Aldarsaga UMSK 1922-2022

79 Hinsvegar er það óviðunandi að sá helgi staður flaki í sárum eins og ómarkverður úthagi og leitt ef ekki væri unnt að sýna á neinn hátt hversu okkar fornu hetjur sem gert hafa garðinn frægan, bjuggu er þeir gistu Alþingi hið forna eftir því sem sögurnar best herma. Var því samþykkt: Að beina því til ungmennafélaga hvort þau ekki sæju sér fært í þjóðræknis- og metnaðarskyni að leggja fram ókeypis vinnukraft til nauðsynlegra starfa á Þingvöllum fyrir 1930, staðnum til prýðis, sem annars verða óunnin látin, annaðhvort að félögin sendu þangað fyrir sína hönd félaga eða kostuðu þar mann eða menn fyrir sína hönd.44 Á þingi UMSK haustið 1926 voru samþykktar tillögur sem sendar voru öllum aðildarfélögum UMFÍ. Þar var skorað á félögin að leggja fram vinnu til undirbúnings Þingvallahátíð og lagt til að hvert félag legði til einn mann í mánuð árlega og í fyrsta sinn sumarið 1927. Beðið var um svör fyrir 10. apríl svo hægt væri að skipuleggja vinnuna. Þar með var UMSK búið að taka forystu í undirbúningi Alþingishátíðarinnar 1930. Sambandið hafði tekið frumkvæðið úr höndum UMFÍ og meira að segja ríkisvaldsins. Meðan stjórnskipuð Þingvallanefnd velti vöngum yfir því hvort ætti að halda hátíðina í Reykjavík eða á Þingvöllum var enginn efi í huga UMSK-fólks. Þingvellir skyldu það vera og 13. júní 1927 komu átta röskir og duglegir ungir menn þangað til starfa. Tveimur dögum seinna hófst ársþing UMFÍ sem haldið var á þriggja ára fresti. Þar var UMSK falið að stjórna framkvæmdum á Þingvöllum í samráði við UMFÍ og skorað á öll ungmennafélög að styðja þetta starf með ráðum og dáð. Drengirnir átta komu frá fjórum héraðssamböndum. Borgfirðingar skiluðu 8 dagsverkum, Vestfirðingar 12, Skarphéðinsmenn 42 en frumkvöðlarnir hjá UMSK trompuðu þetta allt með 105 dagsverkum. Þessir ungu menn unnu af kappi í þrjár vikur og sléttuðu út gamlar reiðgötur sem breyttust við það í tjaldstæði. Þá lagfærðu þeir einnig veginn um vellina. Þeir iðkuðu íþróttir á kvöldin, syntu í Öxará og gengu á fjöll. Stjórnvöld létu þeim í té húsnæði, fæði, þjónustu, verkfæri og verkstjóra. Sú stórbrotna hugmynd að reisa þingbúð í fornum stíl varð þó að víkja fyrir gömlum húsdraug, nefnilega fjárskorti sem gerði það að verkum að ekki var hægt að vinna eins mikið og menn hefðu viljað. Næsta sumar hófst Þingvallavinnan 21. maí 1928. Fyrst komu þrír piltar og þeir urðu 13 þegar best lét. Verkstjórinn sem UMSK lagði til hét Ólafur Þ. Kristjánsson og skilaði hann skýrslu til Skinfaxa sem hér er vitnað til. Hann var ekki ánægður með frammistöðu Þingvallanefndar sem var í skötulíki en bar UMSK og ungmennafélögum vel söguna. Þriggja kílómetra vegalagning milli Kárastaða og Almannagjár var helsta verkefnið ásamt gangstíg ofan í gjána. Svo var reynt að laga Ungmennafélagar í UMSK dansa vikivaka á Kollafjarðareyrum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==