróttamannvirki. Minnt er á að það er á ábyrgð hvers hlaupara fyrir sig að verja sjálfan sig og aðra í kringum sig eins vel og hann getur. Þátttakendur eru hvattir til að gera sínar eigin ráðstafanir og virða þessar aðstæður.  

Nánari upplýsingar um alla hlaupastaði og tímasetningar er að finna á www.kvennahlaup.is. Hlaupum saman laugardaginn 11. september. 

Allar nánari upplýsingar veitir Hrönn Guðmundsdóttir, Sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs Íþróttaog Ólympíusambands Íslands. Sími 692 9025 

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: