Aldarsaga UMSK 1922-2022

72 Jafnframt því sem við væntum að fá að sjá þig á fundinum biðjum við þig að láta alla þá félaga utan af landi sem þú veist um að dvelji í bænum vita um fundinn. Héraðssambandsstjórnin33 Haustið 1925 var ungmennafélögunum enn skrifað og þeim send eyðublöð til útfyllingar um þá félaga sína sem gerðust farfuglar í Reykjavík veturinn 1925–1926. Heldur voru undirtektir dræmari en fyrra árið en þó sendu 17 félög lista með nöfnum 132 félaga sinna. Þar kenndi ýmissa grasa. Til dæmis vottaði Guðmundur Mosdal, formaður Árvakurs á Ísafirði, að þrír liðsmanna sinna, þeir Kristján, Marinó og Hávarður, væru „góðir íþróttamenn allir til fimleika, hlaupa og annarra útiíþrótta.“ Sömuleiðis dró Eysteinn Bjarnason á Sauðárkróki ekkert af sér við að hæla Kristjáni Magnússyni félaga sínum. Hann hefði verið ritstjóri félagsblaðsins, væri mjög söngvinn og hefði iðkað bæði glímu og leikfimi auk þess að vera fremur vel máli farinn. Þorsteinn Þórarinsson, formaður Umf. Biskupstungna, lét það duga að segja 11 félagssystkini sín sönghæf. Sjö farfuglafundir voru haldnir um veturinn með sama þrótti og fyrr og voru stundum allt að 100 ungmennafélagar á fundi í einu. Nú voru það orðin allmörg félög sem höfðu átt félaga sína á slíkum fundum enda mæltust þeir vel fyrir. Sum félögin höfðu átt þar milli 30 og 40 félaga sína í einu, sagði í Skinfaxa í febrúar 1927. Fundirnir voru auglýstir í Skinfaxa og hnykkt á því að þeir væru „ætlaðir aðkomandi ungmennafélögum til upplyftingar og ánægju.“ Farfuglafundirnir voru stórverkefni á landsvísu og kannski hefur sú hugsun hvarflað að einstaka ungmennafélaga að þetta væri fremur verkefni við hæfi UMFÍ en fámenns ungmennafélags í Reykjavík með góðri aðstoð héraðssambands á staðnum. En Velvakandi stóð fyrir þessu verkefni af myndarskap og áfram héldu fundirnir ár eftir ár og aðsóknin var ótrúlega góð. Reyndar svo mikil að þegar kom fram á haustið 1936 horfði til vandræða því húsrýmið dugði ekki til. Reyndist nauðsynlegt að gefa út sérstök skírteini handa ungmennafélögum til að tryggja þeim aðgang að fundunum því þeir höfðu að sjálfsögðu forgang fram yfir gesti af götunni. Þetta var ítrekað með skilaboðum í Skinfaxa frá Skúla Þorsteinssyni, formanni UMSK: Auðvitað sækir margt gott fólk þessar samkomur sem stendur utan við ungmennafélagasamtökin en það verður eðlilega fyrst frá að hverfa þegar húsrúm þrýtur. Annars standa þeim opnar dyr í ungmennafélaginu Velvakandi sem sækja vilja þessa fundi eða taka þátt í annarri starfsemi félagsins. Aðeins þeir sem sannað geta tilveru sína í einhverju ungmennafélagi eiga vísan aðgang að Farfuglafundunum á komandi vetri. Ungmennafélagar! Munið að útvega ykkur félagsskírteini.34 Á þingi UMSK 1938 lýstu menn yfir ánægju sinni með starfsemi farfuglafundanna, þökkuðu Velvakendum fyrir vel unnin störf og báðu þá blessaða að halda starfseminni áfram. En árið eftir tjáði formaður Velvakanda að fjárhagshalli hefði orðið á fundunum og fékk samþykkta fjárveitingu frá UMSK til að jafna metin. Þá kom fram að upp væri risinn félagsskapur sem kallaði sig Farfugla og hefði farið þess á leit við Velvakanda að fá að sitja einn að nafninu. Því var tekið fjarri en þess í stað samþykkt að reyna að fá lögfestingu á nafninu. En áfram hallaði undan fæti. Á héraðsþingi 1940 kom fram að farfuglafundirnir hefðu verið illa sóttir um haustið og var óreiðuástandi hernámsins kennt um. Einnig höfðu menn neyðst til að fækka fundunum vegna húsnæðisvandræða. Haustið 1941 var ekki unnt að halda fundina vegna vöntunar á húsnæði og reyndist það vera banabiti þeirra. Farfuglafundirnir voru ein helsta skrautfjöður Ungmennafélagsins Velvakanda og þeir runnu sitt skeið á enda samtímis því að félagið lagði upp laupana. Gestir frá Noregi Á árum fyrri heimsstyrjaldar voru uppi ráðagerðir innan UMFÍ um að bjóða frændum vorum hingað til norræns ungmennafundar en þær dagaði uppi í ófriðarbálinu. Leið nú og beið þar til Guðbjörn Guðmundsson, formaður UMSK, var á ferð í Noregi sumarið 1923. Hann hafði þá samband við formann norska ungmennasambandsins í Osló, Torstein Christiansen. Þar lagði Guðbjörn fram þá hugmynd að skiptast á heimsóknum við norska ungmennafélaga sem voru meira en tilbúnir til þess. Guðbjörn kynnti þessa hugmynd sína þegar heim kom og fékk góðar undirtektir. Stjórn UMSK var stórhuga og nú var ákveðið að bjóða norskum ungmennafélögum til kynnisferðar á Íslandi sumarið 1924. Þetta var djarflega gert og á sér ekki hliðstæðu í sögu ungmennafélagshreyfingarinnar. Hér var ekki tvínónað við hlutina og hinn 5. maí sendi stjórnin formlegt boðsbréf til Bondeungdomslaget í Osló þar sem fimm norskum ungmennafélögum var boðið til Íslands. Norðmenn svöruðu skjótt og kváðust þiggja þetta höfðinglega boð með mikilli ánægju. Margt þurfti að skoða og skipuleggja og

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==