Aldarsaga UMSK 1922-2022

80 farveg Öxarár en þar sem fyrirmæli voru öll símleiðis var það ekki sérlega auðvelt. Afleiðingin varð sú að menn stóðu verklausir dögum saman. Vinnumönnum hafði verið lofað íþróttakennslu en hún brást og þess í stað „lékum við dálítið að handknetti“, sagði verkstjórinn. Málfundir voru tveir og farin skemmtiganga á Botnssúlur. Svo komu ýmsir góðir gestir í heimsókn, þar af stjórn UMSK tvívegis. Alls voru þarna unnin 256 dagsverk af félögum 15 ungmennafélaga en hefðu getað orðið um 300 ef Þingvallanefnd hefði staðið sig betur. Guðbjörn Guðmundsson var greinilega óhress með yfirvöld þegar hann skrifaði um Þingvallavinnuna í Skinfaxa. Lokaorð hans voru: Get eg eigi varist þeirri hugsun, af þeirri reynslu, sem eg hefi af þessum málum að sitthvað muni verða ógert að Alþingishátíðinni lokinni, sem gera átti henni til undirbúnings – verði ekki betur hugsað fyrir þeim málum, en Þingvallavinnu ungmennafélaganna. Lof og þökk sé ungmennafélögum fyrir góðan skilning og ótrauðan áhuga, sem þeir hafa sýnt fyrir þessu máli, en látið hann ekki dofna fyr en yfir lýkur ! Og minnist þess, að ekki er okkar skömmin þótt framréttar, verkfúsar hendur séu ekki notaðar.45 Það leynir sér ekki að formaður UMSK var stórmóðgaður fyrir hönd félaga sinna og ekki bætti úr skák að vegna skipulagsmistaka var vegurinn góði aldrei notaður. Fulltrúar UMSK áttu fund með framkvæmdastjóra Alþingishátíðarinnar sem reyndar bað þá afsökunar á frammistöðu nefndarinnar en bauð þeim síðan að vinna samhliða launþegum að þeim verkefnum sem í boði voru. En það hafði alltaf verið ætlun ungmennafélaga að leggja fram eitthvað sérstakt sem þeir gætu helgað sér til minningar um þessa hátíð og nú var þeim nóg boðið og tilkynntu að sjálfboðavinnu þeirra væri hér með lokið. En ungmennafélagar ætluðu sér mikinn hlut á Þingvöllum og allt í hreyfingunni snerist um það tvö síðustu árin fyrir hátíðina. UMFÍ hélt aukaþing árið 1929 og þar var fátt annað en Þingvellir á dagskrá. Alþingishátíðin fór svo fram dagana 26.–29. júní 1930. Þangað komu 30 þúsund manns sem var meira en íbúafjöldi höfuðborgarinnar. Ungmennafélögum varð að ósk sinni því þeir settu mikinn svip á hátíðarhöldin. Þeir gengu fram fylktu liði við setningu hátíðarinnar undir fánum með merki sambandsins og landsfjórðunganna. Svo var haldin vegleg bændaglíma undir stjórn Sigurðar Greipssonar og íþróttamenn landsbyggðarinnar tóku þátt í stórbrotnum íþróttasýningum. Síðan komu börnin 70 frá Umf. Velvakanda sem sýndu vikivaka klædd fallegum þjóðbúningum. Sýningin vakti mikla hrifningu og framkallaði tár á vöngum margra áhorfenda. Var hún að margra áliti einn glæsilegasti atburður hátíðarinnar, UMSK til sæmdar og vikivökunum til vegsauka. Alþingishátíðin var mesta hátíð sem haldin hafði verið á Íslandi og var lengi í minnum höfð. Vikivakar Þjóðdansarnir fornu, vikivakarnir, lifðu hérlendis í margar aldir en lögðust að lokum niður á 19. öld. Í hinni miklu þjóðernisvakningu ungmennafélaganna fyrir Alþingishátíðina 1930 kom upp sú hugsjón að endurvekja vikivakana og á sambandsþingi UMFÍ 1927 var samþykkt að koma á kennslu í þeim sem allra víðast. Þar gekk Helgi Valtýsson kennari fram fyrir skjöldu en hann mátti heita sá eini Íslendingur sem einhverja þekkingu hafði á vikivökum. Þeim kynntist hann hjá norskum ungmennafélögum þegar hann dvaldist í Osló snemma á öldinni. Haustið 1927 hóf Helgi að kenna vikivaka hjá Umf. Velvakanda og einnig hjá nemendum Kennaraskólans. Félagar í Aftureldingu létu þá ekki sitt eftir liggja og fengu Helga til að koma sér á sporið. Fyrsta kennslustundin fór fram á aðventunni 1927. Akurnesingar komu í kjölfarið seinna um veturinn. Eins og sjá má voru það fyrst og fremst félagar í UMSK sem nutu góðs af kennslu Helga enda urðu vikivakar eitt af þeirra helstu viðfangsefnum næstu árin. Þeir voru fyrst sýndir opinberlega á álfadansi sem Umf. Velvakandi gekkst fyrir á Melavellinum 11. janúar 1928. Á þrettándanum það ár birtist heilsíðugrein í Morgunblaðinu um álfadansinn og vikivaka eftir Guðbjörn Guðmundsson. Þar stóð meðal annars: Fyrir nokkru hefir Samband Ungmennfjel. Íslands ákveðið að reyna að endurvekja gömlu, íslensku Vikivakana og söngleikina, sem nú hafa legið niðri í full 130 ár. Má öllum vera ljóst, að slíkt er ekkert áhlaupaverk, þegar þess er gætt að furðu lítið hefir geymst meðal alþýðu og í bókmenntum vorum, er dansa þessa snertir, og er það ekkert einsdæmi um okkur Íslendinga, því svo hefir öllum Norðurlandaþjóðunum farið um sína dansa – nema Færeyingum. … Á síðasta hausti var svo stofnaður flokkur innan U. M. F. Velvakandi, er vera skyldi nokkurskonar tilraunaflokkur, og tók Helgi Valtýsson að sjer að æfa flokkinn og búa til dansana, enda mun hann til þess færastur allra Íslendinga, sakir þekkingar

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==