Aldarsaga UMSK 1922-2022

95 3. gr. Þau ungmennafjelög eiga rjett á að vera í sambandinu sem hafa lög sín í samræmi við lög UMFÍ og ÍSÍ og í anda þeirra. 4. gr. Hjeraðsþing UMSK skal háð í nóvember ár hvert nema síðasta hjeraðsþing hafi ákveðið annað. Hjeraðsþing skulu háð hjá fjelögum sambandsins til skiftis og ber viðkomandi fjelag allan kostnað af þinghaldinu annan en ferðakostnað fulltrúa. Þó getur hjeraðsþing ákveðið annað ef sjerstakar ástæður eru fyrir hendi. 5. gr. Sambandsfjelögin kjósa fulltrúa á hjeraðsþing 1 fyrir hverja 2 tugi fjelaga eða brot úr tug. Þó mega aldrei vera fleiri en 5 frá sama fjelagi. Hjeraðsþing er lögmætt ef 2/3 kjörinna fulltrúa eru mættir. Afl atkvæða ræður úrslitum á hjeraðsþingi. Stjórnarnefndarmenn hafa því aðeins atkvæðisrjett að þeir sjeu kjörnir fulltrúar. 6. gr. Hjeraðsþing kýs 3ja manna stjórn; formann, ritara og fjehirðir. Ennfremur 2 endurskoðendur. Hjeraðsþing úrskurðar reikninga sambandsins. Það ræðir og gerir tillögur um starfsemi sambandsins. Ef deilur rísa milli fjelaga sambandsins ber hjeraðsþingi að úrskurða þær. 7. gr. Stjórnin stýrir málefnum sambandsins milli þinga og fylgist með starfsemi fjelaganna. Hún varðveitir sjóð sambandsins og leggur fram endurskoðaða reikninga á hverju hjeraðsþingi. 8. gr. Hvert sambandsfjelag greiðir árlega skatt til sambandsins 50 aura af hverjum fjelagsmanni. En þó skal hjeraðsþingi heimilt að setja um þetta nánari ákvæði með tilliti til fjelaga sem hafa meðlimi á aldrinum 12–16 ára enda njóti þeir fullra rjettinda í hjeraðssambandinu. Fjelögin skulu árlega senda sambandinu skýrslu yfir störf sín. 9. gr. Hjeraðsþing getur breytt lögum þessum með 2/3 greiddra atkvæða á hjeraðsþingi. 10. gr. Með lögum þessum eru úr gildi numin eldri lög sambandsins. 11. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.60 Aðalsteinn Sigmundsson, formaður UMFÍ 1930–1938, naut mikillar virðingar í ungmennafélagshreyfingunni fyrir sitt mikla og hugsjónaríka framlag til hennar. Þegar hann lét af formannsstörfum færði stjórn UMSK honum glæsilegan grip sem heiðursgjöf frá sambandinu. Það var forkunnar fagur lampi útskorinn eftir Ríkarð Jónsson og táknaði Skinfaxa, hest dagsins. Aðalsteinn varð djúpt snortinn og flutti þakkir sínar í málgagni UMFÍ sem auðvitað hét einnig Skinfaxi. Á héraðsþingi 1940 kom hernám Breta mjög til umræðu enda duldist engum að það raskaði mjög öllu félagslífi ungmennafélaganna. Hinn róttæki Grímur Norðdahl var þar sem endranær í fararbroddi ásamt Stefáni Jónssyni rithöfundi. Þeir voru sammála Aðalsteini Sigmundssyni sem ritaði um það í Skinfaxa að breskir hermenn hefðu gert skólana að ræningjabæli. Þá var eftirfarandi tillaga borin upp og samþykkt: Vegna þess ástands sem nú ríkir í landinu vill hjeraðsþing UMSK 1940 skora fastlega á öll ungmennafjelög landsins að standa nú betur en nokkru sinni fyr vörð um íslenska tungu, íslenskt þjóðerni og íslenska menningu.61 Á héraðsþinginu 1941 fjölgaði um eitt félag í sambandinu þegar Ungmennafélag Kjalnesinga fékk inngöngu. Þá voru félög sambandsins orðin fjögur eins og á stofnþinginu en lengst af höfðu þau ekki verið nema þrjú. Var formaður Kjalnesinga, Eggert Guðjónsson, boðinn hjartanlega velkominn og valinn staður í íþróttanefnd þingsins. Árið 1942 var Umf. Velvakandi horfinn af sjónarsviðinu en Umf. Reykjavíkur komið í staðinn og fékk það inngöngu á héraðsþinginu. Nýja félagið virtist jafnréttislega sinnað því meðal hinna fimm þingfulltrúa þess voru tvær konur. Formaður Umf.R, Páll S. Pálsson, ræddi um byggingu æskulýðshallar í Reykjavík og benti á að húsnæðisvandræði hefðu valdið því að Velvakandi gat ekki haldið uppi félagsstarfi sínu og farfuglafundunum. Páll lét til sín taka í störfum þingsins og var kosinn formaður sambandsins í þinglok. Mátti það teljast skjótur frami. Margar tillögur komu fram um málefni lands og lýðs, eins og um atvinnumál, lögboðna stafsetningu, forréttindi opinberra starfsmanna, byggingu æskulýðshallar og styrk til keppenda á næsta landsmóti UMFÍ. Alls voru tillögurnar 16 sem til umræðu komu. Það var greinilega heilmikill kraftur í UMSK á því merka ári 1942.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==