Aldarsaga UMSK 1922-2022

311 Siglingaklúbburinn Vogur Líkt og Kópavogsbúar vildu Garðbæingar og Hafnfirðingar stíga ölduna og um miðjan 8. áratuginn tóku til starfa Siglingaklúbburinn Þytur í Hafnarfirði og Siglingaklúbburinn Vogur í Garðabæ. Vogur var stofnaður árið 1974 og var Steindór Guðjónsson kjörinn fyrsti formaður klúbbsins. Fyrstu árin unnu Vogur og Þytur þétt saman, stóðu fyrir öflugu barna- og unglingastarfi við Arnarnesvog í Garðabæ þar sem félögin höfðu sameiginlega aðstöðu, efndu til siglingasýninga og liðsmenn þeirra tóku þátt í ýmsum mótum með góðum árangri. Þessi starfsemi teygði sig inn á vettvang UMSK, til dæmis haustið 1981 þegar Vogur hélt siglingamót UMSK fyrir 8–14 ára drengi þar sem keppt var á eins manns bátum. Þátttakendur komu frá Vogi, Ými og einnig kepptu gestir frá Þyt og Siglingafélaginu Sigurfara á Seltjarnarnesi sem var þá nýstofnað og gekk í UMSK árið 1984. Starfsemi Vogs gekk vel um alllangt skeið, sveitarfélagið veitti klúbbnum afnot af landi og leyfi til framkvæmda þar. Félagið stóð fyrir mótum og tók þátt í Íslandsmótinu í siglingum, sýndi siglingar á þjóðhátíðardaginn og eignaðist allmarga báta. Árið 1980 eignaðist félagið sína fyrstu Íslandsmeistara, sem voru bræðurnir Snorri og Þráinn Hallgrímssynir, og árið 1982 varð Jón Gunnar Aðils, siglingamaður úr Vogi, kjörinn íþróttamaður Garðabæjar, fyrstur manna. Starfsemi klúbbsins var lýst þannig árið 2001: „Siglingaklúbburinn Vogur var stofnaður sem íþróttafélag innan Íþróttasambands Íslands, bátar voru keyptir, kennarar ráðnir og þróttmikið siglingalíf hófst við voginn. Mikil ánægja var með starfið, bæði þeirra sem bjuggu við voginn og hjá foreldrum unglinganna sem sóttu námskeið hjá klúbbnum. Þóttu siglingarnar vera góð viðbót við það æskulýðsstarf sem fyrir var í bænum. Siglingastarfið blómstraði við voginn og jókst í réttu hlutfalli við stækkandi bæjarfélag, en því miður lagðist starfið af vegna vaxandi sjávarmengunar á svæðinu.“241 Þetta mengunarmál sem hér er nefnt átti eftir að verða afdrifaríkt fyrir Vog líkt og fram kemur í Sögu Garðabæjar frá árinu 2015: „Aukin byggð í Garðabæ skapaði siglingamönnum ófyrirséð vandamál. Minna var lagt upp úr frárennslismálum á þessum tíma en seinna varð og lágu klóakrör frá byggðinni út í Arnarnesvoginn og orsökuðu mengun á svæði siglingamanna sem fór yfir hættumörk auk þess sem það þótti heldur ókræsilegt að sulla í sjónum við slík skilyrði. Varð mengunin til þess að starfsemi siglingaklúbbsins lagðist af á fyrri hluta níunda áratugarins. Eftir það var aðalhúsnæði klúbbsins tekið til annarra nota og æfðu m.a. hljómsveitir í húsinu sem síðar var jafnað við jörðu. Eftir stóð svæðið sem áfram var skipulagt til siglingastarfsemi. Þegar frárennslismálin komust í gott lag og Arnarnesvogurinn varð aftur hreinn og tær var gerð tilraun til að endurvekja starfsemi Vogs en það náði ekki fram að ganga.“243 Því er svo við að bæta að þegar nær dró aldarafmæli UMSK árið 2022 var starfsemi Vogs endurvakin á nýjan leik. Siglingafélagið Sigurfari Siglingafélagið Sigurfari á Seltjarnarnesi var stofnað í apríl árið 1981, aðalmarkmiðið var að skapa aðstöðu fyrir báta félagsmanna í Bakkavör, vera með fræðslustarfsemi fyrir börn og unglinga og kenna siglingar. Ævar Guðmundsson var kjörinn fyrsti formaður félagsins.244 Félagið gekk í UMSK árið 1984 en starfsemin lagðist niður kringum aldamótin 2000. Íþróttaiðkendur árið 1999 Samkvæmt starfsskýrslum frá aðildarfélögum UMSK árið 1999 skiptust iðkendur þannig milli íþróttagreina á því ári: Knattspyrna: 2535 iðkendur. Golf: 2268 iðkendur. Handknattleikur: 1504 iðkendur. Hestaíþróttir: 1525 iðkendur. Fimleikar: 949 iðkendur. Tennis: 428 iðkendur. Körfuknattleikur: 400 iðkendur. Dans: 373 iðkendur. Íþróttir fyrir alla: 373 iðkendur. Frjálsar íþróttir: 311 iðkendur. Júdó: 293 iðkendur. Sund: 293 iðkendur. Blak: 90 iðkendur. Siglingar: 75 iðkendur. Skíðaíþróttir: 57 iðkendur. Íþróttir fatlaðra: 62 iðkendur. Karate: 51 iðkandi. Badminton: 60 iðkendur. Borðtennis: 37 iðkendur. Keila: 25 iðkendur. Samtals eru þetta 11.709 manns, knattspyrnan var vinsælust en golfíþróttin sótti í sig veðrið innan UMSK.242

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==