Aldarsaga UMSK 1922-2022

104 Gísli Andrésson Gísli Andrésson fæddist á Bæ í Kjós 14. nóvember 1917, sonur hjónanna Andrésar Ólafssonar hreppstjóra og Ólafar Gestsdóttur konu hans. Fimm ára gamall fluttist hann með foreldrum sínum að Neðra-Hálsi og átti þar heima alla tíð eftir það. Gísli ólst upp í glaðværum hópi fjórtán systkina sem voru bæði félagslynd og söngvin. Þau voru öll virk í ungmennafélagsstarfi sveitarinnar og þar var Gísli einna fremstur í flokki. Gísli fór til náms í íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal veturinn 1936. Veturinn eftir var hann í bændaskólanum á Hvanneyri og vann lengi að búi móður sinnar á Neðra-Hálsi eftir lát föður síns sem varð á fermingarári Gísla. Formlega tók hann við búinu þar ásamt Oddi bróður sínum árið 1948 og tók þá jafnframt við störfum hreppstjóra og sýslunefndarmanns í Kjósarhreppi eftir lát Gests bróður síns. Þeir Oddur og Gísli ráku búið saman lengi vel en svo var því skipt í félagsbú þegar synir þeirra komust til þroska. Gísli kvæntist árið 1950 Ingibjörgu Jónsdóttur ljósmóður frá Gemlufalli við Dýrafjörð og þeim varð níu barna auðið. Bræðurnir voru fimm og systurnar fjórar. Gísli var mikill áhugamaður um íþróttir, 17 ára gamall var hann kominn til keppni á hinum árlegu íþróttamótum Aftureldingar og Drengs og vann þar til verðlauna en hann var liðtækur í flestum greinum frjálsíþrótta. Gísli stóð sig vel á landsmótinu í Haukadal 1940 en þar náði hann öðru sæti bæði í kringlukasti og kúluvarpi. Hann vann marga sigra á A-D mótunum en stóð á hátindi íþróttanna á landsmótinu 1943. Þar varð hann stigahæstur keppenda með því að sigra í kúluvarpi og kringlukasti og vinna til stiga í hástökki, langstökki og 100 metra hlaupi. Gísli var hávaxinn og stæltur í vexti og hafði glæsilega framkomu. Hann var ávallt fjaðurmagnaður og léttur í spori og bar þar vitni um íþróttaæfingar fyrri ára. Sem vænta mátti var slíkur afreksmaður eftirsóttur til félagsstarfa og einnig þar var Gísli framarlega í flokki. Hann var einn úr þeirri breiðfylkingu Kjósverja sem reistu félagsheimilið Félagsgarð og árið 1940 var hann orðinn ritari Ungmennafélagsins Drengs. Þeirri stöðu gegndi hann í sex ár og var samtímis ritari UMSK um tveggja ára skeið. Árið 1943 var hann einróma kjörinn formaður UMSK og stjórnaði sambandinu styrkri hendi um sex ára skeið til ársins 1949. Á formannstíma hans voru íþróttir hafnar til vegs og virðingar, héraðsmótin hófu göngu sína og héraðskeppnir við önnur ungmennasambönd urðu árlegur viðburður. Gísli var áberandi á samkomum ungmennafélaga, hann tók oft til máls á þingum og samkomum hreyfingarinnar og það leiddi meðal annars til þess að hann var kjörinn í aðalstjórn UMFÍ árið 1943. Hann var varaformaður samtakanna í 16 ár samfleytt til ársins 1959 og lagði þar mikið starf af mörkum. Fyrir það starf og önnur meðal ungmennafélaga var hann sæmdur gullmerki UMFÍ árið 1973. Gísli var bindindismaður og gegnheill ungmennafélagi alla sína ævi. Samtök bænda sóttust eftir þessum ágæta liðsmanni og 1964 valdist hann í stjórn Sláturfélags Suðurlands og var formaður þess frá 1969 til dauðadags eða í 18 ár. Hann kunni þá list að láta fundi ganga hratt án eftirrekstrar. Í ræðum sínum hélt hann sig fast við efnið og sparaði allar skemmtisögur. Hann sagði þær hinsvegar á óformlegum fundum og var þá hverjum manni skemmtilegri. Gísli var einnig kosinn í stjórn Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins 1979. Hann átti sæti í mörgum nefndum á vegum þessara aðila og sat meðal annars í sexmannanefndinni svokölluðu sem ákvarðaði verðlag landbúnaðarvara. Samhliða þessum miklu félagsmálastörfum rak hann búskapinn á Neðra-Hálsi með myndarbrag. Ræktun var þar mikil og húsakostur góður. Eftir því var tekið hversu heyskapur var snemma á ferðinni og honum fljótt lokið. Þar fór saman frjósamt land, góð ræktun og nákvæmni í umhirðu og umgengni. Gísli bjó þar langa ævi en hann lést í bílslysi við Tíðaskarð 1. mars 1987.41 1 Mbl. 8. mars 1987, bls. 44-45. / Jón M. Ívarsson: Vormenn Íslands, bls. 316-327. Gísli Andrésson á NeðraHálsi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==