Aldarsaga UMSK 1922-2022

45 Borgarfirði og sýslunum þremur á Suðurlandi, V-Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessýslum. Félagsmenn voru 1670. Samkvæmt lögum UMFÍ voru félögin jafnframt innan vébanda þess en í reynd voru sum félögin óvirk innan UMFÍ og hölluðu sér fremur að FS enda styrkur þess talsvert meiri. FS var milliliður milli félaganna og UMFÍ og mörg þeirra létu sér nægja sambandið við það fyrrnefnda. Ársþing FS voru haldin að vorlagi ár hvert eins og lög gerðu ráð fyrir og féllu aldrei niður allt til loka. Hins vegar voru talsverðar mannabreytingar í hinni fámennu þriggja manna stjórn sem báru því vitni að lítt var sóst eftir þeim vegtyllum. Lítið hefur varðveist af rituðum gögnum um starfsemina en ágrip af þinggerðum birtist þó ár hvert í Skinfaxa sem reyndar er helsta uppspretta heimildanna. Til fróðleiks kemur hér formannatal FS frá upphafi eins og það birtist í þinggerðunum. Til frekari glöggvunar er einnig upplýst frá hvaða ungmennafélögum formennirnir komu. 1908–1913: Þorkell Þ. Clementz, Umf. Reykjavíkur 1913–1914: Jónas Jónsson, Umf. Reykjavíkur 1914–1915: Jón Ívarsson, Umf. Dagrenning 1915–1918: Steinþór Guðmundsson, Umf. Reykjavíkur 1918–1919: Björn Birnir, Umf. Afturelding 1919–1921: Þorgils Guðmundsson, Umf. Drengur 1921–1922: Magnús Stefánsson, Umf. Reykjavíkur2 Síðasti formaðurinn, Magnús Stefánsson, var fjölhæfur félagsmálamaður sem sést best á því að árið sem hann gegndi formennsku FS var hann einnig formaður Ungmennafélags Reykjavíkur, Glímufélagsins Ármanns og UMFÍ. Líklegt má þó telja að forysta hins deyjandi fjórðungssambands hafi hvílt létt á herðum hans enda starfsemi þess þá orðin sáralítil. En FS var á sínum tíma umsvifamikið í störfum sínum fyrir ungmennafélögin á Suður- og Vesturlandi. Á þess vegum fóru margir ágætir fyrirlesarar í ótal margar fyrirlestrarferðir um sambandssvæðið. Fyrirlesarar voru fjölmiðlamenn þess tíma. Þeir voru allt í senn, leikarar, fréttamenn, fræðarar og skemmtikraftar. Alþýðufræðarinn Guðmundur Hjaltason var vinsælastur þeirra sem tóku að sér að halda fyrirlestra fyrir ungmennafélögin og bauð upp á mikið úrval slíkra. Um tíu ára skeið flutti hann ekki færri en 1100 fyrirlestra fyrir ungmennafélögin við miklar vinsældir. FS lét einnig íþróttakennslu til sín taka með ágætum árangri. Glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson var sendur út af örkinni árið 1911 og heimsótti allmörg ungmennafélög. FS efndi til íþróttanámskeiðs í Reykjavík 1913 en þátttakendur urðu ekki nema þrír. Árið eftir var haldið námskeið sem stóð í hálfan mánuð. Þá tókst öllu betur til því nemendur urðu 19 talsins. Einn þeirra var úr Ungmennafélaginu Aftureldingu, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, sem síðar varð kunnur listamaður. Svipað námskeið var haldið árið 1915 en fórst fyrir árið 1916 vegna fámennis. Fleiri urðu námskeiðin ekki. Vorið 1915 stóð FS á hátindi sínum og virtust því allir vegir færir. Félög þess voru þá um 40 talsins og félagsmenn um 1600. Þá var Jón Kjartansson, kennari frá Önundarfirði, ráðinn starfsmaður sambandsins. Hann ferðaðist á milli félaganna um veturinn, hélt fyrirlestra og kenndi íþróttir. Guðmundur Einarsson frá Miðdal kenndi íþróttir haustið 1916 og um svipað leyti fór formaður sambandsins, Steinþór Guðmundsson guðfræðingur, í fyrirlestrarferð á þess vegum. Nokkrir fyrirlestrar voru haldnir haustið 1917 en eftir það dró mjög úr starfseminni. Helsta ástæðan var fjárskortur því tekjur þess voru rýrðar töluvert frá hendi UMFÍ haustið 1917. Eftir þá vængstýfingu fór að draga að endalokum. Stjórn FS árið 1916. Steinþór Guðmundsson formaður, Guðrún Björnsdóttir ritari og Guðmundur Kr. Guðmundsson gjaldkeri. Listamaðurinn Guðmundur Einarsson frá Miðdal kenndi íþróttir meðal ungmennafélaga á sínum yngri árum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==