Aldarsaga UMSK 1922-2022

91 farast fyrir eins og á sjötta mótinu en úr því rættist þó er á daginn leið og það vel, því glímumenn urðu 8 og glímdu allir liðlega og sumir vel.“ Það hefur vafalaust eflt glímumenn til dáða að heiðursgestur mótsins var enginn annar en glímukappinn Jóhannes Jósefsson, fyrsti formaður UMFÍ. Þessi víðfrægi íþróttakappi var þá alkominn heim eftir 19 ára útivist erlendis þar sem hann hafði aflað sér fjár og frama með sýningum í fjölleikahúsum víða um heim. Jóhannes hélt ræðu í hléi milli íþróttanna. „Var hún skarplega flutt og orðskrúðug,“ sagði í mótabókinni. Drengur vann mótið mjög glæsilega með 22 stigum gegn 8 stigum Aftureldingar. Áttunda mótið var sannkallað stórmót og haldið á Eyrinni 1928. Bæði voru keppendur fleiri en nokkru sinni eða 34 og einnig hafði keppnisgreinum fjölgað. Nú var keppt í kúluvarpi og kringlukasti „með betri hendi,“ eins og það var orðað. Það var nefnilega tíska í köstum á þeim tíma að mæla köst beggja handa og láta samanlagðan árangur gilda. Stjórnendur létu tískuna róa í þetta sinn og töldu einhendingu duga. Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum í Mosfellsdal sigraði í báðum greinum en hann var þá formaður Aftureldingar. En Drengsmenn höfðu yfirburði í öðrum greinum og sigruðu á mótinu með 33 stigum gegn 15. Níunda mótið átti sér stað 1929 og nú fluttu menn sig aftur á Kollafjarðareyrar. Mótið var sett með talsverðri viðhöfn því til þess var fenginn Bjarni Ásgeirsson alþingismaður á Reykjum eins og mótabókin vitnar um: Kvað hann íþróttirnar vera ákjósanlegt hjálparmeðal til að bæta upp einhæfni erfiðisvinnunnar og veita líkamanum fjölbreyttari þjálfun heldur en hún megnaði að gera. Hvatti hann alla unga menn og konur til að iðka íþróttir og sagði að eins mikill mannsbragur væri að keppa í íþróttum þótt ósigur væri vís og þeir sem það gerðu ættu fullt eins mikinn heiður skilinn og hinir sem ættu vísan sigurinn.55 Svo hófust íþróttirnar. Þorgeir Jónsson var yfirburðamaður og sigraði í 100 metra hlaupi, hástökki, langstökki, kúluvarpi og kringlukasti. Vafalaust hefði hann unnið glímuna einnig en þar var hann skráður í Íþróttafélagið Stefni á Kjalarnesi og tók þessvegna ekki þátt í glímukeppninni. Reyndar var keppt með sniði sveitaglímu þannig að annað félagið hreppti öll stigin en það breytti ekki því að Drengsmenn höfðu yfirburði. Frammistaða Þorgeirs og þau 15 stig sem hann hlaut réðu úrslitum um að Afturelding sigraði á mótinu með eins stigs mun svo tæpara mátti það ekki standa. Afturelding hafði 24,5 stig upp úr krafsinu en Drengur 23,5. Á tíunda mótinu á Hvalfjarðareyri 1930 var Ólafur Sveinsson sérstakur fulltrúi ÍSÍ en Gestur Andrésson á Neðra-Hálsi stjórnaði því. Þorgeir í Varmadal var nú allur genginn í raðir Stefnis og munaði um minna fyrir Aftureldingu. Keppendur félagsins urðu einungis fimm vegna forfalla og riðu ekki feitum hesti frá mótinu. Reyndar voru ekki nema átta keppendur frá Dreng og er óhætt að tala um fylgishrun við íþróttirnar. Í ofanálag var veðrið heldur leiðinlegt og féllu bæði sund og víðavangshlaup niður af þeim sökum. Drengsmenn höfðu yfirburði og hlutu 27 stig gegn þremur stigum Aftureldingar. Í glímunni kepptu bræðurnir Hákon og Guðmundur Þorkelssynir á Valdastöðum til úrslita, bróðursynir Þorgils Guðmundssonar. Hákon sagði söguritara síðar frá hvernig fór: Við vorum bara fimm sem glímdum. Þá vorum við jafnir við Guðmundur bróðir og áttum að glíma til úrslita. Þá ætlaði ég nú að sýna góða glímu. GuðLjósrit úr mótabók Aftureldingar og Drengs með rithönd Steindórs Björnssonar. Þarna sést nafnalisti keppenda frá þriðja mótinu 1920.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==