Aldarsaga UMSK 1922-2022

81 og fróðleiks um þessa dansa að svo miklu leyti sem um þekkingu getur verið að ræða. Það kom brátt í ljós, að dansar þessir þóttu fegurri og þjóðlegri en tískudansarnir og vildu því margir verða til að læra þá. Varð það þá úr að Helgi æfði annan flokk með nokkrum nemendum Kennaraskólans, og er þeir voru allvel á veg komnir, var ákveðið að hrinda í framkvæmd þeirri hugmynd, sem fram hafði komið í Velvakanda að efna til veglegs álfadans nú um áramótin. Voru þá báðir flokkarnir æfðir saman úr því, með þetta fyrir augum og hefir sjerstök alúð verið lögð við gömlu álfakvæðin, sem hvert mannsbarn þekkir.46 Álfadansinn fór fram að viðstöddum þúsundum áhorfenda sem þótti ærið nýnæmi að sjá vikivaka því slíkt höfðu þeir aldrei áður augum litið. Sýndir voru dansar eins og Ólafur liljurós, Hólbúaslagur, Faldafeykir, Ljúflingslag, Draumbót, Töfraslagur og margir fleiri. Seinna um veturinn voru haldnar tvær vikivakasýningar á vegum félagsins. Á fundi Velvakanda um þetta leyti sagði Guðbjörn formaður að hann „teldi nauðsyn á að æfa þyrfti vikivaka almennt svo að hver Velvakandi kynni þá, auk þess sem þeir væru iðkaðir á fundum.“ Sú hefð myndaðist hjá Velvakanda eftir þetta að dansa vikivaka í fundarlok og mörgum fundargerðum félagsins lauk á þessum eða svipuðum nótum: „Því næst var sest að kaffi eftir venju og er borð voru upp tekin var dansaður vikivaki til kl. rúmlega 12.“ Eftir þetta voru þeir kenndir innan félagsins á hverjum vetri fram til 1934 og var félagið einn öflugasti brautryðjandi þessarar dansvakningar. Helgi Valtýsson samdi myndskreytt kennslukver í vikivökum sem kom út á vegum UMFÍ árið 1930. Fullu nafni hét bókin: Vikivakar og söngleikir. Stuttur leiðarvísir, lauslega samantekinn handa ungmennafélögum Íslands af Helga Valtýssyni. Þetta kver var mikið notað af ungmennafélögum innan UMSK. Bæði Aftureldingarmenn og Velvakendur æfðu vikivaka hvern vetur og mynduðust æfðir dansflokkar á báðum stöðum. Hjá Velvakanda voru flokkarnir tveir og um það bil 20 manns í hvorum. Og svo var dansað og dansað. Velvakendur voru sérlega velvakandi fyrir því að útbreiða vikivakana og tókst að smita nágrannafélögin Aftureldingu og Dreng af áhuga sínum. Í framhaldi af því voru æfðir vikivakar í félögunum þremur veturinn 1931–1932. Grímur Norðdahl, sem var einn af mestu áhugamönnum um þjóðdansa og ritfær maður, sagði frá þessu í grein um vikivaka sem birtist í Dagrenningi, blaði Aftureldingar, árið 1937: Vikivakaflokkur UMSK. Karlar: Ólafur Þorsteinsson, Grímur S. Norðdahl, Ólafur Andrésson, Þorleifur Guðmundsson, Guðmundur Jónsson og Þórður Einarsson. Konur: Júlía Helgadóttir, Rósa Þorsteinsdóttir, Sigríður Einarsdóttir, Ásthildur Kolbeins, Rannveig Þorsteinsdóttir og Ingigerður Helgadóttir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==