Aldarsaga UMSK 1922-2022

88 Eftir nokkrar dagleiðir var komið til Niðaróss en þar stóð fyrir dyrum mikil hátíð til að minnast þess þegar Ólafur kóngur Haraldsson féll á Stiklastöðum réttum 900 árum áður. Á Ólafsdaginn, 29. júlí, voru 30 til 40 þúsund manns þar saman komin og mikið um dýrðir. Þarna gengu 400 kaþólskir prestar og munkar í skrúðgöngu en allt var þetta á kirkjulegum nótum og miklu þunglamalegra en Alþingishátíðin að mati Guðbjörns. Best líkaði honum að allir viðstaddir sungu með þegar svo bar undir. Þrjá daga dvöldust menn í Niðarósi enda var margt að skoða, margar sýningar sem tengdust þessum viðburði. Þá var lagt í hann aftur og fljótlega komið í Guðbrandsdalinn sem er breiður og fagur, einna glæsilegastur af öllum fögrum dölum Noregs. Stansað var í Lillehammer sem stendur við Mjösen, stærsta vatn Noregs. Þar skoðuðu menn hið merka byggðasafn á Maihaugen, „Sandvíkursafnið“ eins og Íslendingar nefndu það. Svo var komið við á Aulestad, bústað Björnstjerne Björnson, þjóðskálds Norðmanna. Skáldjöfurinn var látinn en Einar sonur hans tók þeim tveim höndum og sýndi allan staðinn. Til þess var tekið að slíkan heiður hefði þessi sérvitringur aldrei sýnt löndum sínum. Næst var komið til Osló. Þar tók á móti þeim Aslak Torjusson, ritari Ungmennafélags Noregs, sá maður sem hafði undirbúið og ráðstafað allri förinni, hverjum degi og mínútu. Þar var okkar fólk um tíma í akkorði að skoða merkilega staði og hluti eins og Ásubergsskipið, stórt víkingaskip sem fannst nokkrum árum fyrr og Holmenkollen, þar sem ólífhræddir skíðamenn stökkva langar leiðir af hæsta stökkpalli heims. Eitt kvöldið héldu heimamenn samkomu og dönsuðu norska þjóðdansa gestunum til heiðurs. Daginn eftir, 6. ágúst, skoðuðu menn stærsta iðjuver Noregs, áburðarverksmiðjuna í Rjukan. Það er kennt við stærsta og tignarlegasta foss í öllum Noregi. Þarna var 7000 manna bæjarfélag og íbúarnir störfuðu allir við verksmiðjuna. Eftir skoðunarferð um stærstu silfurnámu Noregs í Kóngsbergi var haldið upp í Hallingdal og þar fengu Íslendingarnir að sjá hið fræga Hallingahopp sem Guðbjörn taldi hreinasta íþróttaafrek en lýsti því ekki nánar. Svo var haldið upp til fjalla og selin skoðuð ásamt því að raða í sig ósviknum sveitamat. Síðan ekið yfir Harðangursvíðáttu sem var ekki ósvipuð Holtavörðuheiðinni fannst mönnum. Næst var komið til Odda sem var verksmiðjubær með áburðar- og járnblendiverksmiðjum. Ekki leist Guðbirni á mannlífið þar og lýsti því þannig: Þar gat átakanlega að líta, hver áhrif stóriðjan hefir á sálarlíf og mannsbrag þeirra, sem við verksmiðjur vinna og hvað auðnulaust og ræfilslegt slíkt fólk verður að útliti og framkomu, sem um ekkert æðra hefir að hugsa, en að vera hluti af þeim vélum, sem það vinnur við. Megum við Íslendingar þakka forsjóninni, að sú ógæfa hefir enn eigi hent þjóð vora, að eignast stóriðju, sem gerði okkur að jafn stóriðjumótuðum auðnuleysingjum eins og flestallt fólkið í Odda bar með sér.51 Áfram var haldið og fjölmargt skoðað: Fjallgarðar, fannir og skriðjöklar, skógar og stafkirkjur. Loks var komið til Stafangurs og þar beið Anders Lövik sem kom til Íslands 1924 og urðu fagnaðarfundir. Svo var ekið um Jaðar, eitt helsta landbúnaðarhérað landsins. Þar er sléttlendi en afar grýtt og mátti víða sjá metersþykka grjótgarða hlaðna úr þeim hnullungum sem höfðu komið upp úr jörðinni þegar verið var að brjóta hana til ræktunar. Að sögn Guðbjörns myndu Jaðarsbændur glaðir ef þeir hefðu sömu ræktunarskilyrði og þau sem við Íslendingar getum valið úr. Þarna var bústaður hins fræga sveitaskálds Árna Garborgs sem samdi óteljandi ljóð og sögur um bændafólkið á Jaðrinum. Um kvöldið voru menn drifnir í leikhús og sáu Húskross Austmannsbræðra, gamanleik sem búið var að sýna 700 sinnum út um allan Noreg. Svo var haldið til Haugasunds og augum rennt yfir ýmisleg sjáverðugheit. Þar á meðal barnaskóla fyrir 1200 börn sem kostað hafði nærri 3 milljónir króna og þótti mönnum nokkuð til um. Síðan var haldið til Björgvinjar og hringnum þar með lokað. Þar var dvalist í nokkra daga við að skoða það sem eftir var að skoða. Heimferðin hófst með lestarferð til Gautaborgar og síðan var siglt til Kaupmannahafnar. Siglingin til Íslands gekk greiðlega og þangað var komið 31. ágúst. Upplifun ferðalanganna var þvílík að þeir þóttust þurfa ár og daga til að gera því öllu skil og Guðbjörn átti eftir að lýsa henni ennþá betur í riti og ræðum á vegum Velvakanda. Ferðin til Noregs var sannkölluð ævintýraferð en harðnandi árferði kom í veg fyrir fleiri slíkar næstu áratugi. Íþróttamót Aftureldingar og Drengs Hin dugmiklu ungmennafélög í Kjósarsýslu, Afturelding og Drengur, fóru fljótlega að huga að samstarfi á íþróttasviðinu og upp úr áramótunum 1917–1918 var farið að undirbúa sameiginlegt leikmót milli félaganna. Fyrsta íþróttamótið var svo haldið 1918 og síðan til skiptis nær árlega allt til 1957. Keppendur voru allt karlmenn en konur kepptu aldrei á þessum mótum. Keppnisíþróttir

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==