Aldarsaga UMSK 1922-2022

75 Vi vil atter takka for denne venlige inbjodning og vi er mykkje leid yfir at det ser ut til at vi ikkje kan taka imot den strax og fara, men vi vonar at de tek det som det er. Vi vil men kan ikkje koma, men næsta sumar vil det staar beter til.39 Næsta sumar endurtók sagan sig. Íslendingar höfðu ekki efni á að þiggja heimboðið. Reyndar fór hópur ungmennafélaga til Noregs á vegum UMFÍ sumarið 1925 en það var á öðrum forsendum. Sigurður Greipsson, glímukóngur frá Haukadal, formaður Skarphéðins, dreif upp 10 manna flokk glímumanna sem sendur var til sýningarferðar um Noreg. Þrír af glímuköppunum voru úr UMSK, bræðurnir Ágúst og Þorgeir Jónssynir frá Varmadal á Kjalarnesi og Pétur Bergsson frá Helgafelli í Mosfellssveit. Glímukapparnir dvöldust ytra í heilan mánuð og sýndu glímu 19 sinnum á 16 stöðum víðs vegar um Noreg. Þetta var hin mesta ævintýraferð og þeir nutu mikillar gestrisni hjá norskum ungmennafélögum. Glíman vakti mikla athygli enda var flokkurinn þaulæfður og í honum eintómir úrvalsmenn. Fararstjóri og fyrirliði var sjálfur Sigurður Greipsson en Jón Þorsteinsson íþróttakennari var þjálfari hópsins. En þetta breytti ekki því að UMSK átti inni heimboð frá því sumarið áður. Málinu var haldið vakandi næstu árin en það beið samt allt til ársins 1930 að endurgjalda heimsóknina frá 1924. Gestamótin Um tíma voru svokölluð gestamót haldin tvisvar á vetri í Reykjavík á vegum UMSK. Þau voru veglegar skemmtanir sem öðrum þræði voru ætlaðar til fjáröflunar. Kveikjan að þeim var sá mikli fjárhagsvandi sem blasti við eftir Norðmannaheimboðið 1924. Kostnaðurinn var um 1200 krónur sem voru miklir fjármunir fyrir fjárvana samband því mestur hlutinn var í skuld. Haldin voru gestamót árin 1925 og 1926 sem gáfu það vel af sér ásamt hlutaveltu að tekjuhallinn fékkst að fullu greiddur án þess að skerða þyrfti sjóði sambandsins. Eftir þessa góðu reynslu var ákveðið að láta ekki staðar numið heldur halda gestamót fyrir og eftir áramót á hverjum vetri. Þau voru líka fundið fé til að byrja með og ágóðinn af gestamótinu 26. nóvember 1927 reyndist vera 409 krónur sem var talsvert meira en kýrverð á þeim tíma. Það kom fyrst og fremst í hlut ungmennafélaga í Velvakanda að sjá um gestamótin. Þau voru í raun og veru árshátíð ungmennafélaga í Reykjavík, nokkurskonar risavaxinn Farfuglafundur með skemmtiatriðum sem léttu lund samkomugesta. Að sjálfsögðu var dansað vel og lengi í lok hverrar skemmtunar. Gestamótin voru fyrst og fremst ætluð ungmennafélögum utan af landi enda létu þeir sig ekki vanta. Þau urðu eftirsóttar skemmtanir í bænum og vildu þá margir vera ungmennafélagar. Kom fyrir að einstaka menn sigldu undir fölsku flaggi inn á gestamótin undir því yfirskini. Í Skinfaxa birtist stutt frásögn Guðbjörns Guðmundssonar af gestamóti sem fram fór haustið 1928 og má telja nokkuð dæmigert: Gestamót hélt U.M.F. Velvakandi í Reykjavík þann 24. nóv. s.l. fyrir alla ungmennafélaga sem í bænum voru. Var þar margt til skemtunar, svo sem: einsöngur, ferðasaga frá Sviss, stutt erindi, sögð gömul þjóðsaga með skuggamyndum, leikin Kvöldvakan í Hlíð, sem er þáttur úr sögunni „Maður og kona“, og loks var stiginn dans. Auk félaga úr Velvakanda voru þarna rúml. 200 félagar utan af landi, og fór skemtunin vel úr hendi, öllum til ánægju. – Næsta Glímukappar ungmennafélaganna sem sýndu glímu í Noregi 1925: Jón Þorsteinsson íþróttakennari, Jón Pálsson á Heiði í Mýrdal, Þorsteinn Kristjánsson á Korpúlfsstöðum, Jóhann Þorláksson í Reykjavík, Pétur Bergsson á Helgafelli í Mosfellssveit, Sigurður Greipsson í Haukadal, Þorgeir Jónsson í Varmadal, Ágúst Jónsson í Varmadal, Viggó Nathanaelsson á Þingeyri og Jörgen Þorbergsson á LitluLaugum í Reykjadal.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==