Aldarsaga UMSK 1922-2022

74 Meðal fjöldans af ágætum munum ná nefna kálfa, (geta orðið afbragðs kýr) lömb sem verða afhent í sláturtíðinni í haust. Bifreiðaferðir út á land og margt fl sem enginn endist til að telja upp. Allir ungmennafélagar, eldri og yngri, fjölmennið svo að fljótt dragist upp og styðjið heimboðið. Aðeins fyrir ungmennafélaga. Ókeypis inng.36 Hinn 17. júní lagðist millilandaskipið Mercur að bryggju í Reykjavík og um borð voru norsku gestirnir. Þeir voru: Fararstjórinn, Gustav Indrebö, dósent við háskólann í Osló, Torstein Christiansen, kennari við landbúnaðarháskólann í Osló, Martin Asphaug, kennari frá Niðarósi, Eirik Hirth, kennari frá Björgvin og Anders Lövik, bókari frá Stafangri. Þeir voru semsagt frá flestum landshornum nema enginn var frá Norður-Noregi. Ársþing UMFÍ var sett sama dag og Norðmennirnir komu og voru þeir gestir þingsins. Samtímis fór Allsherjarmót ÍSÍ fram á Melavellinum og þar var þeim skipað til öndvegis. Höfðu þeir góða skemmtun af mótinu og létu vel yfir flestum íþróttum sem sýndar voru. Eftir nokkra dvöl í höfuðstaðnum hófu þeir reisu um Borgarfjörð og Suðurland ásamt gestgjöfum sínum. Hvarvetna tóku ungmennafélagar þeim tveim höndum. Gestgjafarnir í UMSK settu allsstaðar það skilyrði að aldrei yrði talað við gestina annað mál en íslenska því þeir kynnu allir landsmál sem væri svo líkt íslenskunni að þeir skildu hana bærilega, væri talað við þá hægt og skýrt. Heimamönnum líkaði þetta vel og ekki bar á öðru en frændur okkar væru með á nótunum. Jóhann B. Jónasson flutti þeim drápu við komuna og var þetta upphafið: Heilir komnir af hafi og sælir, hingað til þjóðar, Austmenn góðir! Heilir og sælir – heitt vér mælum – höggvið til stranda á voru landi! Strandhögg áður, að víga-vanda, víkingar gerðu á sínum ferðum. – En yðar hlutur er allur boðinn – eins og þér skiljið – af fúsum vilja!37 Gestirnir sáu merka sögustaði svo sem Þingvelli, Skálholt, Hlíðarenda og Geysi. Svo voru Norðmenn viðstaddir samfund UMSK á Akranesi sem haldinn var 29. júní. Hann var allfjölmennur en tókst miður en skyldi því veður var ekki hagstætt. Kaffisamsæti í Bárubúð um kvöldið var þó vel heppnað. Þvínæst var haldið á héraðsmót Borgfirðinga við Ferjukot og þaðan ríðandi á Þingvöll sem fyrr segir. Þingvellir hrifu huga þeirra mjög enda var veður fagurt er þeir komu þar. Þar voru lesnir kaflar úr Njálu, meðal annars um bardagann á Þingvöllum, en prófessor Sigurður Nordal skýrði söguna og örnefni staðarins. Þaðan var farið á hestum niður að Kotströnd í Ölfusi. Svo var ekið á bíl austur að Hlíðarenda í Fljótshlíð, lengra varð ekki komist. Austurferðinni lauk á fundi Skarphéðinsmanna í Þrastaskógi. Sögðu Norðmenn að á báðum stöðum, þar og í Borgarfirði, hefði þeim þótt gott að vera „því þar vann íslenska vorið með íslenskri æsku að því að fagna þeim,“ sagði í Skinfaxa. Björn Birnir í Grafarholti var leiðsögumaður þeirra allan tímann. Eftir mánaðardvöl héldu hinir norsku ungmennafélagar til síns heima. Þeir voru hylltir í kveðjusamsæti og leystir út með gjöfum. Fékk hver þeirra silfurbúna svipu sem Daníel Daníelsson gullsmiður hafði smíðað og áletrað. Fer þó engum sögum af útreiðum svipueigenda eftir að heim var komið. Þeir víðfrægðu Íslandsferð sína í norskum blöðum og báru Íslendingum vel söguna. Einkum þótti þeim athyglisvert að fámennt héraðssamband eins og UMSK skyldi afreka það sem heildarsamtökin, UMFÍ, treystu sér ekki til: Að standa fyrir heimboðinu. Að öllu leyti var þessi heimsókn hinna norsku gesta íslenskum ungmennafélögum til hins mesta sóma og þar átti stjórn Ungmennasambands Kjalarnesþings stærstan hlut. Norsku gestirnir sendu kveðjur sínar á ársþing UMSK um haustið og sögðu að ennþá stæði Íslandsferðin fyrir þeim eins og fagur draumur eða ævintýri. Jafnframt buðu þeir fimm íslenskum ungmennafélögum til Noregs á sumri komanda. Var það með sömu skilyrðum og heimboð Íslendinga, að þeir greiddu sjálfir fargjaldið milli landanna en fengju frítt uppihald innanlands. Í bréfi frá Noregs Ungdomslag í apríl 1925 voru lokaorðin þessi: (lauslega þýtt): Hvort okkur muni heppnast að hafa móttökur okkar eins gestrisnar og stórbrotnar og þær voru hjá ykkur í fyrra er óvíst en við munum gera okkar besta og þið skulið vera hjartanlega velkomnir.38 Nú skyldu menn ætla að hafist hefðu fjörug heimboð til skiptis milli Noregs og Íslands en það var öðru nær. Helsta ástæðan var sú að fjárráð íslenskra ungmennafélaga leyfðu ekki slíkt. Þeir höfðu einfaldlega ekki efni á því að fara í langar ferðir til annarra landa þótt þar væri allt ókeypis og félögin höfðu heldur ekki fjármuni til að leggja í púkkið. Í svarbréfi UMSK var þetta útskýrt á íslenskuskotinni norsku:

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==