Image Alt

UMSK

Boðhlaup BYKO

UMSK stendur í ströngu þessa dagana að undirbúningi Boðhlaups BYKO sem fram fer í Kópavogsdalnum föstudaginn 3. september 2021. BYKO er lykilstuðningsaðili boðhlaupsins sem  mun stimpla Kópavog inn sem einn af  hlaupabæjum Íslands.

„Þetta verður algjörlega magnaður hlaupaviðburður, frábær skemmtun fyrir alla hlaupara bæði byrjendur sem lengra komna. Hlaupahátíð fyrir alla, starfsmannafélög, félagasamtök, vinahópa, saumaklúbba og alla sem vilja taka þátt í líflegum hlaupaviðburði,‟ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

Allt hefur verið gert til að viðburðurinn verði sem líflegastur. Fífan og allt nánasta umhverfi Blikasvæðisins verður miðpunktur Boðhlaups BYKO, þar verða hlauparar ræstir og þar endar hlaupið. Fífan verður hólfuð niður í samkomusvæði svo hlaupahópar geti notið þess betur að hittast,  hrista fram gleðina, styrkja samstarfið og vináttuna.

Gleði fyrir alla sem hreyfa sig

Allir geta tekið þátt í boðhlaupi BYKO. Hvorki er krafa um skráningu í íþróttafélag eða þátttöku í íþróttum. Allt sem þarf er gleðin sem felst í því að taka þátt í nýjum og skemmtilegum íþróttaviðburði með vinum og vinnufélögum og njóta samveru, tónlistar, gleði og veitinga í Fífunni á meðan og eftir hlaup.

Fyrirkomulag hlaupsins er á þann veg að hlaupin er fjögurra kílómetra leið í fallegu umhverfi í Kópavogsdalnum. Fjórir eru í hverju liði og skiptast þeir á að hlaupa með boðhlaupskefli fjóra kílómetra hver eða alls sextán kílómetra á lið. Hlaupaleiðin er flöt og góð undir fótinn og til þess fallin að bæði vanir hlaupagarpar og fólk sem er að byrja geta tekið fullan þátt í fjörinu. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa geta gengið saman fjögurra kílómetra gönguleið sem liðið gengur saman. Með þessu móti geta allir tekið þátt í Boðhlaupi BYKO. Engin takmörk eru fyrir því hve mörg lið geta skráð sig til þátttöku. Nú er því tækifæri að byrja að hlaupa með það að markmiði að taka þátt með skemmtilegum hópi í Boðhlaupi BYKO föstudaginn 3. september.

Veitt verða verðlaun fyrir besta árangur liðs í karla-, kvenna- og blönduðum flokki. Einnig verða veittar viðurkenningar fyrir bestu stuðningssveitina og besta stemningsliðið.

„Boðhlaup BYKO er byggt á DHL staffeten í Danmörku sem er stærsti almenningsíþróttaviðburður í heimi og einn af þekktari viðburðum fyrir almenning á Norðurlöndunum. Þar taka yfir 200.000 manns þátt í boðhlaupi, sem fer fram víða um Danmörku á hverju ári. Ég hef mikla trú á að Boðhlaup BYKO geti orðið vinsælt hér á Íslandi eins og í Danmörku enda er gleðin í fyrirrúmi og gleði er eitt af gildum okkar,‟ segir Sigurður Brynjar Pálsson forstjóri BYKO.

Fyrstu hlaupararnir í Boðhlaupi BYKO verða ræstir við Fífuna föstudaginn 3. september klukkan 18:00.

Allar upplýsingar og skráning á bodhlaup.is

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: