Aldarsaga UMSK 1922-2022

82 Þá var það sem vikivakar voru æfðir af svo miklu kappi að það minnti helst á stórhirðingu í óþurkasumri. Þá var það sem vikivakaskáld, hagyrðingar og þjóðfræg tónskáld kepptust við að leggja fram sem mestan og bestan skerf af sínum andans afurðum. Það var andi hinnar frjálsu samkeppni sem rjeði. Nýir vikivakar ruddu sér til rúms og ný lög og ljóð urðu á hvers manns vörum og þó óx þetta allt fram í hinni dásamlegustu samvinnu. Hvert spor, hvert orð, hver tónn og taktur var fellt saman þar til úr því var orðin ein lífræn heild – vikivaki.47 Flokkurinn sýndi listir sínar á Melavelli á hátíðarhöldum íslensku vikunnar vorið 1932. Þar dansaði flokkur 68 barna og var það að mestu sami flokkurinn og sá sem sýndi á Alþingishátíðinni 1930. Honum stjórnaði Ásthildur Kolbeins. Flokkur hinna fullorðnu taldi 90 ungmennafélaga úr félögunum þremur undir stjórn Ólafs Þorsteinssonar, formanns Velvakanda. Sýningin tókst vel, veður var hið besta og þúsundir áhorfenda skemmtu sér vel að sögn dagblaðanna. Alda vikivakanna reis hvað hæst árið 1932 innan UMSK. Um vorið var stofnaður 12 manna úrvalsflokkur sambandsins. Í honum voru þeir félagar frá félögunum þremur sem hvað mestan áhugann höfðu og fótfimastir voru. Dansað var við píanótónlist og undirleikarinn var sá frægi skemmtikraftur Bjarni Bö., faðir Ragnars söngvara. Flokkurinn æfði ósleitilega víðsvegar um Reykjavík og sýndi á fimm stöðum sunnanlands við ágætan orðstír. Mesta athygli vöktu nýir vikivakar við lög eftir Sigvalda Kaldalóns og vikivakaleikur við þjóðlagið „Hér er kominn Hoffinn“. Hápunkturinn var sýning flokksins 19. júní í Þrastaskógi þegar minnst var 25 ára afmælis UMFÍ. Á ársþingi UMSK haustið 1933 gat Gestur formaður þess að vikivakaflokkur sambandsins „væri við góða heilsu og hefði haldið þrjár sýningar á árinu og einnig hefði verið sendur kennari til Keflavíkur til að kenna þar vikivaka.“ Stjórnin hafði látið skrifa vikivakana upp í heild sinni og mælti með að þeir yrðu fjölfaldaðir á kostnað sambandsins. Ennfremur vildi hún leggja væna fjárhæð til vikivakaflokksins. Þetta var samþykkt þrátt fyrir mótmæli Lárusar Halldórssonar á Brúarlandi sem taldi vikivakana varla þess virði að vera settir efstir á blað hjá héraðsstjórninni. Talsvert var um að ungmennafélagar utan af landi lærðu vikivaka hjá Velvakanda á vetrum og kenndu þá svo seinna meir í sinni heimabyggð. Þannig breiddust þeir út um landsbyggðina og náðu sumstaðar fótfestu. Kreppuárin voru blómatími vikivakanna en þegar umheimurinn kvaddi dyra með hernáminu 1940 fór heldur að þrengja að þeim. Síðast er getið um vikivakakennslu hjá Velvakanda í janúar 1939 en um haustið var Rigmor Hanson danskennari fengin til að kenna félagsmönnum samkvæmisdansa. Svipað var uppi á teningnum hjá Aftureldingu. Vorið 1940 dönsuðu menn vikivaka á félagsfundi fram á rauða nótt en árið eftir greiddu menn sex krónur í þátttökugjald á dansnámskeiði hjá Rigmor Hanson. Tími vikivakanna var liðinn og samkvæmisdansar stríðsáranna tóku yfirhöndina í dansmennt ungmennafélaganna. Gróður og grænmeti Stjórnendur UMSK drógu hvergi af sér við að hvetja liðsmenn sína til ræktunar lýðs og ekki síður lands. Þar var skógræktin ofarlega á blaði og bæði Afturelding og Drengur eignuðust sína skógræktarbletti og gróðursettu þar trjáplöntur rétt eins og flest önnur ungmennafélög í landinu. Velvakendur í Reykjavík létu slíkt ógert lengi vel, minnugir þeirra hrakfara sem skógræktin hlaut hjá forverum þeirra í Ungmennafélagi Reykjavíkur við Skíðabrautina í Öskjuhlíð. Síðar áttu þeir margar ferðir í Þrastaskóg til trjáplöntunar og umhirðu skógarins. En fleira var hægt að rækta en trjáplöntur ef að var gáð. Á þessum tíma voru landsmenn sem óðast að uppgötva að til væru fleiri tegundir grænmetis en kartöflur og gulrófur. Svo var blómarækt að öðlast vinsældir og á farfuglafundi veturinn 1924 var Guðbjörn Guðmundsson frummælandi um ræktunarmál. Hann var ekkert að tvínóna við það en lagði til að ungmennafélagar stefndu að því að koma upp skógrækt og grænmetis- og blómagörðum við hvern einasta bæ á landinu. „Við það skapast starf sem ber sýnilega ávexti, eykur smekkvísi, þrifnað og menningu meðal þjóðarinnar og gerir sveitirnar enn blómlegri, fegurri og vinalegri heim að sækja og í að dvelja,“ sagði Guðbjörn í ávarpi sínu. Næst komu ræktunarmál til umræðu á þingi UMSK árið 1931 þegar Rannveig Þorsteinsdóttir, gjaldkeri sambandsins og einnig Velvakanda, „talaði um stofnun gróðurreita þar sem félagsmenn gætu varið tómstundum sínum sínum sjer til gagns og ánægju við jarðræktarstörf.“ Í umræðum kom fram að félögin hefðu þegar starfað í þessa átt með misjöfnum árangri. Greinilega þótti stjórnarmönnum mega gera betur og á stjórnarfundi rétt fyrir ársþing 1933 var rætt um það hver ráð myndu helst duga til þess að að auka grænmetisræktun og -notkun. Niðurlag fundargerðarinnar var svohljóðandi:

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==