Aldarsaga UMSK 1922-2022

452 Framkvæmdastjóri í 17 ár Birgir Ari Hilmarsson hafði gegnt formennsku í Siglingafélaginu Ými í Kópavogi og starfað á vettvangi UMSK þegar hann var ráðinn framkvæmdastjóri sambandsins árið 1991. Þá var UMSK að vinna sig út úr erfiðri fjárhagsstöðu eftir mikið tap á landsmótinu í Mosfellsbæ árið áður. Fyrst var Birgir Ari í hálfu starfi sem var breytt í fullt starf í upphafi árs 1993. Hann gegndi starfi framkvæmdastjóra í 17 ár og á því tímaskeiði tók hann þátt í miklum breytingum á starfsemi héraðssambandsins. Lottóið skipti sköpum Birgir Ari var fyrst spurður að því hverjir hefðu verið helstu tekjustofnar sambandsins þegar hann hóf þar störf. Helstu tekjurnar voru útbreiðslustyrkur ÍSÍ, arðgreiðslur frá lottó, ásamt því að sveitarfélögin á félagssvæðinu lögðu til styrki, segir Birgir Ari, en þegar lottótekjurnar tóku að aukast var ekki þörf á föstum styrkjum frá sveitarfélögunum. Eftir að búið var að ganga frá öllum skuldum vegna landsmótsins 1990 gátum við lagt fé til hliðar í sérstaka sjóði. Hvaða sjóðir voru það? Landsmótssjóður varð til, hann miðaði að því að eiga fyrir þátttökukostnaði UMSK á landsmótum UMFÍ. Einnig var Afrekssjóður UMSK efldur. Hver voru helstu verkefni þín sem framkvæmdastjóri UMSK? Starfið þróaðist mikið á þeim tíma sem ég vann þar. Við fengum afdrep hjá UMFÍ á Öldugötunni, þar vorum við með skrifborð og tölvu, þangað barst póstur og stjórnarfundir voru haldnir þar. Árið 1993 fengum við inni hjá ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og þar er sambandið enn til húsa. Fyrst eftir landsmótið var enginn framkvæmdastjóri að störfum en það var samið við mig á haustmánuðum 1991 um að mæta nokkra tíma í viku til að svara pósti og koma erindum í réttan farveg. Starfið vatt utan á sig og fljótlega var þetta orðin 50% staða. Eftir því sem tíminn leið og skuldir voru greiddar var staðan gerð að 100% starfi, enda verkefnin ærin í stóru sambandi. Auk daglegrar umsýslu þurfti að undirbúa fundi og gefa út fréttabréf, undirbúa héraðsmót og skólahlaup UMSK. Einnig þurfti að sinna þátttöku í þingum og fundum heildarsamtaka og sinna samskiptum við aðildarfélögin, meðal annars í tengslum við vinnslu á starfsskýrslum og þátttöku í aðalfundum þeirra. Framkvæmdastjóri sá einnig um undirbúning á ársþingi UMSK ásamt ritun og umbroti á ársskýrslu og þinggerðum. Landsmótin og tjaldið Birgir Ari segir að mikið hafi mætt á framkvæmdastjóranum í undirbúningi landsmóta UMFÍ. Landsmótin voru auðvitað hápunktur í starfi sambandsins, segir hann, sem framkvæmdastjóri mætti ég á fimm landsmót, fyrst á Laugarvatni 1994, þar sem UMSK mætti með fríðan flokk keppenda, og síðast í Kópavogi 2007, þar sem engu var til sparað, enda var það stundum kallað Risalandsmótið. Voruð þið ekki með stórt samkomutjald á landsmótum? Jú, en eftir landsmótið á Laugarvatni var ljóst að gamla þjóðhátíðartjaldið okkar var ónýtt svo við könnuðum möguleikana á að kaupa nýtt tjald. Seglagerðin hafði saumað nokkur 200 fermetra risatjöld fyrir lýðveldishátíðina á Þingvöllum árið 1994 og var leitað eftir því að festa kaup á einu slíku. Samningar náðust við Seglagerðina um kaupin árið 1996 og sérstakur vagn var smíðaður til að flytja það á milli staða. Þetta tjald varð stór hluti af starfi sambandsins, bæði sem fjáröflun því það var leigt út og einnig var það mikið notað af félögunum á sambandssvæðinu, til dæmis á stórmótum. Góður hópur myndaðist sem hafði umsjón með uppsetningu tjaldsins, það var heilmikið verk og því gott að hafa þennan þétta hóp til staðar sem alltaf var hægt að kalla í. Birgir Ari Hilmarsson.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==