Aldarsaga UMSK 1922-2022

84 „grænmetisræktarstarfsemi“ sína árið 1934. Svo er að sjá að Kjósarmenn hafi tekið áskorun stjórnarinnar með trompi því á þinginu 1935 sagði Gestur Andrésson á Hálsi frá því að nú væri ræktað grænmeti á flestum bæjum í hans félagi. Afturelding starfrækti vermireit og ræktaði þar fræplöntur fyrir félagsmenn sína. Næstu árin bárust aðeins jákvæðar fréttir af matjurtaræktun félaganna þriggja. Þegar Grímur Norðdahl bóndi á Úlfarsfelli lagði fram nokkur öx af íslensku byggi á einu þinginu urðu menn svo hrifnir að þeir lögðu til að UMSK sneri sér að kornrækt. Aðrir hvöttu til aukinnar ræktunar og bentu á að jurtafæða væri holl. Þegar matjurtirnar virtust komnar í góðan jarðveg sneru menn sér meira að skógræktinni. Hópferðir voru farnar í Þrastaskóg til útplöntunar og umhirðu og sum félaganna eignuðust sína eigin reiti til ræktunar. Markmið ungmennafélaganna um ræktun lýðs og lands var svo sannarlega í fullu gildi innan UMSK. Víðavangshlaupin og Íþróttafélag Kjósarsýslu Víðavangshlaup ÍR hóf göngu sína í Reykjavík árið 1916 og hefur síðan verið hlaupið árlega á sumardaginn fyrsta allt til þessa dags. Það varð fljótlega stórviðburður í bæjarlífinu og íbúar höfuðstaðarins streymdu þúsundum saman á vettvang til að fylgjast með. Reglur hlaupsins voru þannig upphaflega að keppt var í fimm manna sveitum og hlaut hver hlaupari stig jafnmörg sæti sínu. Sú sveit sigraði sem hlaut fæst stig. Yfirleitt hófst hlaupið og endaði nálægt Austurvelli en vegalengdin var nálægt fjórum kílómetrum. Gefinn var bikar til sigursveitarinnar en með því skilyrði að fleiri en eitt félag kepptu um hann. Allt frá upphafi höfðu ÍR-ingar verið einir um hituna og því hafði bikarinn góði aldrei verið afhentur en safnað ryki í vörslu félagsins. Við svo búið vildu framgjarnir ÍR-ingar ekki láta standa og fóru að líta í kringum sig eftir keppinautum þegar búið var að hlaupa fjórum sinnum. Það er alkunna að sveitamenn sem elta kindur sínar upp um fjöll og dali verða sporléttir og þindarlausir af sífelldum þolhlaupum. Þar voru íþróttamenn úr Kjós og Mosfellssveit engin undantekning en fáir vissu getu þeirra því þeir höfðu aldrei tekið þátt í hlaupakeppnum. Nú sneru ÍR-ingar sér til þessara nágranna sinna og báðu þá að taka þátt í víðavangshlaupinu árið 1920 til þess að þeir fengju einhverja keppni. Þolhlauparar Aftureldingar og Drengs voru til í það með því skilyrði að þeir mættu senda sameinað lið í hlaupið því ella mundu þeir ekki ná að koma saman fimm manna sveit. ÍR-ingar samþykktu þetta og nú brá svo við að Ármenningar mættu einnig til leiks. Skráðir hlauparar voru 35 og var það fjórföld aukning frá árinu áður. Hlaupið fór fram á hefðbundnum stað og tíma, það hófst og því lauk í Austurstræti á sumardaginn fyrsta. Ekki var um þægilegt hlaup eftir rennisléttum götum að ræða því varðveist hefur leiðarlýsing á þessa leið: „Hindranir á leiðinni: 5 skurðir 1,5 til 3 m breiðir, fullir af snjó og vatni, 3 gaddavírsgirðingar, 4 girðingar af sléttum vír, af þeim 2 með 4 m millibili og 2 grjótgarðar, annar við skurð.“ Hér voru sveitamennirnir á sannkölluðum heimavelli enda fóru þeir sigurför. Fyrstur varð Þorgils Guðmundsson á Valdastöðum í Kjós og félagar hans fjórir voru nógu framarlega til að fimm manna sveit Aftureldingar og Drengs fékk fæst stig eða 37 og hlaut bikarinn til varðveislu. ÍR-ingar komu á hæla þeim með Hlauparar búa sig undir að hefja Víðavangshlaup ÍR á Austurvelli 1920.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==