Image Alt

Afrekssjóður umsk

Reglugerð um Afrekssjóð UMSK

1.gr. Hlutverk
Heiti sjóðsins er Afrekssjóður UMSK. Hlutverk hans er að styrkja afrekssfólk aðildarfélaga UMSK til að fara í keppnisferðir innanlands sem og erlendis.

2.gr. Fjármagn
Fjármagn fær sjóðurinn af lottótekjum UMSK og er framlagið 7% heildartekjum UMSK. Jafnframt er heimilt að leita eftir viðbótarfjármagni frá öðrum aðilum. Stjórn sjóðsins ákveður styrkupphæð í upphafi hvers starfsárs og eru mót innanlands styrkt um helming af þeirri upphæð, jafnframt er sjóðsstjórn heimilt að takmarka fjölda styrkja til einstakra þátttakenda innan ársins. Óheimilt er að skuldbinda sjóðinn umfram þær fjárhæðir sem til ráðstöfunar eru í sjóðnum við úthlutun.

3.gr. Skipan og hlutverk stjórnar
Sjóðsstjórn samanstendur af fimm aðilum úr hreyfingunni. Kosið skal um fjóra einstaklinga á ársþingi UMSK en fimmti stjórnarmaður er skipaður af stjórn UMSK. Hlutverk sjóðsstjórnar er að fara yfir umsóknir um styrki úr sjóðnum og fylgjast með nýtingu styrkja. Stjórn sjóðsins ákveður styrkupphæð í upphafi hvers starfsárs og eru mót innanlands styrkt um helming af þeirri upphæð.

4.gr. Markmið
Afrekssjóður UMSK styrkir eftirfarandi verkefni:

  • Þátttaka í landsliðsferðum, Norðurlandamótum, Evrópumótum, heimsmeistaramótum innanlands og utan og Olympíuleikum (leita má viðurkenningar á mótahaldi hjá viðkomandi sérsambandi).
  • Önnur verkefni og sérstök afrek sem verða sérstaklega metin hverju sinni. Með sérstökum afrekum er átt við að íþróttamaður hafi verið valinn í úrvalshóp til þátttöku í Olympíuleikum, Heimsmeistara, Evrópu, eða Norðurlandamóts.
  • Á ársþingi UMSK veitir sjóðurinn styrk til íþróttakarls, íþróttakonu og afrekshóps ársins. Stjórn UMSK tekur ákvörðun um hverjir skulu hljóta styrki
  • Ferðir sem eru þátttakanda að kostnaðarlausu eru ekki styrkhæfar.

5.gr. Skilyrði
Umsækjendur skulu iðka íþrótt sína innan raða aðildarfélaga UMSK.  Umsóknir skulu ávallt koma frá félagi umsækjanda. 

6.gr. Umsóknir
Úthlutað er úr sjóðnum þrisvar á ári og er umsóknarfrestur auglýstur á heimasíðu UMSK og með bréfi til aðildarfélaga. Umsóknir skulu berast frá félagi umsækjanda. Umsókn um styrk skal hafa borist eigi síðar en þremur mánuðum eftir að móti lýkur. Umsóknir skulu berast skrifstofu UMSK á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Sjóðsstjórn er þó heimilt að hafa frumkvæði að einstökum styrkveitingum. Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til að afla sér nánari upplýsinga en þeirra sem fram koma á umsóknareyðublöðum og leita umsagnar annarra aðila. Sjóðsstjórn metur hverja umsókn til samþykktar eða synjunar. Ófullnægjandi gögn geta valdið höfnun umsóknar.

Styrkir eru alla jafna greiddir út eftir að keppnisferð hefur verið farin og fullnægjandi grein hefur verið gerð fyrir ferðinni. Í því felst að skila þarf staðfestingu til skrifstofu UMSK s.s. farseðlum eða staðfestingu á þátttöku frá viðkomandi sérsambandi. Þó er heimilt að víkja frá þessari reglu ef ríkar ástæður eru fyrir hendi.

Styrkja ber að vitja innan árs frá mótslokum, að öðrum kosti falla þeir niður.

Stjórn sjóðsins skal færa rök fyrir úthlutun og höfnun úr sjóðnum sé eftir því leitað.

7.gr. Uppgjör
Framkvæmdarstjóri skal skila skýrslu til stjórnar UMSK á 6 mánaða fresti þar sem m.a. sé gerð grein fyrir styrkveitingum og fjárreiðum sjóðsins. Rekstrar- og efnahagsreikningur sjóðsins skal birta árlega í skýrslu UMSK, sem lögð er fram á ársþingi UMSK.

Skoðunarmenn UMSK eru jafnframt skoðunarmenn reikninga sjóðsins.

8. gr. Gildistími
Reglugerð þessi er sett af stjórn UMSK og tekur gildi þegar stjórn UMSK hefur staðfest hana og gildir þar til stjórn UMSK ákveður annað.

Samþykkt á fundi stjórnar UMSK þann 20.mars.2023

Hafðu samband

Skrifstofa UMSK er í Íþróttamiðstöðinni Laugardal, Engjavegi 6, 104 Reykjavík.

Sími & netfang: