Aldarsaga UMSK 1922-2022

133 undan sinni samtíð hvað snerti þátttöku í félagsmálum og eflaust skipti máli að báðar voru einhleypar menntakonur. Giftar konur og heimavinnandi létu kvenfélögin oftast nægja. Þær konur sem einstaka sinnum birtust sem fulltrúar á ársþingunum voru oftast nær ungar og ólofaðar stúlkur. Þeir karlar sem þingin sóttu tóku eiginkonurnar ekki með sér. Þeirra staður var á heimilinu. UMSK var þó ekkert einsdæmi hvað þetta snerti. Þannig var staðan hvarvetna í félagsmálum landsins, nema þá í kvenfélögunum. Á þing UMSK árið 1943 mættu 15 fulltrúar. Fjórtán karlar og ein kona frá Umf. Reykjavíkur, Sigríður Ingimarsdóttir. Hún var tvítug námsmær í Menntaskólanum í Reykjavík og varla búist við því að hún setti mikið mark á þingið. Hún tók þó tvisvar til máls og var í þinglok kosin í varastjórn. Árið 1944 brá svo við að fjórar konur mættu til þings frá þremur félögum sambandsins, Aftureldingu, Reykjavíkur og Kjalnesinga. Umf. Drengur sem hélt þingið á Valdastöðum í Kjós var eina kvenmannslausa félagið. Fyrrnefnd Sigríður var í þessum hópi og var kosin annar af riturum þingsins. Í þinglok var hún kjörin ritari sambandsins og varð þar með þriðja konan til að gegna stjórnarstörfum. Ekki nóg með það heldur voru tvær af þingkonunum kjörnar í varastjórn. Ragnheiður Finnsdóttir, Umf. Kjalnesinga, var kjörin varaformaður og Kristín Jónsdóttir, Umf. Reykjavíkur, var vararitari. Sigríður Ingimarsdóttir lauk þinggerðinni með þessum orðum: Að kosningu lokinni var sest að kaffidrykkju. Undir borðum voru frjáls ræðuhöld. Voru þar þakkaðar hinar ágætu viðtökur Umf. Drengs. Að síðustu sleit formaður þinginu með nokkrum orðum og þakkaði traust það er fulltrúar hefðu sýnt með því að endurkjósa sig í formannssæti. Var klukkan þá rúmlega 8 eftir hádegi. Sigríður Ingimarsdóttir (ritari)58 Nú hefði mátt ætla að konur væru komnar jafnfætis körlum til frambúðar innan UMSK þegar þær voru orðnar helmingur kjörinna stjórnar- og varastjórnarmanna. Því var þó ekki að heilsa. Sigríður Ingimarsdóttir kom sem varafulltrúi Umf. Reykjavíkur á þingið 1945 og ritaði þinggerð en gaf ekki kost á sér til meiri stjórnarstarfa enda fullbókuð í félagsmálum á öðrum vettvangi. Hún var í stjórn skólablaðs MR, skólafélagsins Framtíðarinnar, Góðtemplarastúkunnar Sóleyjar og Umf. Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt.59 Þær Ragnheiður og Kristín voru heldur ekki endurkjörnar í varastjórn. Að vísu mættu tvær konur á þingið 1945 en þar voru aðeins karlar kosnir í stjórnina og var hún einkynja næsta aldarfjórðunginn. Sömuleiðis þingin. Karlarnir í UMSK voru því ótruflaðir af konum langtímum saman. Eftir nokkur kvenmannslaus ár kom Helga Ingólfsdóttir í Fitjakoti á héraðsþingið 1954 sem fulltrúi Umf. Kjalnesinga og var þá eina konan á þinginu. Félagi hennar, Bjarni Þorvarðarson á Bakka, taldi að hér mætti bæta um betur og flutti eftirfarandi tillögu: 31. þing UMSK skorar á sambandsfélög sín að þau kjósi einn kvenfulltrúa af hverjum þremur sem þau kjósa á þing UMSK.60 Tillagan var samþykkt mótatkvæðalaust en auðséð var að hugur fylgdi ekki máli hjá þingfulltrúum því engin kona birtist á næsta þingi UMSK og ekki á tveimur næstu þingum. Körlunum í UMSK leið greinilega vel kvenmannslausum og vildu ekki breyta því. En til voru þeir sem ekki undu þessu ástandi og á þinginu 1955 kom fram eftirfarandi tillaga: 32. þing UMSK telur það ekki vansalaust að engir kvenfulltrúar skuli sitja þingið. Skorar það á félög sambandsins að kjósa að minnsta kosti einn kvenfulltrúa hvert á næsta þing.61 Tillagan var auðvitað samþykkt en það breytti engu. Konur voru ekki valdar til að sitja á þingum UMSK. Þar áttu karlar einir sinn samastað. Á árunum fram til 1962 mátti þó oftast sjá eina eða tvær konur í hópi þingfulltrúa en þátttaka þeirra til jafns við karla lá ennþá í blámóðu fjarlægrar framtíðar.62 Herinn burt og handritin heim Þegar búið var að stofna lýðveldi á Íslandi árið 1944 voru ungmennafélagar uppfullir af þjóðernisanda og létu slík mál til sín taka. Þar voru ofarlega á blaði sjálfstæðis- og Sigríður Ingimarsdóttir, ritari UMSK 1944–1945.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==