Aldarsaga UMSK 1922-2022

98 teknir aftur í náðarfaðm félagsins „án allra skuldbindinga um íþróttamál frá báðum hliðum,“ eins og sagði í fundargerð Aftureldingar frá 10. maí 1925. Viku seinna gaf Afturelding út sérstök félagsskírteini handa bræðrunum svo þetta færi ekkert á milli mála. Með þau fóru þeir í glímuferðina til Noregs en gengu svo aftur til liðs við Íþróttafélag Kjalnesinga þegar heim kom. Íþróttafélag Kjalnesinga breytti nafni sínu árið 1926 og hét eftir það Íþróttafélagið Stefnir. Sumarið 1926 settu félagsmenn þess þrjú Íslandsmet í frjálsíþróttum: Þorgeir Jónsson í kúluvarpi og kringlukasti og Ásgeir Einarsson í spjótkasti. Undir merki Stefnis varð Þorgeir Jónsson glímukóngur Íslands árin 1927 og 1928. En hann mundi Aftureldingu fósturlaunin og keppti með sínum gömlu félögum á félagamótinu gegn Dreng árið 1929 og átti stóran þátt í sigri Aftureldingar. Reyndar var Þorgeir slíkur yfirburðamaður að hann vann mótið næstum einn og sér. Árið 1931 fékk Stefnir loks að vera með á mótum Aftureldingar og Drengs og gerði sér þá lítið fyrir og vann mótið. Næstu tvö árin kepptu Stefnismenn á mótunum við góðan orðstír en eftir það hvarf félagið af sjónarsviðinu. Stefnir gekk aldrei í UMSK af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að það var íþróttafélag og taldist því ekki eiga samleið með ungmennafélögum og svo leist félagsmönnum þess ekkert á bindindisheiti UMFÍ og hina fanatísku forystumenn UMSK sem þeir töldu vera. Vorið 1938 var svo Ungmennafélag Kjalnesinga stofnað. Stofnfélagar þess voru synir og dætur þeirra manna sem stóðu að Íþróttafélagi Kjalnesinga/Stefni, ásamt öðru ungu fólki sveitarinnar. Félagið gekk í UMSK árið 1941 og kom því lítið við sögu sambandsins á þeim tíma sem hér um ræðir. Þegar Kjósarmenn og Mosfellingar brugðu sér til Reykjavíkur til að etja kappi við bæjarbúa var það fyrst undir merki AD en síðar Íþróttafélags Kjósarsýslu. ÍK var eins og menn muna ekki raunverulegt íþróttafélag heldur aðeins heiti á sameiginlegu keppnisliði félaganna sem var búið til á pappírnum 1922. Það var sett á laggirnar fyrst og fremst til þess að AD-menn gætu haldið áfram sigurgöngu sinni í Víðavangshlaupi ÍR. En þegar íþróttamenn félaganna áttuðu sig á að sameinaðir voru þeir helmingi öflugri en ella jókst sjálfstraust þeirra og næstu árin fjölmenntu þeir til keppni á ýmsum íþróttamótum höfuðstaðarins. Fyrsta stórmótið í Reykjavík eftir lok fyrri heimsstyrjaldar var haldið að tilhlutan ÍSÍ 17.–20. júní 1920 með landsmót UMFÍ sem fyrirmynd. Þar kepptu nokkrir AD-menn. Ágúst Jónsson í Varmadal varð þriðji bæði í langstökki og glímu og Magnús Blöndal á Grjóteyri náði þriðja sæti í 5000 metra hlaupi. Þorgils Guðmundsson á Valdastöðum hlaut sérstök verðlaun fyrir fegurðarglímu á Íslandsglímunni sem var haldin samhliða mótinu. Stórhlauparinn Guðjón Júlíusson á Reynisvatni með verðlaunagripi sína. Félagsskírteini Umf. Aftureldingar til handa Þorgeiri í Varmadal sem útbúið var í hasti svo hann gæti komist með í glímusýningarferðina til Noregs 1925.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==