Aldarsaga UMSK 1922-2022

105 Samkomulagið innan sambandsins var gott og menn einhuga í flestum greinum. Til dæmis voru allar tillögur á ársþinginu 1943 samþykktar samhljóða þótt umræður væru líflegar á köflum. Þar bar hæst tillögur um væntanlega stofnun lýðveldis, undirbúning héraðsmóts, meiri fjáröflun, aukið bindindi og betra mannlíf að öllu samanlögðu. Til Hvanneyrar 1943 Hinn glæsilegi sigur UMSK-manna á landsmóti UMFÍ í Haukadal sumarið 1940 sýndi fram á að þeir voru komnir jafnfætis öðrum ungmennasamböndum á íþróttasviðinu. Ekki tókst þeim að fylgja þessum góða árangri eftir á næsta landsmóti UMFÍ sem haldið var að Hvanneyri 1943 enda var nú samkeppnin orðin meiri. Keppendum hafði fjölgað um tæpan helming síðan í Haukadal og voru 120 talsins. Af þeim átti UMSK 18, þar af þrjár konur. Talsvert hallaði á kvenkynið á mótinu sem fékk aðeins 50 metra sund í sinn hlut á móti þeim 18 greinum sem karlarnir fengu að spreyta sig á. Sundfólkið mátti láta sig hafa það að keppa í ísköldum læk sem var útbúinn sem sundlaug. Hún var hlaðin úr sniddu og vatnið varð fljótlega kolmórautt á litinn. „Já ég man eftir þeim drullupolli,“ sagði Guðrún Tómasdóttir frá Brúarlandi sem kom önnur í mark í sundinu.5 Guðrún, sem síðar varð þekkt söngkona, var svo óheppin að vera dæmd úr leik og aðrar sundkonur úr UMSK vermdu botnsætin. Þar á móti kom að Halldór Lárusson á Brúarlandi stóð sig vel í sundinu. Hann kom annar að marki í 50 og 400 metra bringusundi og varð þriðji í 100 metrunum. Þar með varð hann stigahæstur UMSK-inga með átta stig en stigagjöfin var 4-3-2-1. Svo fór að Austfirðingar sigruðu á mótinu með 45 stig. Næstir komu Þingeyingar með 43 stig og þriðju voru heimamenn úr Borgarfirði sem hlutu 42 stig. UMSK varð að sætta sig við fjórða sætið með aðeins 23 stig. Janus Eiríksson í Óskoti stóð sig best UMSK-manna í frjálsíþróttum, hann náði öðru sæti í 200 m hlaupi og varð fjórði í 100 metrunum. Ritari sambandsins, Gísli Andrésson á Hálsi, varð þriðji í kringlukasti. Best tókst UMSK-mönnum upp í glímunni en þar kepptu bræðurnir frá Miðdal, Njáll og Davíð Guðmundssynir. Njáll varð þriðji en Davíð lagði alla og vann þarna sinn frægasta sigur. Davíð var eini sigurvegarinn úr UMSK á mótinu og lagði meðal annars glímukónginn ósigrandi, Guðmund Ágústsson frá Hróarsholti í Flóa. Davíð var snjall glímumaður, ekki hávaxinn en drjúgsterkur og fimur. Guðmundur Ágústsson var talinn besti glímumaður landsins og hafði unnið öll helstu glímumót ársins án þess að fá eina einustu byltu. Hann var heljarmenni að burðum, bragðfimur mjög og höfðinu hærri en Davíð sem tókst að leggja hann á snörpum hælkrók. Sigur hans var óvæntustu úrslit mótsins og þótti tíðindum sæta. Grímur Norðdahl á Úlfarsfelli var sem fyrr liðsstjóri UMSK en lét glímukeppnina eiga sig í þetta sinn. Hann sagði höfundi svo frá undirbúningi þeirra Davíðs fyrir glímuna: Ég eiginlega eigna mér nú alltaf heiðurinn af því að Davíð vann mótið á Hvanneyri 1943. Þeir voru þá að koma úr glímusýningarferð, hann og Guðmundur Ágústsson og Davíð segir við mig að hann sé nú illa upplagður að fara að glíma, búinn að húka í rútu alla leið norðan úr landi hálfstirður og lerkaður. Ég var með herbergi þarna á þinginu og fór með hann þangað og nuddaði hann hæls og hnakka milli. Sagði svo við hann: „Farðu nú og leggðu Golíat,“ og það gerði hann.6 Frá tjaldbúðum keppenda á landsmótinu á Hvanneyri 1943. Davíð Guðmundsson í Miðdal sigraði óvænt í glímukeppni Hvanneyrarmótsins.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==