Aldarsaga UMSK 1922-2022

59 lega virk og hélt hvorki fleiri né færri en 23 fundi á tímabilinu. Langstærsta verkefni ársins var heimboð fimm norskra ungmennafélaga sem sagt verður frá síðar. Það var vorhugur í þingfulltrúum og þeir ætluðu sér margt og mikið. Þingskjölin hafa öll varðveist en þau voru 25 að tölu. Skipaðar voru sex nefndir til að fjalla um þingmálin sem voru fjárhags-, laga-, íþrótta-, starfsmála-, skógræktar- og siðferðismálanefnd. Hinn skeleggi ritari sambandsins, Guðrún Björnsdóttir, var þjóðlega sinnuð og hafði ákveðnar skoðanir á siðferðismálum. Hún lagði fram tillögu þar að lútandi sem samþykkt var samhljóða: Þing UMSK skorar á ungmennafélög Íslands að beita áhrifum sínum gegn erlendum ófagnaði, svo sem vindlingum, kynsjúkdómum og spilltum hugsunarhætti. Þingið skorar því alvarlega á öll ungmennafélög landsins að taka framanrituð mál inn í beina fundarstarfsemi, fund eftir fund og skiljast ekki við þau fyrr en með fullum sigri.15 Íþróttanefnd skilaði margliða áliti og taldi að félögin ættu fyrst og fremst að leggja stund á þjóðlegar íþróttir, glímu, sund, skíða- og skautahlaup, stökk, bogaskot og síðast en ekki síst leiki, sérstaklega gömlu íslensku þrautirnar. Keppnisíþróttir voru ekki ofarlega á vinsældalista nefndarmanna og ein af ályktunum þeirra var svohljóðandi: „Nefndin telur æskilegt að ungmennafélögin yfirhöfuð hirtu minna um kappleikamót en verið hefur, en legðu meiri rækt við sýningar þar sem fegurð og samræmi íþróttanna fái notið sín að fullu.“ Þetta var samþykkt einróma. Einnig var ályktað að starfa að heimilisiðnaði, skógrækt, söfnun örnefna, söguritun félaganna og gagnkvæmum heimboðum þeirra svo eitthvað sé nefnt. Fluttar voru hlýjar kveðjur frá norsku sumargestunum og svo var stjórnin endurkosin einróma. Þriðja ársþing UMSK var haldið í Reykjavík 24. október 1925. Þinggerð fyrirfinnst engin en tekist hefur að ráða í hlutina eftir öðrum leiðum. Helsta ályktun þingsins var að héraðsstjórn UMSK skyldi boða til fundar með formönnum allra ungmennafélaga á landinu. Ársskýrslan er fátækleg og stjórnin hélt aðeins fjóra fundi á tímabilinu. Farfuglafundir sambandsins héldu velli en færðust í raun yfir á hendur Umf. Velvakanda. Þar mun hafa ráðið miklu að Guðbjörn Guðmundsson var formaður á báðum stöðum. Sama stjórn sat áfram nema hvað Ólafur Marteinsson var kjörinn gjaldkeri í stað Þorláks Björnssonar. Í fjórða sinn var þingað í Reykjavík í nóvember 1926. Stjórnin virtist nú hafa misst mesta drifkraftinn og hélt aðeins einn fund á árinu. Formannafundurinn var helsta skrautfjöðrin þetta árið en hann var haldinn í Reykjavík 24. júlí 1926. Hér var ekki lítið í ráðist og hafði formönnum allra ungmennafélaga á landinu verið boðið. Þarna mættu formenn 15 félaga og þriggja héraðssambanda og var það nokkru minna en vænst hafði verið. Umræður voru fjölskrúðugar en helstu fundarmálin voru Þrastaskógur, Alþingishátíðin 1930, bindindismál, íþróttir, söguritun, Skinfaxi, norræn samvinna, bóklestur og nýbýlaræktun. Margar góðar ályktanir voru samdar en engin þeirra markaði sérstök tímamót nema starfið á Þingvöllum. Slíkur formannafundur var ekki haldinn oftar. Farfuglafundirnir voru á sínum stað en þeir voru sem fyrr segir í höndum Velvakenda. Á þinginu var ákveðið að gefa út fjölritað blað, Hvöt að nafni, á vegum UMSK sem kæmi út mánaðarlega. Gekk það eftir um tíma og var sent til ungmennafélaga. Einnig var það sent öllum héraðssamböndum og til stjórnar UMFÍ. Lítið er um skrifaðar heimildir frá UMSK árin 1927 til 1931. Helsta heimildin er Skinfaxi og þær fátæklegu fréttir sem þangað bárust UMSK um það leyti. Á ársþingi haustið 1927 hætti Guðbjörn Guðmundsson sem formaður. Hann hafði verið andlit sambandsins frá upphafi en vildi nú fara að minnka við sig vegna anna sem prentsmiðjustjóri. Ekki varð hvíldin meiri en svo að hann tók að sér gjaldkerastörfin því enginn fékkst til þess annar. Guðrún Björnsdóttir tók við forystunni og er það í fyrsta sinn eftir því sem best er vitað að kona varð formaður héraðssambands hérlendis. Ekki varð Guðrún langlíf í formannssætinu því ári síðar vék hún fyrir varaformanni sambandsins, Arngrími Kristjánssyni úr Reykjavík. Það var reyndar sjálfgert því Guðrún hafði þá dvalist í Danmörku frá því sumarið 1928 og var þar um veturinn. Hún var þar til að „kynna sér störf ræktunarfélaga og fleiri félagsleg nytjamálefni“ eins og sagði í Skinfaxa. Guðbjörn hélt áfram gjaldkerastörfum en ári síðar varð aftur formannskreppa þegar Arngrímur hætti vegna brottflutnings úr borginni. Þá settust menn að Guðbirni og niðurstaðan varð sú að hann tók aftur við formennskunni um tveggja ára skeið eða þangað til í nóvember 1931. Þá var hann búinn að fá alveg nóg og sagði af sér formennsku bæði í UMSK og Umf. Velvakanda en þar hafði hann stjórnað samtímis um árabil. Kvaðst hann þá vera orðinn líkastur þurrausnum brunni. Ársþingið 1931 er fyrsta þingið sem varðveist hefur í gjörðabókum UMSK. Gestur Andrésson, bóndi á NeðraHálsi í Kjós, hélt þingið á heimili sínu og var þingritari. Hann var kosinn formaður sambandsins í þinglok. Þingið þótti takast vel og aðkomumönnum fannst til um

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==