Aldarsaga UMSK 1922-2022

178 Skák og mát Á héraðsþingi UMSK í byrjun mars árið 1956 ræddi Axel Jónsson formaður um nýmæli í starfi sambandsins. Þar var einkum um að ræða héraðsmót í skák sem stóð yfir einmitt um þær mundir. Þetta mun hafa verið fyrsta héraðsmót UMSK í þessari vinsælu hugaríþrótt.143 Skákin fékk fljúgandi start því öll fimm félög sambandsins sendu sveit til keppni á héraðsmótinu. Fjögurra manna sveitir kepptu frá hverju félagi og var tefld tvöföld umferð. Keppendur voru á öllum aldri, allt frá unglingum til karla á sjötugsaldri. Keppnin var hörð enda áttu félögin ágætum skákmönnum á að skipa þótt nöfn þeirra hafi hvergi verið skráð á þessum tíma. Sveit Drengs vann til eignar fagran silfurbikar sem keppt var um á mótinu en úrslit skákmótsins urðu þessi: 1. Umf. Drengur 10 vinningar 2. Umf. Afturelding 9,5 vinningar 3.–4. Umf. Bessastaðahrepps 8,5 vinningar 3.–4. Umf. Breiðablik 8,5 vinningar 5. Umf. Kjalnesinga 3,5 vinningar Í lok mótsins fór fram hraðskákkeppni. Þar sigraði Sófus Márusson frá Umf. Breiðabliki. Hann vann allar sínar skákir og hlaut einnig silfurbikar að launum. Skákkeppni fyrir unglinga var háð 21. maí um vorið í Hlégarði og þar sigraði sveit frá Umf. Bessastaðahrepps með nokkrum yfirburðum. Þegar rússneski stórmeistarinn Mark Taimanov kom til keppni á skákmóti í Reykjavík í mars 1956 gripu forsvarsmenn UMSK tækifærið og fengu hann til að tefla fjöltefli í Hlégarði á skírdag. Heimamenn fjölmenntu og teflt var á 40 borðum. Fjöldi áhorfenda var mikill því mörgum lék hugur á að sjá stórmeistarann tefla. Taimanov sigraði á 36 borðum, tapaði tveimur skákum og gerði tvö jafntefli. Að loknu fjölteflinu var Taimanov hylltur og honum færð myndskreytt bók um Ísland. Rússinn vann hugi allra með skemmtilegri framkomu í hvívetna. Það er því óhætt að segja að skákíþróttin hafi náð miklu flugi fyrsta árið sem hún var stunduð á héraðsvísu innan UMSK.144 Árið eftir var hinn upprennandi skáksnillingur Íslands, Friðrik Ólafsson, fenginn til að tefla fjöltefli í Hlégarði. Skáksveit unglinga í Ungmennafélagi Bessastaðahrepps sem sigraði í skákkeppni UMSK í Hlégarði árið 1956. Í sveitinni voru tvennir bræður. Sitjandi: Úlfar Ármannsson, Auðunn Sveinbjörnsson og Gunnar Ármannsson. Standandi: Jón Gunnar Gunnlaugsson og Halldór Gunnlaugsson. Hjá þeim stendur bikarinn sem sveitin vann til eignar. Taimanov leikur í fjöltefli í Hlégarði. Áhorfendur fylgjast með af athygli fyrir aftan þátttakendur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==