Aldarsaga UMSK 1922-2022

93 vel liðtækur glímumaður á yngri árum. Sundkeppnin fór fram í sjálfri Laxá og var synt undan straumi enda voru tímarnir góðir. Enn varð Drengur hlutskarpari og komu 26 stig í hans hlut en 16 til Aftureldingar. Menn voru misjafnlega vel undirbúnir eins og sjá má af frásögn Hákonar frá Valdastöðum: Á þessu móti tók ég að mér að koma harmonikkuleikaranum á staðinn því náttúrlega var dansað á eftir. Ég þurfti að reiða harmonikkuna fyrir framan mig alla leið og þegar á mótið kom fór ég beint að keppa. Svo þegar kom að glímunni var ég bara uppgefinn og þreyttur og átti ekki mikið erindi í baráttuna.57 Sextánda mótið á Kollafjarðareyrum 1936 var sett af leikstjóranum Ólafi Þórðarsyni en 21 keppandi spreytti sig á sjö keppnisgreinum. Þær voru 100 metra hlaup, hástökk, langstökk, 4000 metra víðavangshlaup, 50 metra sund, glíma og spjótkast sem var ný grein. Sundið átti að fara fram í Kollafirði að vanda en sökum illviðris voru keppendur sendir í bifreið að Álafossi og kepptu þar í útilauginni og þóttu skiptin góð. Tekið var fram að allir hefðu þeir synt skriðsund. Í glímunni var keppt í sveitum og þar stóðu Aftureldingarmenn sig betur og hirtu öll stigin. Sama gerðist í sundinu og víðavangshlaupinu. Þetta endaði með því að Afturelding sigraði á mótinu eftir nokkurt hlé með 28 stig. Kjósarmenn voru sem hálfdrættingar og fengu 14 stig. Mót númer 17 var í Fauskanesi 1937 og þangað komu 23 keppendur frá félögunum. Ólafur Ágúst Ólafsson á Valdastöðum setti mótið en Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, flutti ræðu um för Íslendinga á Ólympíuleikana í Berlín og var hann einnig leikstjóri. Svo hófust leikar, hlupu menn, stukku, köstuðu, syntu og glímdu. Eftir þann darraðardans hafði taflið snúist við frá fyrra ári því Drengir unnu með 29 stigum en keppinautar þeirra úr Mosfellssveitinni urðu að láta sér nægja 13 stig. Davíð Guðmundssyni í Miðdal var ógleymanlegt atvik úr 100 metra hlaupinu: Janus Eiríksson var afar lágvaxinn og ekki þrekinn en svona afskaplega kvikur í hreyfingum og fljótur að hlaupa. Hann hljóp 100 metrana á móti Karli Andréssyni á Hálsi sem var með hæstu mönnum. Karl náði góðu viðbragði og var á undan framan af. Svo í miðju hlaupi skýst Janus fram úr og fótaburðurinn var svo hraður að ekki festi auga á. Karl varð næstum því að hætta hlaupinu því hann hló svo mikið og ekki hlógu áhorfendur minna að sjá þá saman.58 Átjánda mótið var haldið á nýjum stað sem nefndist Tjaldanes 1938. Þar á ároddanum neðst í Mosfellsdal var nú kominn nýr íþróttavöllur Aftureldingar og þegar Ólafur Þórðarson Varmalandi hafði sett mótið flutti hann stutta vígsluræðu. Benedikt Waage stjórnaði mótinu í annað sinn og Jón Aðils flutti snjallt erindi um líkamsmennt áður en íþróttirnar hófust. Keppendur voru 27 svo heldur hafði aukist áhuginn. Einnig höfðu afrekin batnað. Guðmundur Jónsson Sogni stökk 1,70 m í hástökki sem var himinhátt yfir gömlum metum. Svo skildu þeir Gísli Andrésson og Janus Eiríksson jafnir í 100 metrunum á 12 sekúndum sléttum og átti nýi völlurinn eflaust sinn þátt í bætingunum. Stigakeppnin var endurtekið efni. Drengur hlaut 29 stig en Afturelding 13. Nítjánda mótið var haldið að Meðalfelli í Kjós 1939. Gestur Andrésson setti mótið með stuttri ræðu og Karlakór Kjósverja söng nokkur lög undir stjórn Odds Andréssonar. Síðan flutti Ólafur Thors atvinnumálaráðherra snjallt erindi um gildi íþrótta fyrir þjóðarþroskann. Því næst hófust íþróttir. Janus Eiríksson í Óskoti var langsamlega sprettharðastur og setti mótsmet í 100 metra hlaupi á 11,5 sekúndum. Hann vann einnig hástökkið þótt lágur væri í loftinu en snerpan var þess meiri. Keppnin var tvísýn og spennandi aldrei slíku vant og lauk með sigri Aftureldingar 22 stigum gegn 20. Tuttugasta mótið var að sjálfsögðu haldið á nýja vellinum í Tjaldanesi 1940 að viðstöddum 20 keppendum, einum fyrir hvert ár. Janus í Óskoti setti met í langstökkinu, stökk 6,14 metra og vann að sjálfsögðu spretthlaupið. Hann stökk 1,62 í hástökki og var jafn sigurvegaranum, Sigurjóni Jónssyni í Hvítanesi. Bræðurnir frá Miðdal í Kjós, Davíð og Njáll Guðmundssynir, einokuðu glímuna á þessum árum og nú fór svo að Drengur vann mótið með 27 stigum gegn 15. Tuttugasta og fyrsta mótið var haldið á Bugðubökkum í Kjós þar sem íþróttaiðkun Kjósverja hófst aldarfjórðungi fyrr. Sú hefð hafði skapast að halda mótið í ágústmánuði og ekki var brugðið út af því. Ólafur á Valdastöðum setti mótið en leikstjóri var Jóhann Bernhard úr Reykjavík. Keppt var í hinum hefðbundnu greinum og engin óvænt úrslit urðu. Úrslitin voru líka eftir bókinni og stigatalan sú sama og árið áður: Drengur 27, Afturelding 15.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==