Aldarsaga UMSK 1922-2022

46 Skeggrætt um skiptingu Fljótlega eftir stofnun fjórðungssambandanna hófust deilur um fyrirkomulag og ágæti þeirra yfirleitt. Íþróttasambandið Skarphéðinn í Árnes- og Rangárvallasýslum var stofnað árið 1910. Þess helsta verkefni fyrstu árin var að halda árlegt íþróttamót fyrir héraðið. Héraðsmótin voru haldin að Þjórsártúni og voru stórhátíðir Sunnlendinga með þúsundum mótsgesta. Tveimur árum seinna reis Ungmennasamband Borgarfjarðar á legg og hafði svipuðu hlutverki að gegna. Það stóð fyrir árlegu íþróttamóti héraðsins á sumrin og umræðufundum á veturna. Mörgum Sunnlendingum og Borgfirðingum þótti ólíkt hampaminna að sækja sinn félagslega vettvang innan sýslnanna fremur en landsfjórðungsins, þess heldur sem ákveðið var að leggja Vesturland undir fjórðunginn og láta landamærin ná frá Skeiðará til Gilsfjarðar. Þar á milli var ekki minna en viku til tíu daga ferðalag fyrir röskan ferðamann með óþreytta hesta. Hestar voru þá helsta samgöngutækið og lítið var um vegi. Þetta var nefnilega fyrir daga þeirra sjálfrennireiða sem seinna nefndust bílar. Páll Zóphaníasson, fyrsti formaður UMSB, hafði þetta um samgöngumálin að segja í Skinfaxa árið 1913: Ég hika ekki við að fullyrða það, að eins og nú er háttað samgöngum hjá okkur, er okkur ómögulegt með öllu að sækja almennt og með áhuga eitt íþróttamót og eitt íþróttanámsskeið úr öllum fjórðunginum. Þau verða að verða fleiri, og hvað er þá eðlilegra en hafa samböndin ekki stærri en það að kraftarnir geti verið óskiftir um þau.3 Næstu árin stóðu stöðugar deilur um framtíð fjórðungssambandanna í Skinfaxa og sýndist sitt hverjum. Stjórnarmenn sambandanna börðust gegn skiptingu þeirra og töldu einingarnar verða því veikari sem þær væru minni. Hinsvegar voru margir sem þóttu fjórðungssamböndin þung í vöfum vegna stærðar sinnar. Héraðssambönd sem náðu yfir eina sýslu þóttu þeim hentugri einingar. Nokkur hiti hljóp í umræðuna um tíma og til dæmis voru bornir fram tveir listar, A- og B-listi, á þingi FS 1914 þegar kjósa skyldi fulltrúa á þing UMFÍ. Á A-lista voru andstæðingar fjórðungsskipta en á B-lista voru skiptingarmenn. B-listinn sigraði í kosningunum og hlaut átta fulltrúa af þeim tólf sem kjörnir voru. Margir lögðu orð í belg um það hvort betra væri að halda eða sleppa fjórðungssamböndunum. En þegar ritstjóri Skinfaxa, Jónas Jónsson frá Hriflu, brá stílvopni sínu lögðu menn augu og eyru að. Jónas lagðist á sveif þeirra sem vildu leggja FS niður og skóf ekki utan af hlutunum frekar en fyrri daginn. Hann tiltók nokkur atriði og sagði meðal annars: Fjórðungurinn er svo stór að félagsmenn ná til engra funda saman, ekki einu sinni með fulltrúakosningu. Sannar það reynsla undanfar. ára. … Kynningin og áhrifin innbyrðis sáralítil eins og nú er, og ekki líkleg til að fara vaxandi. … Allar fjórðungsstjórnir hafa þótt daufar og framkvæmdalitlar, og þó verið margskift um menn. Það bendir á að annaðhvort sé lítið mannval í U.M.F. í Rvík eða að starfið sé … forsending. Ráðið út úr vandræðunum er að hafa samböndin minni, héraðasambönd, sem annist heimamál héraðanna.4 Brátt fór að kvarnast úr liðinu hjá FS. Átta vesturskaftfellsk ungmennafélög sögðu sig úr sambandinu árið 1917 þar sem þau höfðu myndað með sér héraðssamband. Úrsögnin var samþykkt á ársþingi FS það ár og Skaftfellingum greiddur erfðahluti þeirra úr sjóðum sambandsins. Þá voru eftir 27 félög með 1177 félagsmönnum. Auðséð var að þingfulltrúar gerðu ekki ráð fyrir langlífi sambandsins því þeir sömdu tvær fjárhagsáætlanir. Aðra fyrir óbreytt ástand en hin gerði ráð fyrir frekari uppskiptingu. Eftir þetta var ljóst að dagar FS voru taldir. Síðustu árin voru að mestu bið eftir endalokunum og starfsemin fremur þróttlítil. Íþróttakennsla var engin en nokkrir fyrirlestrar haldnir á vegum sambandsins. Vorið 1918 stofnuðu Dalamenn sitt héraðssamband en þeir höfðu reyndar aldrei starfað innan FS. Skarphéðinsmenn og Borgfirðingar einbeittu sér að eigin samböndum og treystu böndin við UMFÍ sem var að styrkjast. Síðustu þing FS voru hálfgerðar málamyndasamkomur enda orðaði einn þingfulltrúinn það svo á þinginu 1920 „að fjórðungssambandið væri úrelt orðið“ og mótmælti því enginn. Á sambandsþingi UMFÍ 1921 var ákveðið að leggja Jónas Jónsson frá Hriflu, ritstjóri Skinfaxa, taldi einsýnt að leggja fjórðungssamböndin niður og taka upp héraðssambönd.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==