Aldarsaga UMSK 1922-2022

482 Helga Guðmundsdóttir, hafnaði í þriðja sæti. Einn karlmaður tók þátt í keppninni, Vígþór Sjafnar Zophoníasson sem starfaði sem veitingamaður á Hallormsstað. Hann nefndi sitt framlag „Veisluborð súrrealistans“ og skreytti borð sitt meðal annars með hauskúpu af lambhrúti og gúmmískóm. Vígþór Sjafnar lenti í 4.–5. sæti í keppninni.614 Jósteinn Þór Hreiðarsson (HSÞ) sigraði í línubeitingu með yfirburðum. Jósteinn var orðinn heimavanur á verðlaunapallinum því þetta var í fjórða skiptið sem hann hafði sigur í þessari grein. 15 einstaklingar tóku þátt í keppni í pönnukökubakstri sem fór fram í Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum, að viðstöddum mörgum áhorfendum. Sigurvegari var Stefanía Hrafnkelsdóttir, húsfreyja á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu, hún hlaut 96 stig af 100 mögulegum. Einn karlmaður tók þátt í keppninni, enginn annar en Birgir Ari Hilmarsson, betur þekktur í þessari bók sem siglingamaður úr Ými og framkvæmdastjóri UMSK. Stafsetning var metin til stiga á Egilsstöðum og mættu 13 einstaklingar til leiks. Stefán Jónsson HSÞ gerði fæstar villurnar, þó brást honum bogalistin líkt og fleirum við ritun orðsins „sjöundadagsaðventistar“ sem bar að rita í einu orði en ekki þremur.615 Margir keppendur voru skráðir til leiks í starfshlaupinu sem vakti ævinlega athygli áhorfenda á landsmótum. Hlutskarpastur varð Sigurður Aðalsteinsson, bóndi á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal og nefndarmaður í landsmótsnefnd. Sund. Sundið innan UMFÍ var í nokkrum öldudal um þetta leyti, keppendum hafði fækkað um þriðjung frá síðasta landsmóti og sundliðin úr HSK og Keflavík máttu muna sinn fífil fegurri. Sterkustu liðin komu frá UMSK og úr Njarðvík. Heiðar Ingi Magnússon frá Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV) setti landsmótsmet í 50 m og 100 m skriðsundi, Njarðvíkingurinn Jón Oddur Sigurðsson sigraði í þremur greinum og vann besta afrekið í karlaflokki þegar hann synti 100 m bringusund á 1.05,60 mín. Íris Edda Heimisdóttir hélt uppi merkjum Keflvíkinga, setti landsmótsmet, fékk fullt hús stiga og vann besta afrekið í kvennaflokki þegar hún synti 200 m bringusund á 2.37,47 mín. Hún var einnig í boðsundssveitinni sem vann 4 x 100 m skriðsundið, þrjár systur hennar voru einnig í sveitinni, þær Eva Dís, Diljá og Karítas. Góður kvartett það, á aldrinum 9–19 ára. Sundfólk úr UMSK stóð sig afar vel og vann stigakeppnina naumlega, Njarðvíkingar urðu í 2. sæti. Enginn keppandi frá UMSK vann gullverðlaun en eftirtaldir keppendur úr UMSK lentu í verðlaunasætum: Jóhann Árnason varð þriðji í 100 m baksundi. Arnar Felix Einarsson varð annar í 100 m skriðsundi og einnig í 100 m bringusundi. Ásgeir Haukur Einarsson varð annar í 800 m skriðsundi og Sölvi Rúnar Guðmundsson þriðji í sömu grein. Birgir Ari í pönnukökubakstri. Landsmótsbarn ,,Ákveðið var að verðlauna þá foreldra af Austurlandi sem eignuðust barn næst landsmótshelginni. Það var stúlkubarn [María Bóel] frá Neskaupstað sem hlýtur sæmdarheitið Landsmótsbarnið 2001. Foreldrar stúlkunnar eru Guðmundur R. Gíslason og Guðrún Smáradóttir og eru þau bæði íþróttafólk þannig að það var vel viðeigandi. Guðrún fæddi dótturina 8. júlí. Langafi barnsins er Stefán Þorleifsson, sem var mikill íþróttamaður á árum áður en hann er nú hátt á níræðisaldri.“616 María Bóel Guðmundsdóttir fæddist nokkrum dögum fyrir landsmótið og hlaut þess vegna sæmdarheitið landsmótsbarnið 2001. Hún er frá Neskaupstað þar sem bakgrunnsmyndin var tekin.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==