Aldarsaga UMSK 1922-2022

99 Mótið þótti takast svo vel að það varð eftir þetta fastur liður í íþróttaflóru landsmanna. Það hlaut nafnið Allsherjarmót ÍSÍ og fór fram árlega til ársins 1946. Það hófst yfirleitt 17. júní og stóð í nokkra daga. Keppt var í frjálsíþróttum, glímu og sundi og stigahæsta félagið gat skreytt sig með titlinum besta íþróttafélag Íslands það árið. Mótið var öllum opið en eins og gefur að skilja voru Reykjavíkurfélögin á heimavelli. Risarnir þrír í Reykjavík, ÍR, KR og Ármann, lögðu mikinn metnað í að standa sig vel á mótinu og skiptust á um sigurinn. En sveitamennirnir úr Kjósarsýslu komu mjög á óvart þegar þeir bættust í hópinn og voru engir eftirbátar heimamanna. Guðjón Júlíusson á Reynisvatni sló heldur betur í gegn árið 1921. Hann vann 1500 metra hlaupið á nýju Íslandsmeti, 4:28,6 mín. og 5000 metra hlaupið sömuleiðis á Íslandsmeti, 17 mínútum sléttum. Þá vann hann einnig víðavangshlaup mótsins og þýddi engum að reyna sig við hann á langhlaupabrautinni. Guðjón endurtók leikinn árið eftir og bætti þá 1500 metra metið niður í 4:25,8 mín. og 5000 metra metið í 16:06,0 mínútur sem þótti besta afrek mótsins unnið í hávaðaroki. Hann stóð þá á hátindi sínum sem hlaupakóngur Íslands. ÍK sendi sjö harðsnúna kappa til keppni á Allsherjarmótið 1923. Guðjón á Reynisvatni vann bæði 1500 og 5000 metrana í þriðja sinn og 10.000 metra hlaupið tóku Kjósarsýslubúar þrefalt með hann í fararbroddi. Þorgeir í Varmadal vann kringlukastið og varð annar í kúluvarpi og í þremur stystu hlaupunum. Lúðvík Sigmundsson stóð efstur í spjótkasti og Axel Grímsson stökk hæst á stöng. Sagt var að reykvískir íþróttaforystumenn hefðu verið á barmi hjartaáfalls þegar keppnin stóð sem hæst, því þeim leist ekkert á blikuna. Ármenningar, með sína 20 keppendur, sigruðu á mótinu með 39 stig en næstir komu ÍK-ingar með 34 stig og þriðju voru KR-ingar með 26. Þetta var hápunktur afrekasögu Íþróttafélags Kjósarsýslu ásamt víðavangshlaupunum því eftir þetta fór afreksmönnum þess heldur fækkandi. Reykjavíkurfélögin tóku enga áhættu eftir þessa atlögu heldur juku æfingar sínar um allan helming og breikkuðu bilið í stigakeppninni. Enn sigruðu þeir Guðjón á Reynisvatni og Þorgeir í Varmadal í sínum greinum árið 1924 og Þorgeir setti Íslandsmet í kringlukasti. En þetta voru síðustu afrekin í bili og árið 1926 var til dæmis enginn keppandi frá félaginu á Allsherjarmótinu. Reyndar mætti Bjarni Ólafsson hlaupagarpur í Vindási einn til leiks fyrir ÍK eitt árið en árið 1929 var hann þar skráður fyrir Dreng. ÍK virtist þá horfið af sjónarsviðinu. Nú leið heill áratugur án þess að bólaði á íþróttamönnum ÍK í höfuðstaðnum. Þá snaraði lágvaxinn en snaggaralegur drengur frá Óskoti í Mosfellssveit sér á reiðhjóli til Reykjavíkur og tók þátt í Drengjamóti Ármanns árið 1939. Þetta var hinn sprettharði Janus Eiríksson og hann sigraði óvænt í 80 og 400 metra hlaupum. Þátttaka hans vakti nokkra athygli því að í mörg ár hafði enginn utanbæjarmaður tekið þátt í mótinu. Árið eftir köstuðu fimm ungir piltar frá Íþróttafélagi Kjósarsýslu frá sér orfi og ljá og mættu til fjölmennrar Sigurvegarar Íþróttafélags Kjósarsýslu á Drengjamóti Ármanns 1940. Framar: Axel Jónsson í Hvítanesi og Janus Eiríksson í Óskoti. Aftar: Guðmundur Þ. Jónsson í Laxárnesi, Sveinn Guðmundsson á Reykjum og Sigurjón Jónsson í Hvítanesi. 20 ára afmælið Ungmennasamband Kjalarnesþings hélt hátíðlegt 20 ára afmæli sitt að Brúarlandi í Mosfellssveit 13. desember s.l. að afloknu 20. héraðsþingi sambandsins. Þar voru fluttar ræður um starfsemi U.M.S.K. og Umf. almennt og blandaður kór úr Umf. Dreng í Kjós söng mörg lög við ágætar undirtektir, m.a. hið nýja lag Kaldalóns [Ísland], er birtist í síðasta hefti Skinfaxa. Var samkoman öll hin myndarlegasta. Stjórn sambandsins skipa: Formaður Páll S. Pálsson, Reykjavík, ritari Gísli Andrésson, Hálsi, Kjós og féhirðir Ólafur Þórðarson, Æsustöðum, Mosfellssveit.64

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==