Aldarsaga UMSK 1922-2022

58 fundarmönnum, stjórnin skipaði næsta mann og þeir tveir völdu sjálfir hinn þriðja og þá var nefndin fullskipuð. Oft voru umræður líflegar og til dæmis voru eitt sinn haldnar 28 ræður af 13 fundarmönnum en alls voru 26 á fundi. Varðveist hafa allar fundargerðir félagsins í tveimur gjörðabókum og þar eru skráðir 158 tölusettir fundir frá 1925–1940. Aðeins voru teknir inn í félagsskapinn þeir sem höfðu góða meðmælendur innan hans. Þeir voru bornir upp á einum fundi en fengu inngöngu á þeim næsta þegar búið var að grandskoða þá og greiða um þá atkvæði. Allir sluppu í gegnum nálaraugað nema einn sem lesa má um í fundargerð 18. desember 1928: „Samþykktir þeir sem beiddust inntöku á síðasta fundi að undanteknum Arreboe Clausen sem var felldur með öllum greiddum atkvæðum að einu undanteknu.“ Blað félagsins, Magni, var lengi vel lesið upp á hverjum fundi við ánægju fundargesta. Vinsæl gestamót fyrir ungmennafélaga utan borgarinnar hélt félagið árlega og stundum tvisvar á ári. Þar var vandað til skemmtiatriða og seldur aðgangur sem gaf af sér drjúgan skilding. Mánaðarlega voru haldnir svokallaðir Farfuglafundir fyrir ungmennafélaga utan af landi. Þar var ekki sóst eftir fjárhagslegum gróða heldur góðri samveru. Í orði kveðnu voru þeir á vegum UMSK en lentu strax í forsjá Velvakanda. Fundirnir voru fjölsóttir og ekki fengu aðrir inngöngu en þeir sem voru með ungmennafélagsskírteini. Hver þeirra mátti þó taka með sér einn gest á fundinn. Þar fóru fram ræðuhöld, upplestur, söngur og almenn samvera hjá aðkomufólki bæjarins sem sóttist mjög eftir þessum félagsskap. Kvöldvökur eða tómstundakvöld hafði félagið á um það bil hálfsmánaðar fresti yfir vetrartímann. Komu félagsmenn þar saman með handavinnu sína og einhver las upp eða sagði sögur. Leshringir voru einnig starfræktir. Innan félagsins starfaði kaffistofa sem seldi kaffi á fundunum en henni stjórnuðu félagskonur til skiptis. Félagið hélt venjulega tvo skemmtifundi árlega, jólafagnað og afmælisfagnað. Þá hélt kaffistofan skemmtanir annað hvert ár og gaf þá kaffið. Aldrei sást maður undir áhrifum áfengis á skemmtunum félagsins. Mikill fjöldi ungmenna gerðist félagsmenn á hverju ári en hinir voru líka margir sem hurfu á braut. Var engu líkara en mörgum reyndist erfitt að halda sig við markmið ungmennafélagsskaparins þegar til höfuðstaðarins var komið. Eins og sjá má var Velvakandi löngum gróskumikið menningarfélag og þangað sóttu ungmenni sem áttu uppruna sinn í sveitum landsins en annaðhvort fluttust til höfuðstaðarins eða dvöldust þar tímabundið. Lítil endurnýjun varð í félaginu seinni árin og var sífellt verið að kjósa sama fólkið í stjórn í mismunandi embætti. Undir lokin varð forystukreppan og upplausn hernámsins félaginu að aldurtila enda reyndist þá næstum ómögulegt að fá húsnæði til fundahalda. Félagið starfaði fram á haust 1940 en þá lauk sögu þess. Ársþing og ályktanir Þannig var þá staðan þegar UMSK hélt af stað í vegferð sína haustið 1922 með sína 260 félaga. Félögin fjögur sem hófu ferðina voru misvel á vegi stödd, Miðnesingar heltust fljótlega úr lestinni vegna andúðar á bindindi og fjarlægðar frá helsta félagssvæðinu sem náði allt frá Reykjavík og upp í Kjós. Hin þrjú félögin voru ágætlega starfandi þótt brátt yrði reyndar um Ungmennafélag Reykjavíkur. Svo bættust Akurnesingar og Velvakandi í hópinn. Þar sem fyrsti formaðurinn, Guðbjörn Guðmundsson, átti heima í Reykjavík kom það af sjálfu sér að höfuðstöðvar sambandsins héldust þar eins og verið hafði hjá FS, að minnsta kosti fyrst um sinn. Stofnþing UMSK var ekki tölusett en fyrsta ársþingið talið númer eitt og hefur þeirri töluröð verið haldið síðan. Það var haldið í Reykjavík 20. október 1923 og sóttu það 16 fulltrúar frá hinum fimm aðildarfélögum. Félagsmenn þeirra töldust 370 í handskrifaðri skýrslu sem varðveist hefur. Stjórnarfundir urðu 15 á fyrsta starfsárinu. Störf sambandsins voru einkum fólgin í samfundinum og bréfaskriftum til allra ungmennafélaga landsins. Stjórnin hélst óbreytt. Annað þingið var haldið í Reykjavík 25.–26. október 1924 og þar mættu öll fimm aðildarfélögin með fullt hús fulltrúa, 20 alls. Í ársskýrslu formanns var starfið tíundað: Miðnesingum var sendur glímukennari í þrjár vikur og Kjósverjum fyrirlesari í einn dag. Bréfaskriftir voru miklar og sumar til útlanda. Farfuglafundirnir voru sex talsins og heppnuðust einstaklega vel. Stjórnin var geysiUngmennafélagar í Velvakanda við gróðursetningu í Þrastaskógi á fjórða áratugnum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==