Image Alt

Þjálfarasjóður umsk

Reglugerð um Þjálfarasjóð UMSK

1.gr. Hlutverk
Heiti sjóðsins er Þjálfarasjóður UMSK. Hlutverk hans er að styrkja þjálfara aðildarfélaga UMSK til að sækja námskeið sem og þekkingu erlendis sem ekki er i boði hérlendis. Í undantekningartilfellum getur stjórn sjóðsins styrkt einstaklinga til að sækja stærri námskeið innanlands. Stjórn UMSK skal í upphafi hvers starfsárs ákveða áherslur styrkveitinga fyrir komandi ár og nánari vinnureglur.

2.gr. Fjármagn
Fjármagn fær sjóðurinn af tekjum UMSK og skal stjórn UMSK ákveða framlag í sjóðinn í fjárhagsáætlun hvers árs. Jafnframt er heimilt að leita eftir viðbótarfjármagni frá öðrum aðilum. Stjórn sjóðsins skal í upphafi hvers árs ákveða styrkfjárhæðir, jafnframt er stjórn heimilt að takmarka fjölda styrkja til einstaks aðildarfélags. Óheimilt er að skuldbinda sjóðinn umfram þær fjárhæðir sem til hans eru lagðar í fjárhagsáætlun hverju sinni.

3.gr. Skipan og hlutverk stjórnar
Stjórn sjóðsins er stjórn UMSK eins og hún er skipuð hverju sinni. Hlutverk sjóðsstjórnar er að samþykkja umsóknir um styrki úr sjóðnum og fylgjast með nýtingu styrkja.

Framkvæmdastjóra UMSK er heimilt, milli stjórnarfunda, að samþykkja einstakar styrkumsóknir þjálfara allt að 50.000 kr. enda séu umsóknir í samræmi við áherslur stjórnar og studdar með fullnægjandi gögnum. Slíkar umsóknir skulu lagaðar fram af framkvæmdarstjóra ásamt fylgigögnum á næsta fundi stjórnar UMSK til staðfestingar. Framkvæmdastjóra er ekki heimilt að samþykkja fleiri en 2 umsóknir milli stjórnarfunda. Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um styrkumsóknir hærri en 50.000 kr.

4.gr. Markmið
Markmið sjóðsins er að styðja við og efla fræðslu þjálfara hjá aðildarfélögum UMSK með því gera þeim kleift að sækja viðurkennd námskeið á sviði íþróttafræða, þjálfunar og með heimsóknum til viðurkenndra aðila eða félagsliða erlendis. Við veitingu styrkja er tekið sérstakt tilliti til námskeiða sem ekki eru í boði hérlendis og möguleika þjálfara til endurmenntunar í íþróttagrein sinni. Einnig má veita styrki til greiðslu þáttökugjalda veigameiri viðurkenndra námskeiða, til starfsréttinda, sem haldin eru með fjarfundarbúnaði eða yfir internetið.

5.gr. Skilyrði
Umsækjendur skulu vera starfsmenn aðildarfélaga UMSK, eða einstakra deilda eftir atvikum. Umsóknir skulu ávallt koma frá félagi umsækjanda. Umsókn skal gefa skýrt til kynna hver ávinningur af verkefninu er fyrir umsækjanda og aðra þá hagsmunaaðila sem verkefninu tengjast. Ekki eru veittir styrkir til fleiri en tveggja einstaklinga frá sama félagi á sama námskeið.

6.gr. Umsóknir
Ekki er sérstakur umsóknarfrestur fyrir umsóknir í sjóðinn. Umsóknir skulu berast skrifstofu UMSK á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Sjóðsstjórn er heimilt að hafa frumkvæði að einstökum styrkveitingum. Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til að afla sér nánari upplýsinga en þeirra sem fram koma á umsóknareyðublöðum og leita umsagnar annarra aðila. Sjóðsstjórn metur hverja umsókn til samþykktar eða synjunar. Ófullnægjandi gögn geta valdið höfnun umsóknar.

Styrkir eru alla jafna greiddir út eftir að námskeið eða ferð hefur verið farin og fullnægjandi grein hefur verið gerð fyrir verkefninu. Í því felst að skila þarf staðfestingu til skrifstofu UMSK um að þjálfari hafi lokið námskeiði eða heimsókn. Þó er heimilt að víkja frá þessari reglu ef ríkar ástæður eru fyrir hendi.

Styrkja ber að vitja innan árs frá lokum verkefnis, að öðrum kosti falla þeir niður.

Stjórn sjóðsins gefur ekki út rökstuðning fyrir samþykkt eða synjun styrkja.

7.gr. Uppgjör
Framkvæmdarstjóri skal skila skýrslu til stjórnar UMSK á 6 mánaða fresti þar sem m.a. sé gerð grein fyrir styrkveitingum og fjárreiðum sjóðsins. Rekstrar- og efnahagsreikningur sjóðsins skal birta árlega í skýrslu UMSK, sem lögð er fram á ársþingi UMSK.

Skoðunarmenn UMSK eru jafnframt skoðunarmenn reikninga sjóðsins.

8. gr. Gildistími
Reglugerð þessi er sett af stjórn UMSK og tekur gildi þegar stjórn UMSK hefur staðfest hana og gildir þar til stjórn UMSK ákveður annað.

Samþykkt á fundi stjórnar UMSK þann 20. mars 2023.

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: